Hoppa yfir valmynd
3. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra tók á móti skýrslu um norrænt utanríkismálasamstarf

Frá vinstri: Auður Birna Stefánsdóttir og Pia Hansson, Alþjóðamálastofnun HÍ, Kristin Haugevik, frá NUPI, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ulf Svedrup, forstöðumaður NUPI  - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fékk í dag afhenta skýrslu norrænna alþjóðamálastofnana um framkvæmd tillagna Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum. Skýrslan markar tíu ára afmæli Stoltenberg-tillagnanna svonefndu frá árinu 2009 um aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði.

Síðasta haust lagði utanríkisráðherra til að alþjóðamálastofnanirnar, þ.m.t. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, til þess að meta hverjum af tillögunum var hrint í framkvæmd, í heild eða að hluta, og hvaða tillögur fengu ekki brautargengi.

Utanríkisráðherra tók í dag á móti skýrslu með niðurstöðum þeirrar greiningar fyrir hönd allra utanríkisráðherra Norðurlanda á viðburði í Safnahúsinu. Við þetta tækifæri undirstrikaði utanríkisráðherra hversu þýðingarmikið norrænt samstarf væri. Stoltenberg-skýrslan hefði á sínum tíma haft mikil áhrif og mat á stöðu tillagnanna nú væri bæði innlegg í umræðu um utanríkis- og öryggismál á Norðurlöndunum, en gæti einnig verið grunnur að ákvörðunum um enn frekara samstarf.

Guðlaugur Þór sagði engan hörgul á viðfangsefnum á alþjóðavettvangi, hvort sem litið væri til mannréttindamála, fríverslunar, eða loftslagsmála sem væru eitt allra stærsta mál alþjóðasamfélagsins í bráð og lengd. Í öllum þessum málum, og fleirum, hefðu Norðurlöndin mikilvæga rödd. „Norðurlöndin deila sömu grunngildum - lýðræði, virðingu fyrir alþjóðalögum, mannréttindum og jafnrétti fyrir alla. Við stöndum með þessum gildum, virðum þau og verjum. Þar liggur okkar styrkur, sem og í rótgróinni lýðræðislegri menningu sem gerir okkur kleift að ræða ólíkar leiðir að settu og sameiginlegu markmiði um friðsamleg og velmegandi samfélög, og stöðugleika og sjálfbærni í heiminum,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ræðu sinni

Ulf Sverdrup, forstöðumaður norsku alþjóðamálastofnunarinnar (NUPI), og Kristin Haugevik kynntu hina nýútkomnu skýrslu, og Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, afhenti utanríkisráðherra skýrsluna. 
Ísland gegnir í ár formennsku í samstarfi utanríkisráðherra Norðurlandanna.

Gert er ráð fyrir að norrænir utanríkisráðherrar komi saman til fundar á Íslandi í byrjun september nk og fjalli þar meðal annars um skýrsluna og möguleg næstu skref til enn frekari styrkingar samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála.

  • Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar HÍ, og Guðlaugur Þór Þórðarson með skýrsluna.  - mynd
  • Utanríkisráðherra tók á móti skýrslu um norrænt utanríkismálasamstarf - mynd úr myndasafni númer 2
  • Utanríkisráðherra tók á móti skýrslu um norrænt utanríkismálasamstarf - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum