Hoppa yfir valmynd
28. desember 2021

Úttekt á búsetuúrræðum og hvíldardvöl Klettabæjar

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar hefur lokið úttekt á búsetuúrræðum og hvíldardvöl Klettabæjar. Meginmarkmið úttektarinnar voru:

  • að kanna hvort þjónusta og aðbúnaður sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um þjónustu búsetuúrræða og hvíldardvalar Klettabæjar.
  • að kanna samsetningu notendahópsins, gæði faglegs starfs og öryggi og eftirlit með þjónustunni.
  • að fá fram upplifun og reynslu barna og ungmenna af dvöl í búsetuúrræðum og hvíldardvöl Klettabæjar.

Til að fá sem heildstæðasta mynd af þeirri starfsemi og þjónustu sem er í boði var fjölbreyttum aðferðum beitt við framkvæmd úttektar, s.s. rafrænum spurningakönnunum meðal starfsmanna Klettabæjar og starfsmanna sveitarfélaga, viðtölum við börn/ungmenni og stjórnendur hjá Klettabæ og greiningu gagna. Við gerð viðtalsramma sem notaðir voru í viðtölunum var stuðst við Gæðaviðmið fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk og Staðla fyrir vistun eða fóstur barna á vegum barnaverndaryfirvalda.

Í búsetuúrræðum og hvíldardvöl Klettabæjar dvelja börn og ungmenni sem ekki geta búið heima vegna flókins og fjölþætts vanda og þurfa fjölþætta þjónustu til skamms eða lengri tíma. Oft og tíðum eiga sveitarfélögin sjálf erfitt með að mæta þjónustuþörfum þessa hóps með þeim úrræðum sem þau reka sjálf og/eða hafa kosið að fela einkaaðila að veita þjónustuna með þjónustusamningi á grundvelli 6. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 eða á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ábendingar til Klettabæjar lúta m.a. að því að bæta upplýsingagjöf til barna/ungmenna um vistun þeirra í Klettabæ í samvinnu við ráðgjafa sveitarfélaganna og að áhersla verði lögð á einstaklingsmiðaða fræðslu um þarfir og fatlanir hvers barns/ungmennis í vistun hjá Klettabæ.

Tilmæli um úrbætur voru send til þeirra sveitarfélaga sem voru með þjónustusamning við Klettabæ. Sveitarfélögin voru hvött til að gæta að því að ávallt væru í gildi þjónustusamningar við Klettabæ vegna barna/ungmenna í dvöl hjá félaginu og að þeir væru endurnýjaðir tímanlega svo að unnt væri að stuðla að stöðugleika í lífi barnanna og ungmennanna.

Minnt var á mikilvægi þess að lagagrundvöllur fyrir vistun barna hjá Klettabæ væri skýr, þ.e. hvort barn væri vistað samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða samkvæmt barnaverndarlögum. Ennfremur var minnt á ábyrgð sveitarfélaga varðandi gerð einstaklingsbundinna þjónustuáætlana, að kröfulýsing eða ítarleg þjónustulýsing skuli fylgja þjónustusamningi sveitarfélaga við Klettabæ og lögbundna skyldu sveitarfélags varðandi innra eftirlit með framkvæmd þjónustu Klettabæjar á grundvelli þjónustusamnings.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum