Hoppa yfir valmynd
11. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Helstu áherslur á sviði félags- og jafnréttismála

Bætt kjör öryrkja, hækkun greiðslna til foreldra í fæðingarorlofi, aukinn stuðningur við börn og barnafjölskyldur, áhersla á uppbyggingu félagslegs húsnæðis og aukinn stuðningur við atvinnuleitendur eru megináherslur á málefnasviði félags- og jafnréttismálaráðherra sem birtast í fjárlagafrumvarpinu.

Útgjöld til málefnasviða félags- og jafnréttismálaráðherra aukast að raunvirði um 8,5%, eða 15,6 milljarða króna á næsta ári, að frátöldum launa- og verðlagsbótum. Heildaraukningin nemur 21,4 milljörðum króna og þar af eru launa- og verðlagsbætur 5,9 milljarðar króna.

4,0 milljarðar í bætt kjör öryrkja og endurbætur á almannatryggingakerfinu

Framlög til að bæta kjör öryrkja og til endurbóta á almannatryggingakerfinu vega þyngst og nemur aukningin 4,0 milljörðum króna. Til að mæta fjölgun aldraðra og öryrkja eru jafnframt áætlaðir 3,6 milljarðar króna. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækki um 3,4% 1. janúar 2019. Sú hækkun tekur mið af þróun neysluverðs að viðbættri 0,5% kaupmáttaraukningu.

Aukinn fjárhagslegur stuðningur við börn og barnafjölskyldur

Hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi hækka á næsta ári úr 520.000 krónum í 600.000 krónur á mánuði. Aukin útgjöld vegna þessa nema 1,8 milljarði króna. Að auki er gert ráð fyrir að kostnaður Fæðingarorlofssjóðs vegna hækkunar á mótframlagi í lífeyrissjóði úr 8% í 11,5% kosti 400 milljónir króna. Um 200 milljónum króna verður varið í verkefni til að styrkja stöðu barna og tekjulágra fjölskyldna.

Meðferðar- og búsetuúrræði fyrir börn

Á næsta ári verða framlög vegna uppbyggingar á sérstökum búsetuúrræðum fyrir börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir aukin um 150 milljónir króna. Einnig er áformað að verja 80 milljónum króna í stuðningsheimili með eftirfylgd fyrir unglinga í vanda.

Aðstoð við flóttafólk

Aukin framlög til móttök flóttafólks og vegna endurgreiðslna til sveitarfélaga á fjárhagslegri aðstoð við fólk sem hefur verið veitt alþjóðleg vernd nema á næsta ári um 400 milljónum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Aukinn fjárhagslegur stuðningur við fólk í atvinnuleit

Í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka atvinnuleysisbætur í 90% af dagvinnutekjutryggingu, verða framlög í Atvinnuleysistryggingasjóð aukin um 2,3 milljarða króna á næsta ári. Enn fremur verða framlög til Ábyrgðarsjóðs launa aukin um 200 milljónir í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga, dags 27. febrúar 2018. Þar sem spár gera ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega á næsta ári er gert ráð fyrir auknum framlögum vegna þess sem nemur 1,7 milljörðum króna í fjárlagafrumvarpinu.

Húsnæðismál: Stofnframlög aukin um 800 milljónir króna

Framlög til uppbyggingar á félagslegu húsnæði með stofnframlögum verða aukin um 800 króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum