Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2016 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ráðherra opnar sýningu á Brjánslæk um Surtarbrandsgil

Frá opnun sýningarinnar. - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði í dag sýningu um náttúruvættið Surtarbrandsgil í gamla prestsbústaðnum á Brjánslæk.

Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 en gilið er einn merkasti fundarstaður plöntusteingervinga á Íslandi. Þar hafa verið greindar um 65 tegundir plantna, aðallega lauftré. Surtarbrandsgil er þekkt víða utan landssteinanna og finna má steingervinga úr gilinu á náttúrugripasöfnum víða í Evrópu. Eins og nafnið gefur til kynna er talsvert af surtarbrandi í gilinu.

Tilgangurinn með sýningunni er að fræða almenning um jarðfræði Surtarbrandsgils og það loftslag og gróðurfar sem var fyrir um 11- 12  milljónum árum en steingervingar úr gilinu geyma mikilvægar vísbendingar um það. Bæði steingervingar og surtarbrandur eru til sýnis á sýningunni auk þess sem mikilvægi þess að vernda fundarstaði steingervinga er undirstrikað.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra ásamt ábúendum á Brjánslæk, þeim Jóhanni Pétri Ágústssyni og Halldóru Ingibjörgu Ragnarsdóttur.

Sagði ráðherra vonast til að sýningin yrði til þess að styrkja byggð á svæðinu og myndi stuðla að heimsóknum gesta til að skoða þá sögu sem surtarbrandurinn varðveitir. „Það er trú mín að með aukinni fræðslu og leiðbeiningum takist okkur að vernda betur þær gersemar sem steingervingaflóran er – fyrir okkur og komandi kynslóðir og gefi vísindamönnum í dag og í framtíðinni tækifæri til rannsókna á jarðsögu landsins.“

 Mikið magn af steingervingum hafa verið fjarlægðir úr Surtarbrandsgili í gegnum árin og er svæðið á rauðum lista Umhverfisstofnunar. Nú hefur tekist að koma í veg fyrir það að mestu með því að auka landvörslu, setja upp hlið og skilti ásamt því að vera með skipulagðar fræðslugöngur í gilið með landverði fimm sinnum í viku yfir sumartímann.    

Hönnuður sýningarinnar er Gunnlaugur Björn Jónsson arkitekt en Hákon Ásgeirsson sérfræðingur Umhverfisstofnunar sá um heimildaröflun og textagerð. Friðgeir Grímsson veitti leyfi fyrir notkun heimilda og mynda úr bók sinni „Late Cainozoic Floras of Iceland“.

Sýningin verður í gamla prestbústaðnum á Brjánslæk sem var byggt árið 1912 og ábúendur á staðnum hafa gert upp en þeir ætla að opna kaffihús í húsinu næsta sumar. 

Úr Surtarbrandsgili Ljósmynd: Umhverfisstofnun.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira