Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2007 Innviðaráðuneytið

Rætt um ýmsar hliðar samgöngumála og umhverfis

Samgöngur og umhverfismál var yfirskrift fundar samgönguráðs í vikunni þar sem fjallað var um það hvernig akstur, flug og siglingar hafa áhrif á umhverfið. Er þetta fjórði fundurinn í fundaröð samgönguráðs og sátu hann um 40 manns.

Samgöngukerfi landsins hefur margvísleg áhrif á samfélag, náttúru og loftslag.
Samgöngukerfi landsins hefur margvísleg áhrif á samfélagið, náttúrufar og loftslag.

Matthildur Bára Stefánsdóttir, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, fjallaði um vegagerð og umhverfi. Hún sagði losun gróðurhúsalofttegunda halda áfram að aukast og mikilvægt væri að draga úr nettólosun næstu tvo til þrjá áratugina. Matthildur sagði að aðgerðir eins og að stytta leiðir, fækka bröttum brekkum og leggja bundið slitlag væru til þess fallnar að minnka losun en þó gæti stytting í sumum tilvikum orðið til þess að auka umferð. Hún benti á að um 30% af fjárframlagi rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar hefðu á síðasta ári farið til verkefna á sviði umhverfis- og samfélagsmála og að á næsta ári yrði væntanlega lögð áhersla á slík verkefni við úthlutun styrkja. Einnig minnti hún á umverfisstefnu Vegagerðarinnar og sagði nauðsynlegt að stýra ýmsum umhverfisþáttum og vakta þá svo sem röskum umhverfis vegna framkvæmda, eldsneyti á bíla og vinnuvélar, asfalt og eiturefni, rotþrær, áburð og gamlar efnisnámur.

Jón Bernódusson, verkfræðingur hjá rannsókna- og þróunarsviði Siglingastofnunar Íslands, ræddi áhrif útblásturs frá skipum á umhverfið. Sagði hann meðal annars að gera þyrfti fýsilegri notkun vistvænna skipavéla sem nota svartolíu og leggja áherslu á rannsóknir á nýtingu umhverfisvænna orkugjafa. Jón benti á nokkrar lausnir í þessu sambandi. Hann sagði hönnun og val á vélakosti svo og orkusparandi kerfi geta haft nokkur áhrif til sparnaðar. Einnig væri unnt að minnka útstreymi með því að hreinsa eiturefni úr afgasi. Þá benti hann á gróðurræktun til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Benti hann sérstaklega á repju í því sambandi. Fram kom einnig í máli Jóns að hin mismunandi veiðarfæri þurfa mismikla orku og taldi hann ljóst að með hækkandi olíuverði myndu útgerðarmenn velja veiðarfæri í samræmi við það.

Sveinn Ólafsson, verkfræðingur hjá Flugmálastjórn Íslands, fjallaði um græna framtíð flugsins og sagði hann bæði útblástur og hávaða hafa mikil áhrif á umhverfið. Hann ræddi meðal annars þá ákvörðun Evrópusambandsins að koma árið 2011 á kvóta á útblástur frá flugumferð. Sagði hann það munu hafa mikil áhrif hér, flugrekendur yrðu að kaupa útblásturskvóta og farmiðaverð myndi hækka en í dag er eldsneytisverð kringum 28% af rekstrarkostnaði. Í Evrópulöndum myndu eins til tveggja tíma flugferðir leggjast af og Sveinn sagði það spurningu hvaða flugferðir myndu leggjast af hérlendis. Þá sagði hann að mögulegt væri að fá enn sparneytnari flugvélahreyfla, skipuleggja leiðir og áætlanir betur og hugsanlega nýta aðra orkugjafa í framtíðinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum