Hoppa yfir valmynd
14. september 2013 Forsætisráðuneytið

Næstu skref í byggðamálum og áætlanagerð landshluta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti ávarp og tók þátt í umræðum á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi sem fram fer á Eskifirði. Í ávarpi sínu fjallaði forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum sem m.a. gerir ráð fyrir að áfram verði unnið að samþættingu opinberra áætlana og gerð sérstakra landsáætlana í samvinnu við sveitarfélögin. 

Ætlunin sé að dreifstýra almannafé í gegnum áætlanir hvers landshluta með það að markmiði að færa aukin völd og ábyrgð til landshlutanna. Þannig megi ná fram betri nýtingu fjármuna, einfalda stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar, ýta undir enn meira samráð innan hvers landshluta á grundvelli svæðisbundinna áherslna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum.  

Forsætisráðherra sagði eðli byggðamála vera að þau kæmu við sögu í öllum ráðuneytum. Þess vegna sé mikilvægt að Stjórnarráðið sé samhent í vinnu við málaflokkinn og ætlunin væri að halda samráði allra ráðuneyta um byggðamál áfram og samhæfa aðkomu stjórnvalda í skrefum. Full mynd ætti að vera komin á þessa vinnu um og upp úr næstu áramótum.

Forsætisráðherra sagði að í vinnu ráðuneytanna að undanförnu hafi verið gert ráð fyrir áframhaldandi fjármögnun  áætlana með fyrirvara um samþykki Alþingi. Ráðherra gerir ráð fyrir að það fjármagn sem nú rennur um vaxtarsamninga, menningarsamninga og samninga eða styrkja sem lúta að byggðaþróun í víðtækri merkingu, bætist auk þess við farveg áætlanagerðarinnar.  

Forsætisráðherra ræddi í lok ávarp síns um það grunnstef sem litað hefur umræðuna um landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið. Hann sagði m.a.: 

„Margt hefur breyst á síðastliðnum 20 árum.  Þróun síðustu ára hefur leitt af sér fækkun skipulagsheilda og aukna samhæfingu í þjónustu á sama tíma og þjónusta hefur færst í auknu mæli frá ríkisvaldinu til sveitarfélaga. Sveitarfélögum hefur á þessum 20 árum fækkað úr 202 í 74 og samvinna þeirra á vettvangi landshluta stóraukist.  Það er þó eitt grunnstef í umræðunni varðandi lífskjör og tækifæri á Íslandi sem virðist lítið breytast, illu heilli.  Þ.e. landsbyggðin  „versus“ höfuðborgarsvæðið. Það er grunnstefið sem litað hefur stóran hluta stjórnmálaumræðu síðustu aldar og klofið þjóðina of oft bæði í hugsun og orði í „við“ og „þið“.  

Ég sé tækifæri í samvinnu en ekki aðskilnaði. Við verðum að komast upp úr þeirri tvípóla orðræðu sem einkennt hefur okkur svo lengi. Vissulega eru sjónarmið á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu oft grundvölluð á ólíkum hagsmunum og/eða ólíkri upplifun á veruleikanum. En við bara komumst svo miklu betur áfram ef við byrjum á því að skilgreina sameiginlega hagsmuni okkar og sameiginlegan veruleika.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum