Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2017 Innviðaráðuneytið

Norðfjarðargöng formlega opnuð

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Hrein Haraldsson vegamálastjóri klippa á borðann. Við hlið Jóns er Stefán Þorleifsson sem er 101 árs, Kristján L. Moller fyrrverandi samgönguráðherra, og Anna Hallgrímsdóttir sem er 100 ára sem eins og Stefán hefur beðið lengi eftir Norðfjarðargöngum. - mynd

Norðfjarðargöng, milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, voru formlega opnuð í gær við hátíðlega athöfn en talið er að yfir þúsund manns hafi verið viðstödd. Fjarðabyggð efndi til margs konar viðburða í sveitarfélaginu um helgina af þessu tilefni.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra klippti á borða í gangamunnanum Eskifjarðarmegin með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra, eldri borgaranna Önnu Hallgrímsdóttur, 100 ára, og Stefáns Þorleifssonar, 101 árs, sem og Kristjáns L. Möller og Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi samgönguráðherra, Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra og Smára Leví Williamssonar sem sjá um skærin. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri stýrði athöfninni í gangamunnanum og sagði Norðfjarðargöng stærstu einstöku framkvæmd í vegamálum í landinu undanfarin ár. Framkvæmdin væri ekki aðeins einstök fyrir umfang hennar heldur fyrir þau samfélagslegu áhrif sem hún hefði í sveitarfélaginu og nágrannabyggðum og á öllu Mið-Austurlandi.

Áður en klippt var á borðann fluttu séra Davíð Baldursson í Eskifjarðarprestakalli og séra Sigurður Rúnar Ragnarsson í Norðfjarðarprestakalli blessunarorð og kór Reyðarfjarðarkirkju söng tvö lög. Einnig sagði Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri nokkur orð og fagnaði þessum langþráða áfanga í samgöngubótum á Austurlandi.

Allt tilbúið við borðann, frá hægri: Steingrímur J. Sigfússon, Hreinn Haraldsson, Jón Gunnarsson, Stefán Þorleifsson, Kristján L. Möller, Anna Hallgrímsdóttir og Benedikt Jóhannesson.

Fulltrúar Metrostav og tékkneski sendiherrann ræða hér við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og vegamálastjóra.

Á myndinni má sjá fulltrúa tékkneska verktakans Metrostav og sendiherra Tékklands ræða við ráðherra og vegamálastjóra. 

Hér að neðan má sjá Stefán Þorleifsson undir stýri áður en hann renndi sér með Jón Gunnarsson gegnum göngin.

Stefán Þorleifsson undir stýri áður en hann renndi sér með Jón Gunnarsson gegnum göngin.

Stefán Þorleifsson ók síðan ráðherranum gegnum göngin. Eftir athöfnina við gangamunnann bauð Vegagerðin til kaffisamsætis í Dalahöllinni í Fannardal í Norðfirði. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vegamálastjóri, fulltrúar Vegagerðar og verktaka, þingmenn, sveitarstjórnarmenn og fleiri fluttu þar ávörp og flutt var tónlist.

Hreinn Haraldsson sagði nokkur orð í upphafi og flutti kveðju frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Hreinn sagði meðal annars að undirbúningur og hönnun Norðfjarðarganga og annarra mannvirkjanna þeim tengdum hefði verið í höndum Vegagerðarinnar og ráðgjafa. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar kæmu að verkinu frá upphafi til enda og þakkaði hann öllum fyrir vel unnið verk svo og sveitarstjórn, ráðherrum og þingmönnum fyrir góð samskipti. Einnig nefndi vegamálstjóri sérstaklega tvo starfsmenn Vegagerðinnar, þá Svein Sveinsson, svæðisstjóra Austursvæðis, og Gísla Eiríksson, forstöðumann á jarðgangasviði.

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra óskaði heimamönnum og Austfirðingum til hamingju með daginn og sagði Norðfjarðargöng byltingu í samgöngumálum á Austurlandi. Tilkoma þeirra hefði víðtæk áhrif á öllum sviðum samskipta og atvinnulífs. Þau leystu af hin gömlu Oddsskarðsgöng sem væru barn síns tíma og löngu tímabært að bæta úr. Hann sagði göngin munu efla atvinnulíf á Austurlandi hvort heldur litið væri til fiskvinnslu, fiskeldis, ferðaþjónustu og ekki síður í heilbrigðisþjónustu og skólasókn.

Norðfjarðargöng leysa af fjallveginn um Oddsskarð sem liggur í rúmlega 600 m hæð yfir sjó og efst í því eru 640 m göng sem tekin voru í gagnið árið 1977. Norðfjarðargöng eru 7,5 km löng og vegskálar beggja megin eru alls 342 m. Auk ganganna voru lagðir nýir vegarkaflar að gangamunnum beggja megin, 2 km í Eskifirði og 5,3 km í Norðfirði, einnig 58 m löng brú yfir Eskifjarðará og 44 m löng brú yfir Norðfjarðará. Alls kostar framkvæmdin nærri 14 milljarða króna.

Fjögurra ára verktími

Framkvæmdir við göngin Eskifjarðarmegin hófust í september 2013 eftir forval og útboð og skrifað var undir verksamning við verktakana Suðurverk og Metrostav frá Tékklandi sumarið 2013. Brýrnar byggði VHE ehf. og eftirlit með framkvæmdum annaðist verkfræðistofan Hnit. Fyrst var sprengt fyrir göngunum Eskifjarðarmegin 14. nóvember 2013 og gerði það Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. Gangagröftur Norðfjarðarmegin hófst í mars 2014 og í september 2015 sprengdi Ólöf Nordal innanríkisráðherra síðasta haftið.

Eftir það hefur verið unnið við vegskála, tæknirými í göngunum, lagnir, rafbúnað og veginn sjálfan gegnum göngin og utan ganga. Lokafrágangur við svæðin beggja megin er á dagskrá með vorinu. Misjafnlega margir starfsmenn hafa unnið við verkið hverju sinni en oft um 50 manns þegar mest hefur verið.

 

 

  • Hreinn Haraldsson ávarpar gesti í Norðfjarðargöngum. Við hlið hans eru prestarnir Sigurður Rúnar Sigurðsson og Davíð Baldursson og fremst eru Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi samgönguráðherra, Stefán Þorleifsson, Jón Gunnarsson og Anna Hallgrímsdóttir. - mynd
  • Fjölmenni var í kaffisamsæti í boði Vegagerðarinnar eftir opnun ganganna. - mynd
  • Jón Gunnarsson flytur ávarp í gangamunnanum. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum