Hoppa yfir valmynd
12. mars 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um flutningaflug flugvéla til umsagnar

Til umsagnar eru drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um flutningaflug flugvéla nr. 1263/2008. Umsagnarfrestur er til 26. mars og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].

Með reglugerðardrögum þeim sem hér eru til umsagnar eru gerðar tvær breytingar á reglugerð um flutningaflug flugvéla nr. 1263/2008.

Í 1. gr. er lagt til að bætt verði inn nýrri grein um flugumsjón. Gagnrýnt hefur verið að ekki séu tilgreindar sérstakar kröfur til flugumsjónar í núgildandi reglugerð um flutningaflug flugvéla. Þegar reglugerðin var upphaflega samin var ekki talin ástæða til að setja sérstök ákvæði um flugumsjón enda væri fjallað um slík störf í EU-OPS og viðeigandi leiðbeiningarefni. Því hefur aftur á móti verið haldið fram að ákvæðin sem eru til staðar séu ekki nægilega skýr og geti leitt til misskilnings. Af þeirri ástæðu er lögð til breyting á reglugerð um flutningflug flugvéla nr. 1263/2008 sem felst fyrst og fremst í því að tilteknar kröfur í leiðbeiningarefni fyrir EU-OPS eru sérstaklega tilgreindar í reglugerðinni.

Í 2. gr. er lagt til að 2. mgr. 5. gr. sé fellt brott. Er ástæða breytingarinnar athugasemdir í úttekt Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) hér á landi við skipurit flugrekenda. Fólust athugasemdir EASA í að tilnefndir yfirmenn (Postholders) heyra undir aðra tilnefnda yfirmenn en ekki ábyrðarmann flugrekanda (Accountable Manager). Undanfarin ár hefur málum verið þannig háttað hér á landi að ýmist hafa flugrekendur látið alla tilnefnda yfirmenn heyra beint undir ábyrgðarmenn, en slíkt fyrirkomulag tíðkast almennt í Evrópu og einnig að tilnefndir yfirmenn heyra undir annan tilnefndan yfirmann, sbr. athugasemd EASA. Mikilvægt er að allir tilnefndir yfirmenn flugrekanda hafi tök á að starfa sjálfstætt og séu óháðir öðrum þáttum rekstrar sem falla ekki undir þeirra eigin starfssvið. Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1263/2008 segir að flugrekstrarstjóri og tæknistjóri beri sameiginlega ábyrgð á skipulagningu þeirrar starfsemi sem tengir flugrekstur og viðhald og á því að koma á fót eftirliti og hafa stöðugt eftirlit með endingu og bilunum einstakra hluta. Er það mat flugmálayfirvalda að óheppilegt sé að tveir tilnefndir yfirmenn beri saman ábyrgð á rekstri og af þeirri ástæðu er umrædd breyting lögð til.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira