Hoppa yfir valmynd
11. desember 2001 Utanríkisráðuneytið

Gildistaka úthafsveiðisamningsins

Nr. 126
Sameiginleg fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu

Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna öðlast gildi í dag, mánuði eftir að þrítugasta ríkið, Malta, gerðist aðili að samningnum. Ísland fullgilti samninginn 14. febrúar 1997, en meðal annarra aðildarríkja hans má nefna Noreg, Rússland, Bandaríkin, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjáland.
Í kjölfar aukinnar ásóknar í fiskstofna utan efnahagslögsögunnar var knúið á um að gerður yrði samningur um framkvæmd ákvæða hafréttarsamningsins um deilistofna og víðförula fiskstofna, þ.e. stofna sem finnast bæði innan lögsögu strandríkja og á úthafinu. Langflestir þeirra fiskstofna, sem veitt er úr á úthafinu, teljast til þessara tveggja flokka. Samkomulag varð um það á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó de Janeiró árið 1992 að kalla saman úthafsveiðiráðstefnu. Ísland tók virkan þátt í ráðstefnunni og skipaði svonefndan kjarnahóp strandríkja. Rúmum þremur árum síðar var úthafsveiðisamningurinn í höfn og var hann samþykktur í New York 4. ágúst 1995.
Yfirlýst markmið úthafsveiðisamningsins er að tryggja langtímaverndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Samningurinn styrkir verulega ramma um samstarf strandríkja og úthafsveiðiríkja á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistofnana um verndun þessara stofna og stjórnun veiða úr þeim. Sérstök réttindi strandríkja eru viðurkennd í samningnum og í honum felast frekari takmarkanir á hefðbundnu frelsi til fiskveiða á úthafinu.
Þegar þýðing úthafsveiðisamningsins er vegin og metin er rétt að hafa í huga að langtímahagsmunir allra fiskveiðiþjóða eru í því fólgnir að markmiði samningsins verði náð og að bundinn verði endi á stjórnlausar veiðar úr umræddum stofnum á úthafinu víðs vegar í heiminum. Engin ríki eiga meira undir því en ríki á borð við Ísland sem byggja afkomu sína að mjög miklu leyti á fiskveiðum.
Þótt úthafsveiðisamningurinn öðlist fyrst formlegt gildi nú hafa ákvæði hans þegar haft mikil áhrif á starfsemi svæðisbundinna fiskveiðistofnana á undanförnum árum. Á þetta m.a. við um störf Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, sem kemur að stjórn veiða úr deilistofnum svo sem norsk-íslenska síldarstofninum og karfa á Reykjaneshrygg.

Reykjavík, 11. desember 2001





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum