Hoppa yfir valmynd
13. maí 2005 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Benedikt Ásgeirsson, sendiherra, afhenti í gær, 12. maí 2005, forseta Úganda, Yoweri Kaguta Museveni, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Úganda með aðsetur í Mósambík.

Í framhaldi af afhendingu trúnaðarbréfsins átti sendiherra fund með forsetanum þar sem rædd voru samskipti landanna.  Þá átti sendiherra fund með utanríkisráðherra og

embættismönnum utanríkisráðuneytisins.

 

Ísland og Úganda tóku upp stjórnmálasamband árið 2000, en þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur sendiherra afhendir trúnaðarbréf í Úganda.

 

Úganda er eitt af fjórum þróunarsamstarfslöndum Íslands í Afríku. Þróunarsamvinna landanna hófst árið 2001 og hefur verið á sviði fiskmála og félagslegra verkefna, aðallega fullorðinsfræðslu.  Þá hófst samstarf um jarðhitarannsóknir fyrir rúmu ári.  Rúmlega 30% ólæsi er í Úganda og fullorðinsfræðslan er liður í átaki til að draga úr því.

 

Fiskveiðar og -vinnsla er mikilvæg atvinnugrein í Úganda en útflutningsverðmæti sjávarafurða nemur rúmlega 100 millj. USD og kemur næst á eftir kaffi sem er aðalútflutningsvara landsins.

 

Á sl. ári var umdæmisskrifstofa Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda gerð að sendiráði Íslands í landinu. Umdæmisstjóri ÞSSÍ, Ágústa Gísladóttir, veitir sendiskrifstofunni forstöðu en sendiherrann hefur aðsetur í Mósambík.

 

Viðskipti Íslands og Úganda hafa aukist á undanförnum árum. Fyrir tveimur árum efndu utanríkisráðuneytið, Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Útflutningsráð til samstarfsverkefnis með þátttöku íslenskra fyrirtækja, m.a. í þeim tilgangi að markaðssetja fiskvinnslubúnað í Úganda. Á vegum þessara aðila hefur verið starfsmaður í Úganda til að sinna markaðsstörfum á sviði sjávarútvegs. Þá er íslenskt fyrirtæki, Icemark,   starfandi í Úganda en það selur og flytur út ferskan fisk, blóm og grænmeti. Icemark er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins í útflutningi með á ferskum afurðum með flugi.  Verið er að kanna möguleikana til að auka viðskiptin milli Íslands og Úganda.

 

    



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum