Hoppa yfir valmynd
13. desember 2001 Utanríkisráðuneytið

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, á ráðherrafundi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________

Nr. 127


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarpaði í dag ráðherrafund Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem haldinn er í Genf. Tilefni ráðherrafundarins er 50 ára afmæli flóttamannasamningsins frá 1951, sem er helsta tæki Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til verndar grundvallarmannréttindum flóttamanna og stofnunin byggir starf sitt á. Ráðherrafundurinn er í raun tímamótafundur og hinn fyrsti sem haldinn er á vegum stofnunarinnar. Árið 1967 var gerð viðbótarbókun við 1951 samninginn sem felur í sér víðtækari skilgreiningu á hugtakinu flóttamaður en var að finna í flóttamannasamningnum frá 1951.
Alls hafa 143 ríki gerst aðilar að öðrum hvorum þessara samninga eða báðum. Ísland varð aðili að flóttamannasamningnum frá 1951 í nóvember 1955 og 1967 bókuninni í apríl 1968. Flest ríki hafa kosið að gerast aðilar að báðum samningunum og þar með undirstrikað alþjóðlegt gildi þeirra hvað varðar stöðu flóttamanna í heiminum.
Í ávarpi ráðherra kom meðal annars fram að flóttamannasamningurinn frá 1951 er enn þann dag í dag, 50 árum seinna, sá lagalegi grunnur sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna byggir á vegna aðstoðar við hælisleitendur og flóttamenn og til verndar grundvallarmannréttindum þeirra. Ráðherra lagði áherslu á að Ísland styddi heilshugar flóttamannasamninginn frá 1951 og viðbótarbókunina frá 1967 og ennfremur að aðildarríkjum bæri skylda að tryggja réttindi og velferð flóttamanna án tillits til kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða pólitískra skoðana. Ráðherra lýsti einnig yfir fullum stuðningi við hið alþjóðlega samráð sem stofnað var til í lok ársins 2000, sem miðar að því að endurskoða samningana með það að leiðarljósi að koma til móts við breyttar aðstæður og þróa nýjar aðferðir og staðla til að styrkja enn frekar vernd flóttamanna. Ráðherra lagði áherslu á nauðsyn þess að finna varanlegar lausnir á vandamálum flóttamanna svo og að komast fyrir rót vandans.
Stefnt er að því að ráðherrafundurinn samþykki yfirlýsingu sem miðar að því að styrkja samningana tvo enn frekar. Með yfirlýsingunni eru aðildarríkin hvött til að framfylgja samningunum að fullu og þau ríki sem ekki eru nú þegar aðilar að samningunum eru hvött til að íhuga aðild.
Ræða utanríkisráðherra fylgir hjálagt á ensku.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 13. desember 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum