Hoppa yfir valmynd
7. desember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Fagráð Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar skipað

Emil Lárus SigurðssonSvandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað fagráð Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar til næstu fjögurra ára. Formaður fagráðsins er Emil Lárus Sigurðsson, forstöðumaður þróunarmiðstöðvarinnar.

Þróunarmiðstöðin sem sett var á fót í sumar starfar á landsvísu og hefur hlutverki að gegna við eflingu og þróun heilsugæsluþjónustu um allt land. 

Í fagráðinu eiga sæti fulltrúar allra heilbrigðisstofnana á landinu sem reka heilsugæslustöð, fulltrúi sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva og frá heilbrigðisvísindasviðum Háskólans Íslands og Háskólans á Akureyri. 

Heilbrigðisráðherra kynnti í maí síðastliðnum ákvörðun um að veita auknum fjármunum til að efla og þróa heilsugæsluþjónustu um allt land en liður í því var að setja á fót Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar með hlutverk á landsvísu. Miðstöðinni er ætlað að leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu, hvort sem hún er veitt af hinu opinbera eða einkarekin.

Auk þess að stuðla að nýjungum og þróun þjónustuúrræða í samræmi við helstu áskoranir á sviði lýðheilsu mun Þróunarmiðstöðin annast innleiðingu gæðavísa, leiða samstarf á sviði rannsókna og stuðla að því að sérhæfð þekking fagfólks heilsugæslunnar um allt land nýtist sem best. Samræming og samhæfing þjónustu á landsvísu er eitt af meginmarkmiðunum með stofnun miðstöðvarinnar, þannig að betur megi tryggja jafnræði landsmanna og aðgang þeirra að sambærilegri heilsugæsluþjónustu, hvar sem fólk býr.

Fulltrúar í fagráði Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar sem ráðherra skipar í samræmi við reglugerð um heilsugæslustöðvar eru eftirtaldir:

  •  Emil Lárus Sigurðsson, forstöðumaður Þróunarmiðstöðvarinnar, formaður
  •  Óskar Reykdalsson, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  •  Örn Ragnarsson, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Norðurlands
  •  Anna Guðríður Gunnarsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurlands
  •  Íris Dröfn Björnsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
  •  Hulda Gestsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Vesturlands
  •  Pétur Heimisson, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Austurlands
  •  Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
  •  Sigríður Sía Jónsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri
  •  Ragnar Pétur Ólafsson, tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
  •  Oddur Steinarsson, tilnefndur af heilsugæslustöðvunum Salahverfi, Urðarhvarfi, Höfða og Lágmúla

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum