Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra með forseta Suður-Afríku

Thabo Mbeki forseti Suður-Afríku og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra
Thabo Mbeki forseti Suður-Afríku og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra lauk ferð sinni til Suður-Afríku með fundum í Höfðaborg. Átti ráðherra morgunfund með Rasool fylkisstjóra Höfðafylkis. Ræddu þau gagnkvæman áhuga á að auka viðskipti milli landanna, möguleika á samvinnu á sviði orkumála, sjávarútvegsmála, ferðamála og þær væntingar sem Suður-Afríkumenn hafa vegna heimsmeistarakepnninnar í fótbolta, sem fram fer árið 2010.

Utanríkisráðherra átti ennfremur fund með utanríkismálanefnd þingsins. Þingmenn ræddu málefni kvenna í Afríku og spurðust fyrir um þróunarverkefni Íslands. Nokkuð var rætt um hvernig auka mætti viðskipti ríkjanna og ástæður þess að Ísland hefur kosið að standa utan Evrópusambandsins. Utanríkisráðherra sagðist vera í sinni fyrstu ferð til Afríku og væri þangað komin til að fræðast um afrísk málefni. Sagði ráðherra þá mynd sem dregin væri upp af Afríku í vestrænum fjölmiðlum of einhliða. Ekki væri getið um það sem vel væri gert og vildi ráðherra undirstrika hversu mikið henni hefði þótt koma til þeirra fjölda kvenna sem hún hefði hitt í heimsókn sinni. Formaður utanríkismálanefndar, frú Hajaj, tók undir þessi orð ráðherra og sagði miklu skipta að menn kæmu til Afríku og lærðu af eigin raun hversu fjölbreytt álfan væri og hversu mikið hún hefði upp á að bjóða. Utanríkisráðherra átti síðan fund með forseta þingsins, dr. Thabethe, og ræddu þær mikilvægi alþjóðlegra samskipta þingmanna, samskipti Suður-Afríku og Íslands og samstarf á sviði jafnréttismála.

Þá átti ráðherra síðdegis fund með forseta Suður-Afríku, Thabo Mbeki, að hans ósk. Forsetinn var mjög áhugasamur um orkumál og mögulega samvinnu ríkjanna á því sviði. Ráðherra greindi forseta frá ferð sinni til Úganda og sagði frá þróunarverkefnum ÞSSÍ í álfunni. Ræddu þau nokkuð þau átök og erjur sem víða koma í veg fyrir mannsæmandi líf fyrir íbúa svæðanna og nauðsynlega framþróun. Ráðherra minntist á mikilvægi fríverslunarsamnings EFTA við svonefnd SACU-ríki, sem nokkur þeirra eiga enn eftir að staðfesta, þ.m.t. Suður-Afríka. Forsetinn sagðist ætla að hlutast til um það mál. Þá ræddu þau nauðsyn á gerð tvíhliða samninga til að liðka fyrir gagnkvæmum fjárfestingum og viðskiptum milli landanna.

Að loknum fundi með forseta landsins hélt ráðherra erindi á viðskiptakynningu á vegum Útflutningsráðs Íslands og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins.

Í lok heimsóknar situr ráðherra kvöldverðarfund með Helen Zille borgarstjóra Höfðaborgar.



Thabo Mbeki forseti Suður-Afríku og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra
Thabo Mbeki forseti Suður-Afríku og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum