Hoppa yfir valmynd
21. maí 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fagnaðarefni að fleiri tali og læri íslensku

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra á ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar - mynd

Í tilefni af ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á dögunum opnaði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra vefgátt sem hýsir nýjustu gerð íslenskunámskeiðsins Icelandic Online. Sá vefur hefur nýst nemendum í íslensku, út um allan heim, síðan árið 2004 en skráðir notendur þar eru nú komnir yfir 200.000. Í kynningu sinni á verkefninu gat Úlfar Bragason rannsóknarprófessor þess að aldrei hefðu fleiri talað né kosið að læra íslensku en nú.

Ekki aðeins hafi notendum Icelandic Online vefjarins fjölgað jafnt og þétt gegnum árin heldur fjölgar þeim einnig sem leggja stund á íslenskunám við erlenda háskóla, sækja nám í íslensku við Háskóla Íslands og Háskólasetrið á Vestfjörðum og í námsflokkum víða um land. Námsbraut í íslensku sem öðru máli sem kennd er við HÍ nýtur einnig vaxandi vinsælda – nemendafjöldi hefur rúmlega tvöfaldast á síðustu 10 árum og stunduðu 380 nemendur þar nám á síðasta ári.

„Það er afar gleðilegt að fá svo góðar fréttir af íslenskunni – það vill brenna við að meira sé fjallað um ógnir sem henni tengjast en við þurfum að hampa því sem virkar og vel er gert,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Í ávarpi sínu ræddi hún sérstaklega um mikilvægi þess að líta ekki aðeins á örar tæknibreytingar sem áskorun fyrir íslenskuna heldur einnig tækifæri. „Við þurfum að taka þátt í þróuninni og nýta nýjustu tækni til hagsbóta fyrir íslenskt málsamfélag og þá fjölmörgu sem vilja læra íslensku.“ Þar gat hún sérstaklega um börn og ungmenni af erlendum uppruna sem fjölgað hefur í skólakerfinu en um þessar mundir er einmitt unnið að því að aðlaga kennsluumhverfi Icelandic Online fyrir börn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum