Hoppa yfir valmynd
14. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Afnám barnahjónabanda umræðuefni á hliðarviðburði á vegum íslenskra, malavískra og sambískra stjórnvalda

Leiðir til þess að afnema barnahjónabönd í Afríkuríkjum verður meginefni hliðarviðburðar á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna á morgun, 15. mars, í New York. Stjórnvöld á Íslandi standa að viðburðinum ásamt stjórnvöldum í tveimur Afríkuríkjum, Malaví og Sambíu í samstarfi við Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) við Háskóla Íslands.

„Áskoranir og tækifæri við að ná fram kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna í dreifbýli“ er yfirskrift fundar Kvennanefndarinnar í ár. Í því samhengi verður rætt um leiðir sem Malaví og Sambía hafa farið til að koma í veg fyrir að börn, aðallega stúlkur, séu giftar á barnsaldri.

Samkvæmt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á að vera búið að afnema alla skaðlega siði, þar á meðal barnahjónabönd, fyrir árið 2030. Nýjar tölur Sameinuðu þjóðanna um fjölda barnahjónabanda sýna að dregið hefur úr þeim  en einungis  um 15% á einum áratug. Siðvenjan er rótgróin og mjög útbreidd en í kringum 70 milljónir núlifandi kvenna og stúlkna í heiminum hafi verið giftar fyrir átján ára aldur. Í mörgum Afríkuríkjum eru fjórar af hverjum tíu stúlkum komnar í hjónaband áður en þær ná átján ára aldri og spár benda til þess að árið 2030 verði þær orðnar 750 milljónir að óbreyttu. Þriðjungur barnabrúða mun eiga heima í Afríku sunnan Sahara.

Í frétt frá Jafnréttisskólanum (UNU-GEST) segir að barnahjónabönd sé venja sem beinist í nær öllum tilfellum að ungum stúlkum og sé ein birtingarmynd kynbundins ofbeldis. "Barnungar stúlkur eru þvingaðar af foreldrum eða aðstæðum, oftar en ekki vegna fátæktar, í hjónaband og hætta þá oftast í námi og missa af tækifærum til að hafa áhrif á framtíð sína. Þessi hræðilegi siður hefur auk þess mikil áhrif á heilsu stúlkna þegar þær barnungar verða barnshafandi og eiga á aukinni hættu að þjást af meðgöngukvillum og eiga erfiða fæðingar. Mæðradauði sé algengasta dánarorsök unglingsstúlkna á aldrinum 15-19 ára í sunnanverðri Afríku," segir í fréttinni.

Þar segir ennfremur:

"Afríkusambandið hefur bæði haldið sérstakan leiðtogafund um afnám barnahjónabanda og staðið fyrir herferðum gegn þessari siðvenju. Ríkisstjórnir landa eins og Malaví og Sambíu hafa báðar verið í fararbroddi baráttunnar og viðburðurinn í New York á morgun er ekki hvað síst haldinn til þess að sýna þær leiðir sem stjórnvöld í þessum tveimur Afríkuríkjum hafa farið. Í Malaví eru 42% stúlkna giftar fyrir átján ára aldur og í Sambíu er sambærileg tala 31%.

Í Malaví var á síðasta ári samþykkt stjórnarskrárbreyting sem felur í sér að giftingaraldur var hækkaður úr fimmtán árum í átján. Í báðum löndunum hefur verið ötullega unnið með þorpshöfðingjum, kennurum, trúarleiðtogum og foreldrum, en malavíski þorpshöfðinginn Tereza Kachindamoto, sem ógilt hefur rúmlega 800 barnahjónabönd í Malaví, verður meðal fyrirlesara á málstofunni í  New York."

Kristín Árnadóttir, sendiherra jafnréttismála í utanríkisráðuneytinu, heldur erindi á viðburðinum svo og ráðherrar jafnréttismála frá Malaví og Sambíu auk sérfræðinga frá báðum Afríkuþjóðunum, UN Women og Afríkusambandinu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 5 Jafnrétti kynjanna
Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum