Hoppa yfir valmynd
18. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 144/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 144/2017

Miðvikudaginn 18. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags 6. apríl 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. apríl 2017 um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 9. febrúar 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. febrúar 2017, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar um að umsækjandi eða annar heimilismaður hafi ökuréttindi. Þann 24. febrúar 2017 sótti kærandi að nýju um uppbót/styrk til bifreiðakaupa og synjaði Tryggingastofnun kæranda að nýju með bréfi, dags. 5. apríl 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. apríl 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. maí 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. maí 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en af gögnum málsins má ráða að kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn hennar um uppbót/styrk til bifreiðakaupa verði felld úr gildi og umsóknin samþykkt.

Í kæru segir að kærandi hafi ákveðið vera hreinskilin í umsókn sinni og upplýst að hún fái aðstoð […] við allan akstur, þrátt fyrir að þær séu ekki með sama lögheimili. Kærandi sé með ökuskírteini í gildi og hefði getað sagt á umsókn að hún sjálf myndi aka bílnum og þá hefði niðurstaða Tryggingastofnunar líklega orðið önnur.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa, samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, með umsókn, dags. 10. febrúar 2017. Umsókninni hafi verið synjað þar sem skráður ökumaður sé ekki heimilismaður kæranda. Kærandi hafi sent inn nýja umsókn 24. febrúar 2017 með frekari gögnum. Þeirri umsókn hafi einnig verið synjað með frekari rökstuðningi.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar sé sýnt að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Sett hafi verið reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009. Í 3. gr. sé fjallað um uppbót vegna bifreiðakaupa og í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um styrki vegna bifreiðakaupa. Í 2. mgr. 4. gr. komi fram að eingöngu megi veita styrk vegna bifreiðakaupa ef hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður og sé þetta atriði ítrekað í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Núgildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi tekið gildi árið 2009 og hafi hún tekið við af eldri reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða, nr. 752/2002, með síðari breytingum.

Með þeirri reglugerð hafi aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður hafi verið. Eitt af þeim atriðum sem sérstaklega hafi verið tekin afstaða til hafi verið hversu ströng skilyrði ætti að setja um að uppbótar- eða styrkþeginn hafi sjálfur ökuréttindi. Í eldri reglugerð hafi eins og nú verið skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiðar að umsækjandi eða heimilismaður hans hefðu ökuréttindi. Fyrir veitingu styrkja vegna bifreiðakaupa hafi hins vegar verið strangari skilyrði en í þeim tilvikum hafi umsækjandi þurft sjálfur að hafa ökuréttindi.

Í reglugerð nr. 170/2009 hafi skilyrði til þess að eiga rétt á styrk vegna bifreiðakaupa, hvort sem það sé samkvæmt 4. gr. eða 5. gr reglugerðarinnar, verið rýmkuð á þann hátt að nú þurfi umsækjendur ekki sjálfir að hafa ökuréttindi heldur dugi að heimilismaður hafi slík réttindi. Núna séu því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans, hvort sem um sé að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða samkvæmt 2. og 3. gr. eða styrki til bifreiðakaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar.

Markmið breytinganna, sem gerðar hafi verið árið 2009, virðast hafa verið að samræma þau skilyrði sem gerð hafi verið til ökuréttinda, hvort sem um sé að ræða uppbót til reksturs bifreiðar, uppbót til kaupa á bifreið eða styrk vegna kaupa á bifreið.

Tryggingastofnun vilji að lokum benda á að ýmis félagsleg réttindi frá ríki og sveitarfélögum séu bundin við það að bótaþegi sé einn um heimilishald. Of langt mál yrði að telja upp öll þau réttindi, en sem dæmi þá sé bent sérstaklega á að kærandi fái greidda heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Miðað við skýrt og afdráttarlaust orðalag framangreindra ákvæða sé ljóst að kærandi eigi ekki rétt á styrk til bifreiðakaupa. Rétt sé að benda á að sú niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar meðal annars í málum nr. 246 og 247 frá árinu 2009 og einnig úrskurði í málum nr. 53/2010, 322/2012, 93/2014 og 288/2014, en þau mál hafi öll varðað uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Einnig sé þetta í samræmi við ítrekaða túlkun á sambærilegum ákvæðum eldri reglugerðar nr. 752/2002, með síðari breytingum.

Tryggingastofnun ítreki því fyrri synjun sína.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til bifreiðakaupa er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir meðal annars svo:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Þá segir svo í 3. mgr. 10. gr. laganna:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum. Ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar fjallar um uppbót vegna kaupa á bifreið og ákvæði 4. gr. fjallar um styrki vegna kaupa á bifreið. Samhljóða ákvæði eru í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. þar sem segir að heimilt sé að veita uppbót/styrk ef uppfyllt er meðal annars skilyrði sem er svohljóðandi:

„Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.“

Ágreiningur málsins lýtur ekki að hreyfihömlun kæranda heldur að því hvort kærandi uppfylli fyrrgreind skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um að hún hafi sjálf ökuréttindi eða annar heimilismaður. Í umsókn kæranda er greint frá því að ökuskírteini hennar sé í gildi en hún geti ekki ekið sjálf. Úrskurðarnefndin telur að hugtakið ökuréttindi í skilningi framangreindra ákvæða verði ekki skilgreint svo þröngt að nægjanlegt sé að umsækjandi hafi gilt ökuskírteini heldur verði hann jafnframt eðli máls samkvæmt að vera fær um að keyra, sbr. 44. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt gögnum málsins þá hefur kærandi upplýst að hún keyri ekki sjálf og að tilgreindur ökumaður hennar sé ekki heimilismaður hennar. Ljóst er að kærandi uppfyllir þar af leiðandi hvorki skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 fyrir veitingu uppbótar vegna kaupa á bifreið né heldur samhljóða ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar um veitingu styrks vegna kaupa á bifreið. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur skilyrðið um að ökumaður sé heimilismaður sé málefnalegt, enda sé nauðsynlegt að tryggja að bifreiðin sé einungis nýtt í þágu bótaþegans. Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. apríl 2017 um að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um uppbót/styrk til bifreiðakaupa, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum