Hoppa yfir valmynd
2. maí 2014 Utanríkisráðuneytið

„Já góðan daginn, get ég leigt hjá ykkur þotu?”

Hreinn Pálsson
Hreinn Pálsson

Borgaraþjónustan er einn af mikilvægustu þáttunum í starfsemi utanríkisþjónustunnar, bæði á aðalskrifstofunni heima á Íslandi en þó sérstaklega hjá sendiskrifstofunum og kjörræðismönnum Íslands erlendis. Flest þau verkefni sem unnin eru á þessum vettvangi eru þó þess eðlis að það er ekki okkar að fjalla um þau opinberlega þar sem um einkamál einstaklinga er að ræða.

Öðru hverju koma þó upp það sem við köllum stærri borgaraþjónustu verkefni. Þá er átt við atburði þar sem margir íslenskir ríkisborgarar þurfa á aðstoð að halda samtímis. Þetta hefur t.d. gerst þegar hryðjuverkaárásum hefur verið beint að borgum þar sem Íslendingar eru fjölmennir, þegar náttúruhamfarir ganga yfir svæði þar sem Íslendingar eru búsettir eða gestkomandi en einnig þegar átök eða stórslys eiga sér stað.

Þegar svona atburðir koma upp eru til staðar áætlanir og viðbúnaður til að mæta eftir bestu getu þeim þörfum sem upp kunna að koma. Viðbragðsáætlun, þjálfað starfsfólk, símaver og búnaður, samskiptanet og samstarfsvettvangur við aðrar þjóðir, jafnvel eru starfsmenn sendir með búnað á staðinn til að veita aðstoð.

Eitt slíkt tilfelli kom upp í kjölfar átaka í Líbanon milli Ísrael og Hezbollah í júlí 2006. Tvær íslenskar fjölskyldur og þrír starfsmenn Atlanta voru þá stödd í borginni þegar átökin brutust óvænt út. Ég var að leysa af á borgaraþjónustuvaktinni þessa vikuna og um leið og fréttir bárust af árásum Ísrael á skotmörk í og við Beirut fór viðbragðsáætlun okkar í gang undir stjórn Péturs Ásgeirssonar, yfirmanns borgaraþjónustunnar og Gunnars Snorra Gunnarssonar, þá ráðuneytisstjóra.

Safnað var upplýsingum um ástandið gegnum fjölmiðla og með samskiptum við þá sem höfðu starfsfólk á staðnum, svo var farið að grennslast fyrir um það hvort einhverjir Íslendingar væru í hættu. Fljótlega kom í ljós að tvær íslenskar fjölskyldur með börn og eitt á leiðinni, auk þriggja flugvirkja væru stödd nálægt hættusvæðum, í allt 10 manns. Þá var ljóst að við þyrftum strax að hefjast handa við að gera ráðstafanir til að koma þeim á öruggan stað.

Flugvöllurinn í Beirut varð fyrir árásum og sprengjur voru að springa víðsvegar kringum borgina. Ekki var því mælt með því að fólk væri að ferðast á eigin vegum. Pétur var í stöðugum samskiptum við norrænu utanríkisþjónusturnar og ég var í sambandi við Íslendingana á svæðinu, saman reyndum við að átta okkur á aðstæðum og þeim kostum sem voru í stöðunni til að upplýsa ráðuneytisstjóra, ráðherra og þá sem þurftu á aðstoðinni að halda.

Ljóst var að sendiskrifstofur Norðurlandanna á svæðinu voru fáliðaðar og því voru þær undir miklu álagi að útvega flutning og gera samninga við stríðandi aðila og stjórnvöld í Sýrlandi um öruggan flutning erlendra ríkisborgara til Damaskus.

 Málið var þó ekki leyst þó fólkið væri komið yfir til Sýrlands því ómögulegt var að fá flug frá Damaskus, hvort heldur í almennu farþegaflugi eða leiguflugi. Við fengum því þá hugmynd að semja við flugfélagið Atlanta um að leigja þotu frá þeim til að ná í Íslendinga og aðra Norðurlandabúa. Þrír af þeim sem voru á svæðinu voru starfsmenn þeirra auk þess sem við vorum að vinna með þeim að því að fá þotu sem þeir áttu í Beirut lausa úr herkví. Það var stór biti fyrir Pétur að þurfa að hringja í ráðherra og óska eftir því að fá að leigja júmbó-þotu. Aðrar flugvélar voru ekki í boði og það var litið svo á að það væri mikils vert að geta boðið hinum norðurlandaþjóðunum sæti í fluginu frá Sýrlandi. Ísland er oftast þiggjandi í samstarfi Norðurlandanna á vettvangi borgaraþjónustu, þar sem við fáum oft aðstoð á svæðum þar sem við erum ekki með fyrirsvar. Það er auðvitað ekkert sjálfsagt að við getum alltaf kallað eftir slíkri þjónustu annarra og því mikilvægt að leggja sit af mörkum þegar það er hægt.

Okkar fólk í Beirut var ótrúlega rólegt allan tímann og sýndi mikið hugrekki við mótlæti, erfiðar aðstæður og í hringiðu atburða sem fæst okkar getum ímyndað okkur nokkurn tímann að þurfa að takast á við. Í svona ástandi eru allir á tánum, upp koma aðstæður sem þarf að bregðast við og ákvarðanir eru teknar hratt. Við lentum í því að þau sæti sem við höfðum fyrir Íslendingana í bílalest á vegum Norðmanna voru látin til annarra og við þurftum því í miklum flýti að fá pláss hjá Finnum fyrir þá sex sem ekki komust með norsku bílalestinni. Þetta olli nokkrum taugatitringi, sem von var, en með hjálp Finna var málinu reddað á síðustu stundu og okkar fólk komst allt til Damaskus.

Þá var bara eftir að koma vélinni til Damaskus, fylla hana af fólki og fljúga svo þaðan til Kaupmannahafnar. Starfsfólk Atlanta fór á fullt í að græja málin á ótrúlega stuttum tíma. Mér var sagt að fara með næstu vél til London og þaðan um borð í vél Atlanta, sem þar var staðsett, og halda til Damaskus til að sækja hópinn. Ég rauk því af stað til London ásamt þremur fulltrúum fjölmiðla sem óskað höfðu eftir því að fá að fylgjast með hvað um væri að vera.

Flugið til London gekk áfallalaust ef undan eru skildar skammir flugþjónanna fyrir símtöl í farsíma við ráðuneytið og Atlanta fram á síðustu stundu fyrir flugtak. Í London sótti fulltrúi sendiráðsins okkur og eftir stutt stopp var haldið út á RAF Brize Norton, herflugvöll fyrir utan London, þar sem flugvélin okkar var staðsett. Eftir stutt samtal við þá sem vöktuðu flugvöllinn var brunað beint upp að flugvélinni og um borð í Boeing 747 vélina sem beið okkar, nú skyldi haldið af stað! En nei þá kom símtal, bíllinn sem flutti mat og drykk fyrir farþegana hafði sprengt dekk og var þar að auki fastur í umferðarteppu á leið sinni frá Heathrow. Nú voru góð ráð dýr og því hringt heim í ráðuneyti til að fá leiðbeiningar og fyrirmæli um hvað skuli gert. Ég náði í Pétur þegar nokkuð var liðið á nóttina heima á Íslandi og spyr hann; a) eigum við að fljúga til Damaskus og vona að við fáum mat og drykk þar fyrir farþegana (sem væri ólíklegt með svona stuttum fyrirvara) eða b) bíða eftir að matarbíllinn komist til okkar sem gæti tekið allt að 5 til 6 tíma? Niðurstaðan var að bíða því ekki væri forsvaranlegt að fljúga í fleiri klukkutíma án matar og drykkjar með um 400 farþega, marga þeirra sjúka, gamla og börn. Bíllinn kom eftir 3 tíma og þá var rokið í loftið.

Þeir örfáu farþegar sem um borð voru nýttu plássið í tómri þotunni og reyndu að leggja sig meðan á flugferðinni stóð til Damaskus og við lentum í Sýrlandi snemma næsta dag. Allir voru tilbúnir og því var ekki eftir neinu að bíða með að fylla þotuna af fólki. Íslendingarnir fengu efri hæðina í vélinni auk starfsmanna sendiráða Norðurlandanna en á neðri hæðinni voru um 380 Danir, Norðmenn og Finnar á leið heim. Sem betur fer voru læknar með í för því á ýmsu gekk á leiðinni til Kaupmannahafnar hjá hinum erlendu farþegum um borð, krankleikar og eðlileg þreyta, pirringur og hræðsla. Það fór því fram bæði hjúkrun og sáluhjálp frá hendi okkar sem voru starfsmenn um borð. Við komumst áfallalaust til Kaupmannahafnar þar sem Svavar Gestsson, þá sendiherra í Kaupmannahöfn, beið okkar. Við biðum þar í ágætu yfirlæti á vegum Icelandair, sem hafði útvegað sæti fyrir Íslendingana til að geta flogið áfram heim. Allir voru glaðir, ánægðir en þreyttir þegar loks var komið heim til Íslands.

Íslendingarnir ásamt Hreini og Þóri Guðmundssyni, fréttamanni Stöðvar 2


Það er ánægjulegt að sinna starfi þar sem maður upplifir að hafa getað gert gagn og veitt aðstoð þar sem hennar var þörf. Yfirvegun Íslendinganna sem voru í háska og gott samstarf ráðuneytisins við hin Norðurlöndin og íslenska aðila voru í þessu tilfelli, eins og í mörgum öðrum, ástæða þess að vel tókst til við að leysa flókið mál.

Hreinn Pálsson er sendiráðunautur í Moskvu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum