Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 248/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 248/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050010

Kæra [...]

og barns hans

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. maí 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020, um að synja honum og barni hans, [...], fd. [...], ríkisborgara [...], um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og barni hans veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 69. gr. eða 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barns hans til frekari rannsóknar og nýrrar meðferðar.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 8. ágúst 2018. Þá sótti kærandi um dvalarleyfi f.h. sonar síns, [...], fd. [...], þann sama dag. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2020, var umsóknunum synjað. Þann 11. maí sl. kærði kærandi ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála og greinargerðir kæranda og barns hans bárust kærunefnd þann 26. maí sl. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 22. júní og 14. júlí sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að við vinnslu umsóknar hafi vaknað grunur hjá stofnuninni um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Þann 21. ágúst 2019 hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf þar sem rakin voru þau atriði sem að mati stofnunarinnar bentu til þess að hjúskapur þeirra væri hugsanlega til málamynda. Þann 23. september 2019 hafi stofnuninni borist greinargerð frá lögmanni kæranda.

Vísaði Útlendingastofnun til og rakti ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga auk lögskýringargagna með ákvæðinu. Í framlögðu reikningsyfirliti maka kæranda hafi verið að finna háar millifærslur frá konu að nafni [...]. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að [...] væri dóttir [...] en hann og maki kæranda hafi bæði fengið greidd laun frá eignarhaldsfélaginu [...]. Þá hafi komið í ljós að [...] og maki kæranda hefðu ferðast á sama tíma til [...] þann 15. mars 2017 og komið til baka sama dag, eða þann 4. maí 2017. Í framangreindri ferð hafi þau bæði kynnst mökum sínum fyrir tilviljun á sömu ströndinni í sama mánuði, þ.e. á [...] ströndinni í [...] héraði í apríl 2017. Kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 8. ágúst 2018 en maki [...] hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 31. júlí 2018. Var það mat Útlendingastofnunar að gögn umsóknanna beggja væru svipuð. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að um þriðja hjúskap maka kæranda væri að ræða en hún hefði síðast verið í hjúskap á tímabilinu 2013 til 2017 og hefði skilið að lögum við fyrrverandi maka sinn þann 4. júlí 2017, en hann hefði áður fengið útgefið ótímabundið dvalarleyfi þann 26. janúar s.á. Að mati Útlendingastofnunar vekti hjúskaparsaga maka kæranda grunsemdir. Jafnframt væri 11 ára aldursmunur á kæranda og maka en í lögskýringargögnum með 70. gr. laga um útlendinga kæmi fram að aldursmunur væri eitt af þeim atriðum sem líta beri til þegar metið sé hvort grunur sé á málamyndahjúskap.

Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 23. júní 2019, hafi lögregla farið á heimili maka kæranda. Kæmi þar fram að engar myndir hafi verið til sýnis á heimilinu sem bentu til þess að maki kæranda ætti eiginmann. Þá hafi kærandi lagt fram alls níu myndir af sér og maka en myndirnar hafi allar verið teknar við sömu tækifæri, þ.e. á flugvelli og í sama matarboði. Að mati Útlendingastofnunar hefðu gögn eins og myndir og samskipti mikla þýðingu við ákvörðun stofnunarinnar en með því að leggja fram fjölda mynda við mismunandi tilefni væri kærandi að sýna fram á að hann og maki hefðu varið tíma saman. Til að undirstrika hversu þýðingarmikil slík gögn væru við ákvörðun benti stofnunin á úrskurð kærunefndar útlendingamála í máli nr. 564/2019 frá 27. nóvember 2019. Með vísan til alls framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri til staðar um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi og að kærandi hefði ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar fyrir barn kæranda kemur fram að þar sem að föður hans hafi verið synjað um dvalarleyfi með ákvörðun Útlendingastofnunar og hann leiði rétt sinn af föður sínum uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 69. g. laga um útlendinga og sé umsókn hans þegar af þeirri ástæðu synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs og við túlkun á ákvæðinu beri að beita þröngri lögskýringu og vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Af því leiði að stjórnvöldum beri skylda til að framkvæma eigið mat og tryggja að slíkt að fari raunverulega fram í hverju tilviki. Þá beri einnig að horfa til hugtaksins „rökstuddur grunur“, sem vísi m.a. til þess að eitthvað sé stutt ástæðum eða rökum. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar nr. 83/2019 máli sínu til stuðnings. Gerir kærandi ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Af orðalagi ákvörðunarinnar megi ráða að Útlendingastofnun líti enn til þess að í þeim leiðbeiningum sem finna megi í greinargerð með lögum um útlendinga, séu tiltekin og upptalin alls 11 atriði, þó svo að það komi ekki lengur orðrétt fram í hinni kærðu ákvörðun. Hafi þessari aðferðarfræði stofnunarinnar áður verið mótmælt og hafi kærunefnd fallist á þau andmæli, sbr. m.a. úrskurð í máli nr. 487/2019. Að mati kæranda útilokar slík aðferðarfræði getu stjórnvaldsins til að mynda sér heildstætt mat í hverju máli og ýti undir verulega hættu á að málsatvik verði túlkuð með þeim hætti sem stjórnvaldinu henti, í stað þess að framkvæmd sé sjálfstæð rannsókn og mat á málsatvikum og aðstæðum.

Byggir kærandi á því að í málinu verði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að kærandi og maki hafi búið saman fyrir giftingu, hafi verið í samskiptum frá því að með þeim hafi tekist ástir og að kærandi hafi ekki þekkt til maka síns eða ferðafélaga árið 2017. Þá vísar kærandi til þess að ekki hafi verið óskað eftir viðtali við kæranda eða maka hennar þó málið hafi verið í yfir 12 mánuði til skoðunar áður en andmælabréf hafi verið sent kæranda. Þá hafi heldur ekki verið óskað skýringa eða upplýsinga frá ferðafélögum maka kæranda til [...] í mars 2017 þrátt fyrir að í málinu lægju fyrir skriflegar yfirlýsingar þeirra. Byggir kærandi á því að aðferðarfræði Útlendingastofnunar og mat í hinni kærðu ákvörðun sé haldin slíkum ágöllum að ógilda beri ákvörðunina og veita kæranda dvalarleyfi á Íslandi.

Þá vísar kærandi til þess að ekkert þeirra efnisatriða sem tilgreind séu í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi með stofnun hjúskaparins að gera, líkt og áskilið sé í lögum. Þá sé ljóst að meirihluti tilgreindra efnisatriða hafi enga eða óverulega þýðingu í heildarmati og önnur atriði eigi sér eðlilegar skýringar. Í fyrsta lagi byggi stofnunin mat sitt á því atriði að umsókn kæranda hafi tengsl við aðra umsókn sem hafi verið lögð fram hjá Útlendingastofnun. Að mati kæranda geti önnur umsókn frá ótengdum þriðja aðila ekki haft áhrif að lögum á umsókn hans. Þá sé ekkert í gögnum málsins, hvorki bankayfirlit eða annað, sem gefi til kynna að nokkur tengsl séu á milli umsóknar kæranda og annars umsækjanda. Eina sem liggi fyrir sé að kærandi hafi farið með vinahópi til [...] í mars 2017 og að annar aðili í vinahópnum hafi einnig hitt aðila í sömu ferð, sem nú sé maki hans. Hafi það ekkert með umsókn kæranda að gera.

Í öðru lagi byggi stofnunin mat sitt á því atriði að kærandi og maki hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Vísar kærandi til þess að engin athugasemd hafi verið gerð við það í andmælabréfi Útlendingastofnunar til kæranda og því hafi hann ekki getað gætt andmælaréttar síns um þetta efnisatriði við meðferð málsins hjá stofnuninni. Þá sé framangreint rangt en hið rétta sé að maki kæranda hafi komið aftur til [...] í maí 2018 og gift sig í júní s.á. Þannig hafi þau búið saman frá því að maki kæranda hafi komið til [...], fram að giftingu og þangað til hún fór aftur til Íslands. Því til viðbótar hafi maki kæranda dvalið að hluta til með kæranda í [...] í ferð sinni 2017 eftir að þau hafi kynnst. Ennfremur sé algengt í [...] að hjón búi ekki saman fyrir hjúskap. Í þriðja lagi byggi stofnunin mat sitt á því að hjúskaparsaga kæranda veki grunsemdir hvað málamyndahjúskap varðar en af lestri ákvörðunar virðist sú staðreynd að maki kæranda hafi skilið við maka sinn þann 4. júlí 2017 hafa úrslitaþýðingu. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun horft alfarið framhjá framkomnum skýringum og þeirri staðreynd að kærandi og maki hafi kynnst í mars 2017. Þegar maki kæranda hafi komið aftur til Íslands hafi hún verið ástfangin af kæranda og játað hjúskaparbrot fyrir þáverandi maka sínum. Þá liggi engin gögn fyrir sem renni stoðum undir þá ályktun stofnunarinnar að hjúskaparslit maka kæranda og fyrrverandi maka hafi nokkuð með réttindamál fyrrverandi maka hér á landi.

Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemdir við ályktun stofnunarinnar um 11 ára aldursmun sem sé á milli hennar og maka sem að mati kæranda hafi ekki mikla þýðingu í ljósi aldurs þeirra. Í fimmta lagi gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að fyrir liggi meint ósamræmi í greinargerðum kæranda og maka hans en að auðsótt hefði verið að kalla kæranda í viðtal til þess að fá nánari skýringar. Loks gerir kærandi athugasemd við ályktanir stofnunarinnar um að fáar myndir hafi verið afhentar og að ekki hafi verið að finna myndir af kæranda á heimili maka kæranda á Íslandi. Hafi kærandi útskýrt framangreint með ítarlegum hætti við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun en ástæða þess að engar myndir hafi verið að finna á heimili maka kæranda sé sú að hún hefði þegar verið búinn að láta stofnunina fá allar myndir maka af kæranda. Þá hafi hvorki stofnunin né lögregla óskað eftir því að sjá myndir í síma maka kæranda. Jafnframt sé hvergi tilgreint í umsóknargögnum stofnunarinnar að kærandi þurfi að leggja fram afrit af myndum eða samskiptasögu, hvorki við afhendingu umsóknar í upphafi eða síðar. Þá hefði stofnuninni að mati kæranda borið að leiðbeina kæranda um framlagningu slíkra gagna í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga.

Taki kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að um rökstuddan grun um málamyndahjónaband sé að ræða byggir kærandi á því að henni hafi ekki verið gefið tækifæri á að sýna fram á annað með óyggjandi hætti. Hafi Útlendingastofnun ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni, sbr. m.a. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi stofnunin hvorki í andmælabréfi né síðar upplýst kæranda um hvaða gögn hún teldi nauðsynleg eða veita fullnægjandi skýringar. Þá hafi málsmeðferð hjá stofnuninni dregist úr hófi; umsóknin hafi verið móttekin í ágúst 2018, andmælabréf stofnunarinnar sent í ágúst 2019 og hin kærða ákvörðun tekin 6. maí 2020, eða um 21 mánuði frá því að umsóknin hafi verið móttekin. Um sé að ræða dvalarleyfi fyrir maka kæranda sem byggi á grundvallarréttindum um friðhelgi einkalífs og réttar til að búa með maka sínum. Sú töf sem hafi orðið á málsmeðferðinni hjá Útlendingastofnun brjóti gegn 9. gr. stjórnsýslulaga enda liggi engar upplýsingar fyrir um ástæður tafanna. Telji kærandi að slík töf á afgreiðslu málsins eigi að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar enda sé ótækt að láta hann gjalda fyrir þá ómálefnalegu töf sem hafi orðið á afgreiðslu málsins. Kærandi vísar þá jafnframt til meðalhófsreglu og sjónarmiða um jafnræði og m.a. til þess að dvalarleyfi kæranda yrði ávallt tímabundið og stjórnvald geti því gripið til annarra úrræða í kjölfar þess að dvalarleyfi hafi verið veitt, sé áframhaldandi grunur um málamyndahjúskap til staðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Þá hefði ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Í niðurlagi hinnar kærðu ákvörðunar er dregið saman hvaða atriði það voru sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Í fyrsta lagi er vísað til tengsla umsóknar kæranda við umsókn eiginkonu samstarfsfélaga maka kæranda. Er í þessu samhengi vísað til þess að makar beggja umsækjenda séu vinir og samstarfsfélagar. Í öðru lagi hafi kærandi og maki hennar ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar. Í þriðja lagi veki hjúskaparsaga maka kæranda grunsemdir. Virðist að þessu leyti vísað til þess að um sé að ræða þriðja hjúskap maka kæranda. Hún hefði síðast verið í hjúskap á tímabilinu 2013-2017 og hefði skilið að lögum við fyrrverandi maka sinn þann 4. júlí 2017, en hann hefði fengið útgefið ótímabundið dvalarleyfi 26. janúar s.á. Í fjórða lagi væri talsverður aldursmunur á kæranda og maka hans. Í fimmta lagi var vísað til þess að ósamræmi væri í framlögðum greinargerðum kæranda og maka hans. Í sjötta lagi hefði kærandi einungis lagt fram ljósmyndir af þeim saman sem teknar væru til við tvö tilefni, þ.e. í matarboði og á flugvelli.

Kærunefnd telur að fallast megi á með Útlendingastofnun að framangreind atriði hafi gefið tilefni til að stofnunin kannaði hvort til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Á hinn bóginn er það mat kærunefndar að þau atriði sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun leiði ekki ein og sér til þess að litið verði svo á að sá rökstuddur grunur sé fyrir hendi í skilningi síðastnefnds ákvæðis. Í því sambandi horfir kærunefnd til þess að ekki verði séð af hinni kærðu ákvörðun að hvaða leyti tengsl umsóknar kæranda við aðra umsókn rennir stoðum undir að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað í því skyni að afla dvalarleyfis. við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram myndir af sér og maka auk gagna sem sýna fram á að þau hafi verið í samskiptum á Facebook. Hefur að mati kærunefndar takmarkaða þýðingu að kærandi hafi kynnst maka sínum og stofnað til hjúskapar við hana á svipuðum tíma og annar aðili ótengdur honum, sem Útlendingastofnun vísar til í ákvörðun sinni. Þá er rannsókn Útlendingastofnunar á þeim peningamillifærslum er vikið er að í hinni kærðu ákvörðun þess eðlis að ekki verða dregnar neinar ályktanir af þeim við meðferð málsins. Er það auk þess mat kærunefndar að ekki sé unnt að draga þá ályktun af hjúskaparsögu maka kæranda eða aldursmun á kæranda og maka hans að um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá verður að mati kærunefndar ekki horft framhjá því að Útlendingastofnun aflaði ekki upplýsinga, svo sem með viðtölum, sem varpað hefðu getað frekara ljósi á samband kæranda og maka hans og aðdraganda hjúskapar þeirra. Loks hefur kærandi við meðferð málsins lagt fram myndir af sér og maka auk gagna sem sýna fram á að þau hafi verið í samskiptum á Facebook.

Í ljósi hins langa tíma sem umsókn kæranda hefur verið til meðferðar hjá Útlendingastofnun, hagsmuna kæranda af því að niðurstaða fáist í mál hans og þess, sem rakið er að framan er það hins vegar mat kærunefndar að ekki sé forsvaranlegt að mál kæranda verði látið sæta frekari rannsókn hjá Útlendingastofnun. Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, er það mat kærunefndar að ákvæði 70. gr. standi því ekki í vegi að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins. Í hinni kærðu ákvörðun var hins vegar ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi uppfylli grunnskilyrði fyrir dvalarleyfi hér á landi sem fram koma í 55. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að fella bera hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 69. gr., að uppfylltum skilyrðum 55. gr. laganna. Þá beri að veita barni hans dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. að uppfylltum skilyrðum þess ákvæðis.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Líkt og áður greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsóknir þann 8. ágúst 2018 fyrir sig og f.h. sonar síns og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málunum þann 6. maí 2020, eða um 21 mánuði síðar. Jafnvel þótt játa verði Útlendingastofnun svigrúm til að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn skv. 10. gr. stjórnsýslulaga þegar stofnunin telur ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga koma til álita í máli, er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór fram úr öllu hófi og fer meðferð þess verulega í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, að uppfylltum skilyrðum 55. gr. laganna.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Art. 70 of the Act on Foreigners no. 80/2016, subject to conditions set in Art. 55.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                        Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum