Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Aukin áhersla á samgöngu- og byggðamál

Gert er ráð fyrir töluverðri aukningu til málefnasviðs samgöngu- og fjarskiptamála og málefnasviðs sveitarstjórna og byggðamála í tillögu að fjármálaáætlun 2019-2023 ef miðað er við fjármálaáætlun 2018-2022. Aukningin til málefnasviðs samgöngu- og fjarskiptamála nemur alls 13,6 ma.kr. yfir tímabil áætlunarinnar og aukningin á heildarframlagi til málefnasviðs sveitarfélaga og byggðamála alls 791 m.kr.

Aukin áhersla á samgöngumál

Gert er ráð fyrir umtalsverðri aukningu við málefnasviðið samgöngur og fjarskipti í fjármálaáætlun 2019-2023 og bætist við um 24% aukning 2019 frá fjárlögum 2016.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggisjónarmiða.

Gert er ráð fyrir að ráðast í sérstakt átak í samgönguframkvæmdum á árunum 2019-2021, samtals 16,5 ma.kr. og verður áhersla á greiðar og öruggar samgöngur allt árið í þeim verkefnum sem unnin verða. Strax á fyrsta ári áætlunarinnar er aukningin til málefnasviðsins 4,3 ma.kr. frá fjárlögum 2018.

Unnið er að gerð samgönguáætlunar sem miðað er við að verði lögð fram í haust. Mörg verkefni eru fram undan sérstaklega í vegamálum og með auknu fjármagni verður hægt að ráðast í ýmsar brýnar og þarfar framkvæmdir sem munu koma fram í samgönguáætlun. Á tímabilinu mun framkvæmdum við Dýrafjarðargöng ljúka auk þess sem ráðgert er að vinna að uppbyggingu á Dettifossvegi, Borgarfjarðarvegi og Kjalarnesvegi svo dæmi sé tekið.

Unnið verður áfram að umferðaröryggi með áherslu á fræðslu til erlends ferðafólks, öryggi barna í umferðinni og gert átak gegn farsímanotkun undir stýri. Þá verður einnig áhersla á að efla möguleika gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli og áframhaldandi stuðning við almenningssamgöngur.

Áhersla á innleiðingu byggðaáætlunar

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023 er lögð áhersla á að styrkja byggðamál í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en til málefnasviðsins sveitarfélög og byggðamál fæst aukalega til ráðstöfunar á tímabili áætlunarinnar um 791 m.kr. Gert er ráð fyrir að ákveðnum fjármunum þar af verði varið til aðgerða í byggðaáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi á allra næstu dögum og til styrkingar á sóknaráætlunum landshluta.
Byggðaáætlun verður sett fram í kjölfar víðtæks samráðs um allt land, og með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar um jöfn lífskjör og gott aðgengi að þjónustu um allt land. Áfram verður unnið að því í gegnum byggðaáætlun að jafna búsetuskilyrði landsmanna, m.a. hvað varðar raforku- og fjarskiptamál. Unnið verður að því að styrkja lýðræðislega aðkomu íbúa að ákvörðunum um byggðamál í gegnum sóknaráætlun landshluta. Þá verður lögð áhersla á að kortleggja aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila til að bæta yfirsýn og þar með skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað. Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir sem miða að því að styrkja svæði sem búa við einhæft atvinnulíf erfið vaxtarskilyrði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira