Hoppa yfir valmynd
16. október 1999 Utanríkisráðuneytið

Ávarp á sambandsþingi Norræna félagsins 16. október 1999

Ávarp á sambandsþingi Norræna félagsins 16. október 1999



Ég vil byrja á því að þakka Norræna félaginu fyrir þetta tækifæri til að fá að ávarpa þetta þing. Það er mér bæði heiður og mikil ánægja enda er ég hér á meðal gamalla kunningja úr starfi mínu hjá félaginu.

Í ár – eins og þið efalaust vitið - fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Við lögðum af því tilefni fram viðamikla formennskuáætlun sem undirbúin var í nánu samstarfi við öll ráðuneyti hér á landi enda tekur hún til allra sviða samstarfsins. Formennskan gefur okkur færi á að koma á framfæri þeim málum sem við viljum að njóti forgangs í samstarfinu. Rauði þráðurinn í formennskuáætlun okkar er viljinn til að draga áherslur norræna samstarfsins meira í norður og vestur og að auka þátttöku jaðarsvæða og fámennra þjóða í öllum þáttum samstarfsins. Eins leggjum við fram spennandi hugmyndir um að taka upp verkefnasamstarf á ákveðnum sviðum við lönd fyrir sunnan og vestan okkur, þar á ég við svæði þar sem ríkja svipaðar aðstæður og hér hjá okkur á Vestur-Norðurlöndum, svæði eins og Skotland og eyjarnar og jafnvel austurfylki Kanada. Þessar áherslur okkar á norðlæg svæði setjum við fram í sérstakri áætlun eða markmiðslýsingu sem nefnist ,,Fólk og haf í norðri". Þar er auk þess sem að framan greinir lögð rík áhersla á sjálfbæra auðlindanýtingu, enda er hún forsenda góðs mannlífs komandi kynslóða.

Í ýmsu hefur okkur tekist vel upp með að gera okkar áherslur sýnilegri í samstarfinu það sem af er formennskuárinu, þó að vissulega megi alltaf gera betur og okkur finnist stundum að hægt gangi. Okkur hefur tekist að virkja hinar smærri þjóðir Norðurlanda og gera þær sýnilegri í samstarfinu og áherslur þær sem við lögðum upp með um að draga athyglina að verkefnum sem taka á málum sem brýn eru á norðurskautssvæðinu hafa í mörgu gengið eftir. Hér á ég við mál eins og notkun upplýsingatækni til eflingar samskipta í fámennum samfélögum og að vekja athygli á ástandi umhverfismála á svæðinu. Það er mér sönn ánægja til marks um þetta að geta sagt frá því að á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna nú í ágúst s.l. var einmitt samþykkt áætlun sem kallast ,,Starfsáætlun um náttúruvernd á norðurskautssvæðinu" en sú áætlun tekur til mjög margra þátta í þjóðfélögum á (Norðurskauts)svæðinu.

Í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar undanfarin ár hefur mikil áhersla verið lögð á börn og ungmenni og samstarfið við frjálsu félagasamtökin. Frjálsu félagasamtökin hafa í gengum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki á Norðurlöndum, í starfi þeirra er hinn almenni borgari virkjaður og vakinn til umhugsunar um hvaða markmiðum hann vill stuðla að og þar hefur hann tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, láta rödd sína heyrast, en þetta er einn grundvallar þáttur þess lýðræðis sem við búum við í dag. Norrænt samstarf er gagnstætt flestu alþjóðlegu samstarfi ríkisstjórna og þjóðþinga sprottið af grasrótarsamstarfi og það er nauðsynlegt fyrir Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina að rækta vel samstarfið við Norrænu félögin.

Norrænu félögin sinna nú ýmsum mikilvægum verkefnum fyrir ráðherranefndina og gera það vel. Undanfarin ár hefur allt starf Norrænu ráðherranefndarinnar verið í endurskoðun, þetta á einnig við samstarfið við frjálsu félagasamtökin. Nú hefur verið gerð ný samstarfsáætlun um samstarf þessara aðila og því komið í fastari skorður með það að markmiði að það gagnist sem best báðum aðilum á sem flestum sviðum.

Mér er það ljóst að greiðslur Norrænu ráðherranefndarinnar til upplýsingaskrifstofanna á Norðurlöndum hafa ekki hækkað undanfarin ár og að það hefur reynst erfitt að fá sveitarfélögin þar sem skrifstofurnar starfa til að auka framlög sín. En ég get upplýst það að nú er verið að leita leiða til að bæta þar úr og vonandi mun það ganga vel. Jafnframt stendur til að gera þjónustusamninga við upplýsingaskrifstofurnar líkt og gengið hefur verið frá við Norrænu félögin vegna þeirra verkefna sem þau hafa tekið að sér fyrir Norrænu ráðherranefndina. Þannig verður samstarfinu komið á fastara form og skilgreint hvaða störf óskað er að skrifstofurnar vinni. Þetta ætti að tryggja árangur starfsins.

Til þess að samstarf skili árangri þarf það að vera í stöðugri endurskoðun og þróun. Það gildir fyrir Norrænu félögin jafnt sem aðra að nauðsynlegt er að starfið þróist í takt við tímann og þær öru breytingar sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Þetta á ekki síst við vegna þess að við þurfum að ná til þess hóps sem mikilvægastur er, unga fólksins. Í heiminum í dag er samkeppnin um athygli barna og ungs fólks mikil eins og við öll vitum – hægt er að segja að heimurinn hafi í raun skroppið saman undanfarna áratugi vegna Internetsins og annarra tækniframfara á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni sem eru að gjörbreyta öllu samskiptamynstri fólks. Þessir þættir hafa verið í fyrirrúmi hjá Norrænu ráðherranefndinni við ákvörðun um inntak þeirra verkefna sem hafin eru á sviði barna- og unglingamenningar. En helsta markmið þeirra verkefna er að kynna þessum hópi norræna samstarfið og styrkja sjálfsímynd barna og ungmenna sem norrænna borgara, jafnhliða því sem samstarfið miðar að því að vekja áhuga þeirra á norrænni menningu. Undanfarin ár hefur hluti þessa samstarfs færst á Internetið, þar sem opnaðar hafa verið heimasíður eins og Óðinn og Valhöll sem eru vettvangur þessa samstarfs og tjáskipta barna og ungs fólks sín á milli. Þar geta ungmenni spjallað saman, kynnt sér hvað er að gerast í hinum löndunum og skólar og bekkir stofnað til samstarfs sín á milli. Það er mikilvægt að Norræna ráðherranefndin og félagasamtök eins og Norrænu félögin fylgist vel með þessari öru þróun og nýti tæknina enn betur til upplýsingamiðlunar til ungs fólks, því þarna sá vettvangur sem þau kjósa helst og nota í sínu daglega lífi.

Mikill hluti þess starfs sem Norrænu félögin vinna fyrir ráðherranefndina er einmitt í þágu barna og ungmenna. Og vil ég þar sérstaklega nefna Vestnorrænu nemendaskiptin sem auðvelda samskipti barna og ungmenna á Íslandi, Færeyjum og í Grænlandi við félaga sína á hinum Norðurlöndunum. Einnig vil ég nefna Nordjobb, sem um árabil hefur gefið ungu fólki tækifæri til að starfa í öðru norrænu landi og kynnast þannig menningu og þjóð. Ég leyfi mér að fullyrða að þau ungmenni sem notið hafa góðs af þessu starfi koma heim fróðari um nágranna sína og ef til vill með vinnáttutengsl sem endast ævilangt. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Norræna félaginu fyrir gott starf á þessum vettvangi. Ég geri mér grein fyrir að það útheimtir mikla vinnu að finna störf og samstarfsaðila fyrir þann fjölda fólks sem um sækir og sinna þörfum þeirra eins vel og Norræna félagið gerir.

Mikilvægur hluti norræna samstarfsins í þágu barna og ungmenna fer einnig fram meðal annarra frjálsra félagasamtaka. Hið metnaðarfulla verkefni ungmennasambanda Norðurlandanna, ,,Menning og æska" er til vitnis um það. En þar er um 3000 ungmennum frá öllum Norðurlöndunum stefnt saman í Reykjavík sumarið 2000. Mótinu er ætlað að vera einhverskonar mótvægi við þá evrópuvæðingu sem nú er alls ráðandi og að kynna norræna samstarfið fyrir ungu fólki – grasrótinni. Aðal viðfangsefni mótsins eru menning af hvers konar tagi og umhverfismál. Það er mér sönn ánægja að geta sagt frá því að ráðherranefndin hefur styrkt þetta verkefni rausnarlega. Eins hefur ungmennasambandi Íslands, sem er aðal skipuleggjandi mótsins verið afar vel tekið hjá Norrænu félögunum á Norðurlöndum og þau hafa verið mjög jákvæð, m.a. hafa þau boðist til að nota dreifikerfi sitt og sent út kynningarbækling um mótið með fréttabréfum sínum. Allur slíkur stuðningur er ómetanlegur í öllu samstarfi ekki síst grasrótarsamstarfinu.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að hrósa Norrænu félögunum sérstaklega fyrir að hrinda í framkvæmd Snorra verkefninu. Þarna er enn eitt gott dæmi um það hversu mikilvæg frjálsu félagasamtökin eru þegar kemur að fjölbreytni í verkefnavali og nýjum hugmyndum. Þetta er svið sem ráðherranefndin hefur ekki sinnt enda á það að mínu viti betur heima hjá Norræna félaginu og hliðstæðum samtökum. Að mínu mati er þetta spennandi verkefni og þarft. Einmitt núna á síðustu árum hafa tengsl Vesturfaranna við gamla heiminn verið að rofna, kynslóðirnar sem séð hafa gamla landið eða innbyrt það með móðurmjólkinni eru óðum að hverfa. En þó að tengslin rofni í tímans rás er ekki þar með sagt að viljinn til að halda þeim við hverfi, þess vegna fagna ég mjög þessu verkefni Norrænu félaganna, þar sem þau bjóða ungu fólki, afkomendum Vesturfaranna til að koma til gamla heimsins og kynnast þar ættmennum sínum, landi og þjóð.

Enn eitt afar mikilvægt verkefni sem Norræna félagið hefur tekið að sér fyrir Norrænu ráðherranefndina er þjónustusíminn ,,Halló Norðurlönd". Honum er ætlað að veita norrænum borgurum sem hafa lent í vandræðum við t.d. flutning milli Norðurlandanna upplýsingar um hvernig best verði leyst úr þeim málum. Samhliða þessu er símaþjónustunni ætlað að kortleggja landamærahindranir í norræna samstarfinu og miðla þeim upplýsingum áfram til pólitískra valdhafa með það að markmiði að þróa enn frekar norræna samstarfið. Það er því ekki lítið verk sem Norræna félagið í Stokkhólmi hefur tekið að sér en þar er miðstöð þjónustusímans. Samstarfið við Norrænu félögin í löndunum þegar kom að upplýsingamiðlun og auglýsingu þjónustusímans hefur verið til fyrirmyndar og er það von mín að þjónustan verði áfram starfrækt enda hefur það sýnt sig að ekki var vanþörf á.

Allt það sem ég hef nefnt að ofan verður vonandi, og ég leyfi mér að segja án efa, til þess að koma norræna samstarfinu og Norðurlöndunum á kortið hjá ungu fólki í dag og oft var þörf en nú er nauðsyn. Af hverju? Af hverju er norræna samstarfið ekki eins sýnilegt og til dæmis Evrópusamstarfið? Í Evrópusamvinnunni eru eins og við öll vitum jafnt og þétt teknar ákvarðanir sem hafa bein og óbein áhrif á daglegt líf borgara um nánast alla Evrópu. Og það er á engan hátt markmið norræns samstarfs að skyggja á það eða koma í stað þess. Það er hins vegar skýr stefna að aðlaga norrænt samstarf að því evrópska og vera gagnleg viðbót við það og umræðugrundvöllur fyrir evrópsk mál. Ef við lítum á hvenær Evrópusamstarfið er mest í fréttum þá er það þegar uppi er ágreiningur innan sambandsins. Það gefur auga leið að því stórpólitískari mál sem eru til umræðu og því fleiri aðilar sem eiga aðild að samstarfi, þeim mun meiri hætta er á ágreiningi en þetta gerir það jafnframt spennandi – milli norrænu þjóðanna ríkir friður, vinátta og samhljómur og að því leitinu er það sterkara en Evrópusamstarfið en þetta veldur jafnframt því að það er ekki eins spennandi. Samstarf okkar á Norðurlöndum fellur auðveldlega í skuggann af þessum risa og virðist kannski líflaust og óspennandi. En úttektir og kannanir sýna okkur svart á hvítu að stöðugt er verið að endurskoða samstarfið, svið falla út og önnur ný sem eru takt við breytta tíma bætast við þannig er norræna samstarfið lifandi ekki síður en Evrópusamstarfið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum