Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2002

Mál nr. 59/2002

Mánudaginn, 28. apríl 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 17. september 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 8. september 2002. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, sem tilkynnt var með bréfi dags. 13. júní 2002, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Tryggingastofnun ríkisins hafnar umsókn minni á þeim forsendum að ég hafi eigi uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru um fullnægjandi námsárangur þegar um er að ræða greiðslur til námsmanna. Efni málsins er sem hér segir:

“Ég flutti til B-lands haustið 2000 til að hefja nám við háskólann D, eftir að hafa lokið B.A. námi í háskólanum E. Tilgangur námsins er að afla sérfræðikunnáttu í stjórnun gagnagrunna innan hins opinbera. Með mér flutti sonur minn, F, f. 1991. Vegna erfiðleika og veikinda í upphafi meðgöngu reyndist mér eigi unnt að stunda fullt nám á haustönn 2001. Ég eignaðist dóttur þann 18. maí sl. og hafði þá sótt um greiðslur á fæðingarstyrk til Tryggingarstofnunar ríkisins.

Í lögum um greiðslur á fæðingarstyrk segir að námsmaður skuli hafa stundað 75 – 100% samfellt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Samkvæmt túlkun TR á þessum lögum er með þessu átt við að fullt nám sé stundað á 2 samliggjandi önnum sem samanlagt standa í a.m.k. 6 mánuði. Þar sem ég fæddi stúlkubarn þann 18.maí sl. er í mínu tilfelli átt við vorönn 2002 sem og haustönn 2001. Þar sem ég náði eigi fullnægjandi námsárangri haustönn 2001 hafi ég þar af leiðandi eigi uppfyllt kröfur um fullnægjandi nám og er þar með synjað um greiðslur. Mótrök mín eru með tvennum hætti.

1. Í lögum er hvergi minnst á annir heldur eingöngu að fullt nám hafi verið stundað í a.m.k. 6 mánuði af síðustu fyrir fæðingu barnsins. Séu gerðar þær kröfur að stundað sé fullt nám í 6 mánuði uppfylli ég sannanlega þær kröfur, þar sem ég stunda nám til 19 eininga á vorönn (4 mánuðir og 18 dagar) og næ 5 einingum á haustönn. Skv. skilgreiningu háskólans D liggur að baki hverri einingu ein full námsvika, eða 40 klst. Samkvæmt því hef ég þá stundað fullt nám í fimm vikur á haustönn og 75% nám í 6,67 vikur (sjá fylgiskjal þessa efnis).

Í lögum er hvergi minnst á að ofannefndir 6 mánuðir skuli vera í samfellu, heldur eingöngu að fullt nám sé stundað í a.m.k. 6 mánuði af undangengnum 12. 12 mánuðir fyrir fæðingu barnsins eru frá og með 18. maí 2001. Á því tímabili hefur undirrituð stundað nám til 32 eininga. Til útskýringar má taka dæmi. Ef námsmaður eignast barn í desember/janúarmánuði liggja til grundvallar undangengin haustönn og vorönn. Hafi námsmaður stundað nám til 20 eininga á vorönn en til 10 eininga á haustönn telur TR námsmanninn eigi uppfylla kröfur um námsárangur þar sem ekki er tekið meðaltal á milli anna (hér er gengið út frá því að fullt nám séu 20 einingar á önn). Hafi námsmaður hinsvegar stundað nám á sk. sumarönn til frekari eininga, þ.e. bætt við sig er spurning hvernig námsmanni teljast þær einingar til tekna. TR eignar sjálfkrafa öllum einingum sem teknar eru á milli anna þeirri önn sem á undan er gengin og má spyrja hvaða lagalegu stoð sú túlkun hvílir á. Það getur varla verið hlutverk TR að sjálfstætt túlka það námsfyrirkomulag sem hinir ýmsu námsmenn búa við.

Undirrituð sótti einnig um greiðslur á lægri fæðingarstyrk og er hafnað á þeim forsendum að ég uppfylli eigi reglur um búsetuskilyrði. Í lögum segir að undanþágu megi gera frá kröfu um búsetu hafi foreldri tímabundið flutt erlendis sökum náms. Þar sem ég uppfylli ekki kröfur um fullt nám lítur TR þannig á að ég sé ekki námsmaður, þar af leiðandi gildi eigi undanþágan. Þykir fullsannað að undirrituð er námsmaður og verður að líta þannig á túlkun TR á hvað teljist fullt nám geti ekki breytt þeirri staðreynd að ég sé námsmaður. Ef undirrituð hefði verið búsett á Íslandi þá hefði ég skv. upplýsingum frá TR fengið greiddan lægri fæðingarstyrk burtséð frá því hvernig námsárangur er metinn. Nú vill TR meina að þar sem ég sé ekki námsmaður beri sænskum tryggingayfirvöldum skylda til að greiða mér fæðingarorlof. Kerfið í B-landi starfar þó með öðrum hætti. Námsmenn frá B-landi í fæðingarorlofi halda þannig áfram að fá greidd námslán en greiðslur úr almannatryggingakerfinu eru algerlega háðar starfstengdum tekjum. Þar sem ég hef eingöngu verið búsett í B-landi vegna náms hef ég engar tekjur til að sýna fram á. Niðurstaðan er því sú að ég á ekki rétt á sérstöku greiddu barnseignarleyfi, heldur fæ greiddar um 600 íslenskar krónur á dag fyrir skatt samkvæmt þeirri lágmarkssjúkratryggingu sem hér gildir. Íslensk almannatryggingalög hafa skuldbundið sig til að greiða því foreldri sem tímabundið er búsett erlendis vegna náms þann mismun sem orðið getur milli tryggingakerfa innan EES og á ég bágt með að skilja hvernig hægt er að taka af mér og dóttur minni þann grundvallarrétt sem íslensk lög áskilja okkur sem íslenskum ríkisborgurum.

Niðurstaðan er sú að eftir fæðingu dóttur minnar þann 18. maí sl. kemur í ljós að ég á hvergi rétt til greiðslna í barnsburðarleyfi. Þykir mér það harður dómur í ljósi þess að ég hef sannanlega stundað mitt nám, bæði nú og áður, með ágætum árangri. Er ekki vansagt að meðferð TR á máli mínu hafi valdið ómældum áhyggjum og erfiðleikum þar sem mér hefur verið meinað að sjá fyrir fjölskyldu minni á mannsæmandi hátt síðan stúlkan fæddist. Ég harma einnig að þrátt fyrir að hafa haft samband við Tryggingastofnun í þrígang á meðan á meðgöngu stóð reyndist stofnunin ófær um að veita tæmandi og réttar upplýsingar um túlkun á þeim lögum sem hún starfar eftir. Þar af leiðandi reyndist mér með öllu ógerlegt að bregðast við þeim afleiðingum sem niðurstaðan hafði í för með sér. “

Með bréfi, dags. 17. september 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. desember 2002. Þar segir:

“Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. eða undanþáguákvæði 13.gr.

Í 13. gr. er Tryggingastofnun ríkisins heimilað, þrátt fyrir skilyrði 12. gr. um lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan, að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Skilyrði fyrir greiðslum er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandinu um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum í því ríki. Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða mismun sem því nemur.

Kærandi sótti um fæðingarstyrk námsmanna með umsókn dags. 2. maí 2002. Með fylgdi staðfesting frá háskólanum D dags. sama dag um að hún væri skráð í 19 eininga nám á vorönn 2002 (þar af var tilgreint vegna fjögurra faga, 14 eininga, á hvaða vikum viðkomandi fag yrði stundað og vegna eins fags, 5 eininga, að um endurskráningu væri að ræða) og staðfesting frá B-landi um að hún myndi ekki fá greitt fæðingarorlof fyrstu 180 dagana frá almannatryggingum B-lands. Þar sem skólavottorðið var ekki fullnægjandi var óskað eftir því nýju skólavottorði þar sem fram kæmi hvað hún hefði lokið mörgum fögum eða einingum á haustönn 2001 og vorönn 2002 og einnig var farið fram á upplýsingar um það hvort hún ætti einhvern rétt til töku fæðingarorlofs í B-landi þar sem það nægði að hún tæki ekki fæðingarorlof fyrstu 180 dagana.

12. júní bárust á faxi staðfestingar annars frá B-landi dags. 26. nóvember 2001 um að hún ætti rétt á lágmarksgreiðslum, um 600 íslenskar krónur á dag, sem greiðslum í fæðingarorlofi fyrstu 180 dagana og hins vegar frá skólanum dags. 12. júní þar sem fram kom að hún hefði verið skráð í 20 einingar á haustönn 2000, 20 einingar á vorönn 2001, 5 einingar á haustönn 2001 og 19 einingar á vorönn 2002 ( þar af endurskráð í 5 eininga fag sem hún hafði áður verið skráð í á vorönn 2001). Í staðfestingunni frá B-landi kom m.a. fram að á því tímabili sem réttur hennar til greiðslna miðaðist við hefði hún verið í atvinnuleit eftir að hafa verið í námi en tekjur hennar væru of lágar til að hún ætti rétt á hærri greiðslum en lágmarksgreiðslum.

Kæranda var með bréfi dags. 13. júní 2002 synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllti hún ekki skilyrðið um fullt nám. Nám á haustönn 2001 hefði verið 5 einingar, sem nái ekki 75% námi, sé miðað við að fullt nám sé 15 einingar (á hverri önn eins og almennt er gert vegna náms við háskólann E en fullt nám kæranda mun í raun vera 20 einingar á önn). Henni var einnig synjað um fæðingarstyrk foreldris sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir þeim greiðslum vegna þess að hún væri með lögheimili í B-landi.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. desember 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 4. janúar 2003, þar sem athugasemdir hennar voru áréttaðar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Kærandi ól barn 18. maí 2002. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 18. maí 2001 til fæðingardags barns.

Fjallað er um veikindi á meðgöngu þegar viðkomandi er á vinnumarkaði í 4. mgr. 17. gr. ffl. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Hvorki lögin né reglugerðin taka á veikindum námsmanna af sama tilefni á umræddu tímabili.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráð í 19 eininga nám við háskólann D á vormisseri 2002, á haustmisseri 2001 lauk hún 5 eininga námi á um það bil fimm vikum við sama skóla.

Með hliðsjón af því sem fram kemur í gögnum málsins um nám kæranda verður ekki talið að hún uppfylli skilyrði um að hafa verið í 75-100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

Þá kemur til skoðunar hvort kærandi á rétt á greiðslu sem foreldri utan vinnumarkaðar sbr. 18. gr. ffl. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl. skal foreldri utan vinnumarkaðar að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Tryggingastofnun ríkisins er þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning, sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Kærandi uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Hún flutti lögheimili sitt sannanlega vegna náms til B-lands haustið 2000 og var þar enn í námi við fæðingu barnsins. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands uppfyllir hún framangreint skilyrði um a.m.k. fimm ára búsetu hér á landi fyrir flutning. Af þessu leiðir að heimild er til að víkja frá lögheimilisskilyrði, sbr. 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Með hliðsjón af framangreindu er heimilt að greiða kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar sbr. 2. mgr. 18. gr. ffl. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Skilyrði fyrir greiðslu er þó að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingarinnar, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Einnig verður að líta til þess hvort fyrir hendi er lakari réttur úr almannatryggingum í búsetulandi heldur en er hér á landi, en þá er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða mismun sem því nemur, sbr. 3. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar, með hliðsjón af framangreindum skilyrðum í 2. og 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum