Hoppa yfir valmynd
21. október 2020 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 13/2020 - Úrskurður

Mál nr. 13/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Matvælastofnun

 

Ráðning í starf. Hæfnismat. Jöfn meðferð á vinnumarkaði.

Karl kærði ákvörðun Matvælastofnunar um að ráða konu í starf sérfræðings við eftirlit við vinnslu matvæla. Kærandi byggði á því að honum hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna, en vék einnig lauslega að því í málatilbúnaði sínum að hér kynni einnig að vera um að ræða mismunun á grundvelli aldurs. Kærunefndin taldi að menntunar- og hæfniskröfur kærða vegna starfsins hefðu verið málefnalegar. Í úrskurði nefndarinnar var fjallað um mat kærða á kæranda og þeirri konu sem starfið hlaut. Var það niðurstaða nefndarinnar að óhaggað stæði það mat kærða að konan sem ráðin hefði verið í umrætt starf hefði staðið kæranda framar. Samkvæmt því hefðu ekki verið leiddar líkur að því að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns þegar ráðið var í starfið, sbr. 1. og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hið sama ætti þar með einnig við um það álitaefni hvort kæranda hefði verið mismunað á grundvelli aldurs, sbr. 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

 

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 21. október 2020 er tekið fyrir mál nr. 13/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 1. júlí 2020, kærði A ákvörðun Matvælastofnunar um að ráða konu í starf sérfræðings við eftirlit með vinnslu matvæla. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Matvælastofnun brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi víkur einnig lauslega að því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að mismunun á grundvelli aldurs kunni að vera hluti af skýringu þess að kærði ákvað að ráða konuna fremur en kæranda í umrætt starf.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum sem og viðbótarröksemdir sem bárust frá kæranda 5. júlí 2020 voru kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 7. júlí 2020. Viðbótarathugasemdir bárust frá kæranda, dagsettar 10., 13., 23. og 24. júlí 2020. Að beiðni kærða var frestur til þess að skila greinargerð framlengdur. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 17. ágúst 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 21. ágúst 2020.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 30. ágúst 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 2. september 2020. Með sama bréfi voru kærða kynntar athugasemdir sem bárust frá kæranda í júlí. Þá bárust nefndinni frekari athugasemdir frá kæranda með tölvubréfum 6., 10., 14., 17. og 18. september 2020 og voru þær kynntar kærða með tölvubréfi kærunefndar, dagsettu 23. september 2020. Að beiðni kærða var frestur til þess að skila athugasemdum framlengdur. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 30. september 2020, og voru þær sendar kæranda til kynningar með tölvubréfi kærunefndar 12. október 2020 og síðar bréfi, dagsettu 14. október 2020. Kærandi sendi kærunefndinni tölvubréf 12. og 13. október 2020. Með fyrrgreindu bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 14. október 2020, var kærandi upplýstur um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það með bréfi, dagsettu sama dag.

  MÁLAVEXTIR

 5. Kærði auglýsti laus til umsóknar tvö störf sérfræðings við eftirlit með vinnslu matvæla 30. apríl 2020. Í auglýsingunni kemur fram að leitað sé að jákvæðum og metnaðarfullum einstaklingum. Störfin séu án staðsetningar en allar starfsstöðvar kærða komi til greina sem starfsstöð. Um sé að ræða fullt starf og krefjist það talsverðra ferðalaga um landið. Helstu verkefni og ábyrgð voru talin: Eftirlit með fiskvinnslum og fiskiskipum; eftirlit með löndunaraðstöðu og aflameðferð; eftirlit með mjólkurvinnslum; eftirlit með kjötvinnslum; önnur tengd eftirlits- og sérfræðistörf. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirfarandi hæfniskröfur: Krafa um menntun í matvælafræði, dýralækningum, líffræði eða aðra menntun sem nýtist í starfi; þekking á HACCP aðferðafræðinni; haldbær þekking og reynsla af vinnu við vinnslu matvæla; reynsla af opinberu eftirliti er kostur; góð íslensku- og enskukunnátta; góð almenn tölvukunnátta; sjálfstæði, nákvæmni og skipulögð vinnubrögð; vilji/hæfni til að starfa í teymi; góð framkoma og lipurð í samskiptum; bílpróf er skilyrði. Í auglýsingunni var tekið fram að umsóknum skyldi fylgja prófskírteini, ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð væri grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir því hvernig umsækjandi uppfyllti hæfniskröfur. Umsóknir skyldi senda í tölvupósti á tiltekið netfang merkt „Eftirlit með matvælaframleiðslu“.
 6. Alls bárust 17 umsóknir um störfin. Ákveðið var að kalla fimm umsækjendur í starfsviðtöl að lokinni yfirferð á umsóknum og fylgigögnum þeirra. Kærandi var þar á meðal. Að þeim loknum var ákveðið að bjóða tveimur umsækjendanna, einum karlmanni og einni konu, störfin sem þau þáðu.
 7. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi kærða vegna ákvörðunar um ráðninguna. Með bréfi kærða, dagsettu 10. júní 2020, var rökstuðningurinn veittur. Að beiðni kæranda sendi kærði honum með bréfi, dagsettu 15. júní 2020, skráningar úr viðtölum við þá umsækjendur sem ráðnir voru sem og kæranda. Einnig var honum sendur matskvarði sem var fylltur út samkvæmt gögnum sem fylgdu umsóknum og því sem fram kom í viðtalinu sjálfu og afrit af þeim gögnum sem fylgdu umsóknum þeirra tveggja sem störfin fengu. Tekið var fram að ekki væri unnt að taka til greina gögn sem send voru eftir að ráðningarferli lauk.
 8. Í rökstuðningi kærða segir að við mat á hæfni umsækjenda hafi verið horft til þeirra þátta sem tilgreindir hafi verið sem hæfniskröfur í starfsauglýsingu. Alls hafi 17 sótt um þau tvö störf sem hafi verið í boði. Fimm þeirra umsækjenda sem hafi skorað hæst á mati sem byggt hafi verið á ofangreindum þáttum hafi verið boðaðir í viðtöl. Að teknu tilliti til þessa hafi þau sem störfin hafi hlotið verið hæst að stigum að viðtölum loknum og þeim boðin störfin.
 9. Við mat á umsóknum hafi verið fyllt inn í matsskjal sem byggt hafi verið á auglýsingu um starfið, en hæfniþáttunum hafi verið veitt vægi með stigagjöf, sbr. nánari umfjöllun í niðurstöðukafla hér á eftir.
 10. Karlkyns umsækjandinn sem hafi fengið starfið hafi lokið B.Sc. námi í matvælafræði. Hann hafi umtalsverða þekkingu á opinberu eftirliti, afar fjölbreytta reynslu af vinnu við vinnslu matvæla og talsverða hagnýta þekkingu á HACCP úr störfum sínum. Þá sé hann með afbragðs færni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku og tölvukunnátta hans sé mjög góð á því sviði sem nýtist stofnuninni. Hann hafi starfað sem stjórnandi og verið farsæll í stjórnun starfsfólks, hafi skipulagt starfsemi, tekið þátt í teymisvinnu og hafi afbragðs samskiptafærni.
 11. Kvenkyns umsækjandinn sem hafi fengið starfið sé með M.Sc. gráðu í matvælafræðum og hafi umtalsverða þekkingu og reynslu af vinnu við vinnslu matvæla, þar með talda umsjón gæðakerfa í fleiri en einu matvælafyrirtæki í framleiðslu á ólíkum tegundum matvæla. Hún hafi stýrt úttektum í fyrirtækjum, skipulagt gæðastarf og störf gæðaráðs, hafi haft umsjón með útdeilingu verkefna og skipulagt og tekið þátt í fjölbreyttri teymisvinnu. Hún hafi hagnýta þekkingu á HACCP, bæði úr námi og starfi. Hún hafi afbragðs færni til tjáningar í ræðu og riti á ensku og íslensku og störf hennar hafi krafist sjálfstæðis, nákvæmni og skipulegra vinnubragða. Þá hafi hún góða tölvukunnáttu.
 12. Allir þeir fimm umsækjendur sem hafi verið boðaðir í viðtal hafi uppfyllt vel hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu. Einungis tvö störf hafi verið í boði og því hafi þurft að velja á milli umsækjenda. Ákveðinn kvarði hafi verið notaður til þess eins og að framan er getið.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 13. Kærandi segir að hann og hinn karlkyns umsækjandinn sem fékk ráðningu hafi verið hæfastir til að gegna störfunum. Kærði hafi verið búinn að ákveða að kona fengi annað starfið og allt ráðningarferlið og starfsviðtölin hafi borið þess glöggt vitni. Þessi vinnubrögð séu óforsvaranleg og ákvæði laga nr. 10/2008 hafi ekki verið virt.
 14. Varðandi grunnmat á umsækjendum hafi það verið talið málefnalegt og forsvaranlegt að reynsla í opinberu eftirliti hefði sama vægi og þekking á HACCP aðferðafræðinni, eða haldbær reynsla af vinnu við vinnslu matvæla. Þá velti kærandi því upp hvaða rökstuðningur og málefnalegu forsendur hafi legið að baki þeirri ákvörðun að gefa honum lága einkunn fyrir huglægu matsþættina. Tilgangurinn og markmiðið hjá kærða hafi augljóslega verið að koma konunni sem ráðin hafi verið upp fyrir hann í heildarmatinu.
 15. Starfsmenn kærða hafi ekki viljað sætta sig við þá staðreynd að sú sem ráðin hafi verið uppfylli ekki þau skilyrði sem áskilin hafi verið varðandi haldbæra reynslu af vinnu við vinnslu matvæla. Því verði að álykta að hún hafi fengið gefins fjögur stig fyrir þann matslið, eða 15% af heildarvægi af þeirri einföldu ástæðu að hún sé kona.
 16. Kærandi hafi starfað frá 1. október 1981 til 1. febrúar 1985 sem deildarstjóri hjá Framleiðsluseftirliti sjávarafurða þar sem hann hafi stýrt afurðadeild og borið ábyrgð á því að útflutningur frosinna sjávarafurða stæðust strangar kröfur. Hann hafi haft mannaforráð og eitt af verkefnum hans verið að sjá um samræmingu á fiskmati fyrir allt landið. Sem deildarstjóri hafi hann útbúið gátlista til að auðvelda starf sitt við samræminguna og haldið námskeið fyrir fiskmatsmenn um land allt. Á þessum tíma hafi hann einnig aflað sér löggildingar sem fiskmatsmaður. Hann hafi fengið mjög góð meðmæli fyrir þessi störf sem hafi komið sér vel þegar hann hafi verið ráðinn sem heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
 17. Reynsla kæranda af störfum við fiskvinnslu og í sjávarútvegi hafi verið skilyrt krafa til þess að hann gæti fengið starf deildarstjóra hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða. Samanlögð reynsla hans við hin ýmsu störf í fiskvinnslu og við sjávarútveg sé á bilinu fjögur til fimm ár. Hann hafi því haldbæra reynslu af störfum við sjávarútveg og matvælaframleiðslu.
 18. Kærandi hafi starfað hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá 1. febrúar 1986 og þekki því matvælalöggjöfina vel og allt er viðkomi matvælaeftirliti. Einnig hafi hann mjög góða þekkingu á HACCP gæðakerfinu. Hann hafi haft heilbrigðisfulltrúaréttindi frá árinu 1986 og hafi mikla reynslu af eftirliti með fiskvinnslum og fiskiskipum og löndunaraðstöðu, gæði afla og aflameðferð. Sem heilbrigðisfulltrúi hafi hann einnig haft eftirlit með kjötvinnslum og mjólkurvinnslum.
 19. Kærandi hafi kennsluréttindi og mikla reynslu sem kennari sem ætti að vera töluverður akkur fyrir kærða þar sem eftirlitsmaður hafi ríka leiðbeiningarskyldu.
 20. Kærandi hafi verið boðaður til málamynda í eitt starfsviðtal hjá kærða 27. maí 2020. Hjálögð séu svör sem kærði hafi ritað eftir kæranda við spurningalista. Kærandi hafi ávallt vandað mál sitt og séu svörin í engu samræmi við málfar hans. Textinn sé á afar óvönduðu máli og um sé að ræða skrumskælingu á orðum hans og hálfsannleik. Markmiðið sé augljóst, þ.e. að gera hann ótrúverðugan sem umsækjanda. Rekur hann ýmis dæmi því til stuðnings.
 21. Varðandi grunnmat á umsækjendum hafi sú sem ráðin hafi verið unnið sem gæðastjóri í um fjögur ár en ekkert við opinbert eftirlit. Einu samskipti hennar við opinbera aðila hafi verið við heilbrigðiseftirlitið. Heilbrigðisfulltrúi komi einu sinni til tvisvar á ári í eftirlit og fari að hámarki einn vinnudagur í hvert skipti í samskipti við eftirlitið. Miðað við það sé ríflegt að álíta að hún hafi samanlagt haft samskipti við opinbert eftirlit í einn mánuð.
 22. Vegna matsþáttarins haldbær þekking og reynsla af vinnu við vinnslu matvæla sé tekið fram að sú sem starfið hafi hlotið hafi hvorki unnið við matvælaframleiðslu né sjávarútveg. Bæði kærandi og hinn karlkyns umsækjandinn sem ráðinn hafi verið hafi mikla þekkingu og reynslu af vinnu við vinnslu matvæla en það hafi verið skýr krafa. Þarna hafi henni verið gefin óverðskulduð stig. Hún hafi samtals fengið 30% af heildarmatinu fyrir það eitt að hafa unnið sem gæðastjóri. Hún hafi lengst af unnið hjá fyrirtæki þar sem aðallega fari fram pökkun á þurrvöru. Starf gæða- og vöruþróunarstjóra sé skrifstofustarf.
 23. Vegna matsþáttarins samstarfshæfni hafi kærandi tekið fram í starfsviðtalinu að hann eigi gott með að vinna í teymi, enda vanur því bæði hjá heilbrigðiseftirlitinu og ríkismatinu. Hann hafi bent á þrjá starfsmenn hjá kærða sem gætu borið því vitni. Einnig hafi hann tekið fram að hann hefði fengið góðan vitnisburð sem kennari frá forstöðumanni Námsflokka Reykjavíkur. Hann hafi einnig sagt að hann ætti gott með að vinna einn og taka erfiðar ákvarðanir, enda sé það stærsti hlutinn af vinnu eftirlitsmanns. Hann hafi ávallt verið fastur fyrir þegar þess hafi verið þörf og matvælaöryggi verið ógnað, en einnig gætt þess að virða ákvæði stjórnsýslulaga. Hann eigi að baki 37 ára farsælt starf sem eftirlitsmaður sem ætti að vera skýr vitnisburður um sannleiksgildi orða hans.
 24. Tölvukunnátta hafi aldrei verið vandamál hjá kæranda og hann sé fljótur að tileinka sér nýjungar. Fyrrum samstarfsmaður hans hjá heilbrigðiseftirlitinu, sem starfi nú hjá kærða, hafi sagt að það yrði ekkert mál fyrir hann að tileinka sé þau verkfæri sem notuð séu við eftirlit hjá kærða.
 25. Kærandi hafi einnig nefnt í viðtalinu að sem heilbrigðisfulltrúi væri hann þekktur fyrir nákvæm vinnubrögð. Hann hafi sagt að hann hefði mjög gott vald á íslensku og því til stuðnings vísað í ritgerð sem hann hafi fengið góðan vitnisburð fyrir. Hann hafi einnig skrifað þúsundir bréfa og eftirlitsskýrslna á langri starfsævi og aldrei fengið ámæli fyrir störf sín.
 26. Kærandi velti því upp hvernig kærði hafi getað komist að þeirri niðurstöðu og rökstutt að sú sem ráðin hafi verið hafi meiri færni en hann til tjáningar í ræðu og riti. Hann hafi einnig ágæta færni í ensku og geti nefnt að þegar hann hafi verið í námi í umhverfisheilsufræði árið 1989 í Gautaborg hafi hann skrifað ritgerð á ensku með góðum vitnisburði. Hann hafi í 37 ár, að undanskildum störfum við fiskvinnslu og sjávarútveg, verið að undirbúa sig fyrir þetta eftirlitsstarf hjá kærða og hafi einungis fengið 7,5% hærra vægi en sú sem ráðin hafi verið fyrir þennan matslið. Reynsluleysi hennar í opinberu eftirliti hafi fært henni tvö stig af fjórum mögulegum. Hún hafi einnig fengið fullt hús stiga, þrátt fyrir að hafa enga haldbæra reynslu af vinnu við vinnslu matvæla. Yrði hún einungis lækkuð um eitt stig fyrir annan hvorn þessara matsliða kæmist kærandi upp fyrir hana í heildarmati.
 27. Kærandi velti því upp hvernig kærði geti fullyrt að sú sem starfið hafi hlotið hafi meiri færni en hann í sjálfstæðum vinnubrögðum og hvernig það álit geti samrýmst starfsreynslu hans sem eftirlitsmaður og kennari. Yrði kærandi hækkaður upp í fjögur stig fyrir færni í ræðu og riti væri hann kominn upp fyrir hana í heildarmati. Bróðir kæranda hafi starfað sem eftirlitsmaður hjá kærða í rúmlega 20 ár. Hann hafi sagt að hann starfaði nánast eingöngu einn og skrifi allar eftirlitsskýrslur á íslensku. Í nokkur skipti hafi hann tekið á móti eftirlitsmönnum frá ESA. Kærandi hafi einnig gert það sem heilbrigðisfulltrúi og hafi það reynst lítið mál, enda sé hann fullfær um að tjá sig á enskri tungu.
 28. Niðurstaðan sé sú að það sé hafið yfir allan vafa að sú sem ráðin hafi verið hafi átt að fá starfið og allt ráðningarferlið tekið mið af því. Kærandi, sem karlmaður, hafi því enga raunhæfa möguleika átt á starfinu. Hér sé því um að ræða skýran ásetning af hálfu kærða að virða ekki ákvæði laga nr. 10/2008. Aldursfordómar gætu einnig hafa verið hluti af skýringunni af þessari ólögmætu stjórnsýsluaðgerð.
 29. Kærandi bæti því við að hann hafi í mörg skipti sem heilbrigðisfulltrúi tekið út HACCP gæðakerfi þar sem menntaðir gæðastjórar starfi og hafi ávallt þurft að koma ítrekað í úttekt áður en hægt hafi verið að samþykkja og votta gæðakerfið. Hann sé mjög nákvæmur og fylgi því stíft eftir að allar reglur kerfisins séu rétt útfærðar og að það þjóni sínum tilgangi. Það sé því ekki forsvaranlegt að starf gæðastjóra hafi getað fært þeirri sem ráðin hafi verið tæplega 40% af heildarmatinu. Einnig að vegna gæðastjórastarfsins hafi verið hægt að fullyrða yfirburði hennar í öllu þessu huglæga mati.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 30. Kærði segir að við ráðninguna hafi verið stuðst við matsblað og matsþættir verið byggðir á menntunar- og hæfniskröfum sem fram hafi komið í auglýsingu um störfin. Tilgangur starfsviðtalsins hafi verið sá að fá nánari upplýsingar frá umsækjendum þannig að betur væri hægt að leggja mat á þær upplýsingar sem þeir höfðu lagt fram með umsókninni um færni og þekkingu. Jafnframt að leggja mat á þá þætti sem séu huglægari og erfitt sé að festa hendur á með skriflegum gögnum einum. Í viðtölunum hafi verið fylgt sama spurningalista hjá öllum umsækjendum. Meðal þess sem spurningalistinn hafi átt að varpa ljósi á hafi verið þættir sem varði vilja og hæfni til að starfa í teymi, framkomu, lipurð í samskiptum, hæfni og kunnáttu í tölvumálum og tungumálum. Meðfylgjandi voru útfylltir spurningalistar fyrir þau þrjú sem nefnd eru til sögunnar í kæru kæranda, en þeir hafi verið hreinritaðir upp úr minnispunktum sem báðir spyrjendur hafi punktað hjá sér í viðtölunum og sé því samantekt á svörum umsækjenda.
 31. Ákvörðun kærða um ráðninguna hafi verið matskennd stjórnvaldsákvörðun og sem slík hafi hann haft ákveðið svigrúm til að ákveða hvaða sjónarmið skyldu lögð til grundvallar og hvernig umsækjendur uppfylltu þessi sjónarmið. Ráðningaraðili hafi þannig ákveðið svigrúm til að ákvarða innbyrðis vægi matsþátta að því gefnu að málefnaleg sjónarmið liggi þar að baki. Sem og að ákvæði stjórnsýslulaga séu uppfyllt, þar með talin rannsóknarreglan, þannig að kærði hafi tryggt með yfirferð á gögnum málsins og starfsviðtali að afla nauðsynlegra upplýsinga til að hægt væri að ákvarða um hæfni umsækjenda.
 32. Með ráðningunni hafi kærði aflað upplýsinga til þess að taka ákvörðun um ráðninguna og hafi þær forsendur sem notaðar hafi verið til að raða umsækjendum verið málefnalegar og ekki sé tilefni til endurskoðunar, hvorki hvað varði vægi hvers og eins matsþáttar né stigagjöf einstakra umsækjenda.
 33. Við mat á hæfni einstakra umsækjenda hafi kærði notast við þau gögn sem umsækjendur lögðu fram með umsóknum sínum, þar með talin viðbótargögn sem bárust eftir ábendingu kærða, sem og upplýsingar sem fengust í gegnum starfsviðtöl. Í auglýsingu kærða hafi verið kveðið á um að umsókn skyldi fylgja prófskírteini, ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð væri grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir því hvernig umsækjandi uppfyllti hæfniskröfur.
 34. Kærandi hafi sent tölvupóst 4. maí 2020 með umsókn um starfið. Þar hafi hann greint frá starfsreynslu sinni, þ.e. að hann hefði unnið sem deildarstjóri hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða frá árinu 1981 til 1985 og frá 1986 hefði hann starfað sem heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Jafnframt hafi hann upplýst að hann þekkti vel regluverkið á þessu sviði og að hann hefði umtalsverða reynslu við störf í sjávarútvegi sem og kennsluréttindi og góða færni í ensku og dönsku.
 35. Kærði hafi upplýst kæranda að leggja skyldi fram prófskírteini, ítarlega ferilskrá og kynningarbréf, sbr. auglýsingu stofnunarinnar. Af þessum sökum hafi kærandi sent tölvubréf 6., 9., 10. og 23. maí 2020 þar sem fram hafi komið viðbótarupplýsingar ásamt fylgigögnum, þ.e. prófskírteini og starfslýsing hans hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Sú sem hafi fengið starfið hafi lagt fram umsókn um starfið með öllum fylgigögnum 6. maí 2020.
 36. Ljóst sé að kærandi hafi staðið nokkru framar þeirri sem ráðin hafi verið hvað varði reynslu af opinberu eftirliti. Aftur á móti hafi kærði ekki gert mun á hæfni þeirra varðandi menntun og þekkingu og reynslu af matvælaframleiðslu/sjávarútvegi eða þekkingu á gæðakerfum, löggjöf og HACCP.
 37. Ef til vill hefði kærði átt að meta menntun þeirrar sem ráðin hafi verið til fleiri stiga þar sem hún sé með B.Sc. gráðu í næringarfræði og M.Sc. gráðu í matvælafræði, en kærandi B.Sc. gráðu í matvælafræði og hafi lagt fram vottorð um grunndiplóma í námi til kennsluréttinda (fyrir faggreinakennara) alls 30 ECTS einingar. Viðbótarmenntun hennar uppfylli því skilyrði um viðbótarmenntun sem nýtist í starfi. Aftur á móti hafi ekki verið gerður greinarmunur á milli umsækjenda varðandi þennan matsþátt.
 38. Í auglýsingunni hafi komið fram að reynsla af opinberu eftirliti væri kostur. Þrátt fyrir þann augljósa kost að ráða starfsmann sem hefði þegar reynslu af opinberu eftirliti hafi kærði ekki viljað útiloka aðra umsækjendur og gera þetta að skilyrði, enda ljóst að aðilar sem hafi unnið í matvælafyrirtækjum hafi sætt eftirliti og þekki frá öðru sjónarhorni þær kröfur sem gerðar séu til matvælafyrirtækja og hvernig eftirlitsferlið gangi fyrir sig varðandi úttektir, eftirfylgni og úrbætur. Þrátt fyrir að sú sem ráðin hafi verið hafi ekki starfað við opinbert eftirlit hafi hún reynslu úr störfum sínum í matvælafyrirtækjum af samskiptum við opinbera eftirlitsaðila. Kærandi hafi mikla reynslu af opinberu eftirliti með matvælafyrirtækjum og hafi starfað sem heilbrigðisfulltrúi frá árinu 1986 þar til hann hafi nýlega látið af stöfum. Hann hafi notið framangreinds við mat á umsækjendum og því hafi verið gerður greinarmunur á þessum matsþætti honum í vil.
 39. Bæði hafi þau haft góða þekkingu og starfsreynslu við matvælaframleiðslu/sjávarútveg og góða þekkingu á gæðakerfum og þeirri löggjöf sem matvælaframleiðendur þurfi að starfa eftir. Sú sem ráðin hafi verið hafi starfsreynslu frá síðastliðnum fimm árum í matvælageiranum sem gæðastjóri í fjölbreyttri matvælaframleiðslu, þ.e. sjávarútvegi, vinnslu á niðursoðnum matvælum og almennri matvælavinnslu eins og fram hafi komið í ferilskrá hennar. Þá hafi hún þekkingu á BRC sem sé alþjóðlegur staðall við matvælaframleiðslu, hún hafi sett upp gæðakerfi og starfað sem gæðastjóri þar sem bæði hafi verið notast við HACCP og BCR. Kærandi hafi sömuleiðis starfsreynslu við vinnslu matvæla þótt lengra sé síðan og hafi þekkingu á gæðakerfum, HACCP og löggjöf í gegnum störf sín við matvælavinnslu og hjá eftirlitsaðilum. Ekki hafi verið talið tilefni til að gera upp á milli þeirra varðandi þessa matsþætti, enda hafi bæði uppfyllt þær kröfur sem gerðar hafi verið til að fá hæstu einkunn.
 40. Um aðra matsþætti hafi það verið mat kærða að sú sem ráðin hafi verið uppfyllti betur kröfur varðandi tölvukunnáttu og færni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku. Það mat hafi ráðist af umsóknarferlinu, þ.e. af framsetningu gagna í umsóknum og upplýsingum sem fram hafi komið í viðtölum. Þannig hafi komið fram að nám þeirrar sem starfið hafi hlotið í matvælafræði hefði farið fram á ensku. Þá hafi það verið mat kærða að kærandi hefði í starfsviðtali sínu ekki sýnt fram á sömu færni og sú sem ráðin hafi verið til að tjá sig með skýrum og skilvirkum hætti og svara spurningum þeim sem fyrir þau hafi verið lögð. Það hafi því verið mat kærða að umsókn þeirrar sem ráðin hafi verið og svör hennar í starfsviðtali hefðu verið betur sett fram og bæru vitni um að hún stæði kæranda framar hvað þennan þátt hafi varðað. Þannig hafi heildaráhrif þeirra sem hafi tekið starfsviðtalið við kæranda verið þau að hann hafi ekki hlustað vel á spurningar, hann hafi verið óöruggur og talað mikið, leiðst auðveldlega út af sporinu og átt erfitt með að koma máli sínu skilmerkilega til skila. Í þó nokkrum tilvikum hafi hann ekki svarað spurningum sem fyrir hann hafi verið lagðar heldur farið að tala um fólk sem hann hafi nafngreint og þannig leiðst út af sporinu. Þá sé rétt að nefna að skriflegar upplýsingar um færni kæranda í ensku hafi ekki borist fyrr en eftir að ákvörðun um ráðninguna hafi verið tekin. Hafi sú sem ráðin hafi verið því verið talin uppfylla það skilyrði að hafa mjög gott vald á íslensku, bæði ritaðri og talaðri, sem og gott vald á ensku, þar með talið ritun texta. Hafi hún því verið talin standa kæranda framar hvað þennan matsþátt hafi varðað.
 41. Það hafi jafnframt verið mat kærða að sú sem ráðin hafi verið hafi staðið kæranda framar hvað varði tölvufærni þar sem þekking hennar á Office-forritum hafi verið meiri og víðtækari. Hún hafi upplýst í umsókn sinni að hún hefði mjög góða færni í ákveðnum kerfum Office-pakkans, auk annarra forrita. Þetta hafi hún staðfest í viðtalinu. Á meðan kærandi hafi talist hafa nokkra þekkingu og leikni í notkun helstu Office-forrita, eins og hann hafi sjálfur greint frá í viðtali, hafi sú sem ráðin hafi verið góða almenna tölvukunnáttu og leikni í helstu Office-forritum. Hafi hún því verið talin standa kæranda framar hvað þennan matsþátt hafi varðað.
 42. Kærði hafi í kjölfar stefnumótunar um teymisvinnu lagt mikla áherslu á teymisvinnu meðal starfsmanna sinna og því hafi sérstaklega verið gerð sú krafa í auglýsingu að umsækjendur þyrftu að hafa bæði vilja og hæfni til að starfa í teymi.
 43. Við mat á samstarfshæfni, teymisvinnu og lipurð í samskiptum hafi fyrst og fremst verið horft til gagna sem hafi fylgt umsóknum, reynslu umsækjenda, hvernig þeir hafi komið upplýsingum þessa efnis fram í starfsviðtali sem og hvernig þeir hafi staðið sig að mati kærða í viðtalinu. Í viðtali við kæranda hafi komið fram að hann hefði hætt störfum hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna ósættis við yfirmann sinn og að það henti honum betur að vinna einn. Í viðtalinu hafi hann upplýst að hann „vildi ekki láta anda ofan í hálsmálið á sér“ og að hann vilji hafa kerfi til að geta varist gagnrýni yfirmanna. Þá hafi kærandi ekki getað nefnt nein dæmi um teymisvinnu á meðan sú sem ráðin hafi verið hafi umtalsverða reynslu og þekkingu á teymisvinnu, bæði í störfum sínum sem gæðastjóri og sem fyrirliði handboltaliðs. Kærandi hafi sagt frá samstarfi sínu við ýmsa aðila sem hann hafi nafngreint, en ekki getað útskýrt hvernig þeir hefðu unnið sem teymi. Þegar kærandi hafi verið beðinn um að segja frá verkefni sem hann hefði borið ábyrgð á að stýra, hafi hann tiltekið rannsókn á salmonellu í rjómabollum og sagt frá því hvernig hann hefði leyst það verkefni, en ekkert um það hvernig hann hefði stýrt því. Sú sem ráðin hafi verið hafi á hinn bóginn lýst starfi gæðaráðs, ýmsum úttektum, hvernig hún hafi útdeilt verkefnum þar að lútandi og fylgt þeim eftir. Hafi hún því verið talin standa framar hvað þennan matsþátt hafi varðað.
 44. Þegar sjálfstæði, nákvæmni og skipulögð vinnubrögð hafi verið metin hafi meðal annars umsóknir og framsetning þeirra verið metnar og svo svör umsækjenda við spurningum í viðtalinu. Ljóst sé að umsækjendur höfðu unnið sjálfstætt og ekki væri tilefni til að gera upp á milli þeirra hvað þennan þátt hafi varðað. Hvað hafi varðað nákvæmni og skipulögð vinnubrögð hafi báðir aðilar verið taldir uppfylla það skilyrði. Aftur á móti hafi sú sem starfið hafi hlotið verið talin standa lítillega framar og hafi þar verið horft til framsetningar umsóknargagna og hvernig þau hafi verið lögð fram og borist kærða sem og viðtal við umsækjendurna. Umsóknin hafi verið vel úr garði gerð hjá þeirri sem ráðin hafi verið og hún nálgast viðtalið með öðrum hætti en kærandi sem hafi leiðst út af sporinu við svörun spurninga. Þá hafi einnig verið litið til þess að kærandi hafi ekki lagt fram umbeðin gögn með umsókn sinni í upphafi og lagt fram viðbótarupplýsingar í þrjú skipti eftir að upphafleg ófullnægjandi umsókn hafði verið send.
 45. Að loknum viðtölunum hafi sú sem ráðin hafi verið og annar karlkyns umsækjandi verið efst að stigum. Annar umsækjandi, karlkyns, hafi staðið kæranda jafnfætis að loknum viðtölum.
 46. Kærandi sé ósáttur við að sú sem ráðin hafi verið hafi fengið fleiri stig en hann og telji að kynferði hafi þar ráðið för. Kærði mótmæli því að kynferði hafi haft nokkuð með ákvörðunina að gera sem og að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för við ráðninguna. Þar sem sú sem ráðin hafi verið hafi reynst hæfari hafi önnur sjónarmið ekki þurft að koma til álita, svo sem að einungis eitt og hálft stöðugildi hafi verið mannað af konum meðal þeirra sex eftirlitsmanna með vinnslu matvæla sem hafi starfað á sviði neytendaverndar og fiskeldis við ráðninguna.
 47. Kærði hafi ekki leitað umsagna í ferlinu og það hafi ekki komið inn í matið. Kærandi vísi í kæru sinni til þess að ekki hafi verið tekið tillit til gagna sem hann hafi lagt fram, svo sem meðmælabréfs, dagsett 19. maí 2004, og lýðheilsuritgerðar. Kærandi hafi ekki lagt þau gögn fram fyrr en eftir að ákvörðun hafði verið tekin og tilkynnt öllum umsækjendum. Þá sé hafnað fullyrðingu kæranda um að hann hafi vísað í meðmælendur úr hópi starfsmanna kærða í starfsviðtalinu. Ekki verði séð að kærandi hafi borið halla af ákvörðun kærða um að leita ekki til umsagnaraðila, enda hafi hann ekki bent á umsagnaraðila.
 48. Gögn allra þeirra fimm umsækjenda sem hafi verið boðaðir í viðtal hafi gefið til kynna að viðkomandi uppfyllti þær kröfur sem starfið feli í sér. Það hafi því ekki verið niðurstaða kærða að kærandi hafi verið óhæfur til að sinna starfinu, eins og skilja megi af kæru hans, heldur hafi niðurstaðan verið sú að tveir aðrir umsækjendur hafi verið hæfari en hann samkvæmt hæfniskröfum sem hafi komið fram í starfsauglýsingu og að teknu tilliti til gagna sem hafi fylgt umsókn, auk viðtals.

   

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 49. Kærandi mótmælir að öllu leyti afstöðu kærða. Ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin sem og ákvæði stjórnsýslulaga varðandi sanngjarna málsmeðferð.
 50. Kærði beri fyrir sig þau rök að kærandi sé veikgeðja og úti á þekju og hafi ýjað að því að hann væri ófær um að sinna starfinu. Þá gefi hann í skyn að sú sem ráðin hafi verið hafi mikla andlega yfirburði fram yfir hann. Í krafti valdsins hafi kærði því rökstutt ráðningu konu í starfið og stuðst við gildishlaðnar fullyrðingar um andlegt atgervi kæranda sem sé hvorki í samræmi við raunveruleikann né starfsviðtalið.
 51. Með vísan til lýsinga kærða um starfsviðtal kæranda þá sé það ógjörningur fyrir hann að svara þeim ásökunum sem þar komi fram. Um sé að ræða samantekin ráð og persónulegar árásir sem standist enga skoðun, enda eina vörn kærða í málinu og skýrt dæmi um forkastanleg vinnubrögð. Kærandi hafi mikla starfsreynslu og hafi oft lent í erfiðri stöðu og hvorki látið bilbug á sér finna né skort rök til þess að standa fyrir máli sínu. Rök kærða um að kærandi hafi farið á taugum og röflað út í loftið sé fyrirsláttur og yfirklór sem sé vísað til föðurhúsanna.
 52. Kærandi hafi ávallt sinnt endurmenntunarskyldu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 571/2002 um menntun og skyldur heilbrigðisfulltrúa. Hann hafi jafnframt tekið fram í viðtalinu að hann hafi farið á ótalmörg námskeið, bæði hérlendis og erlendis, meðal annars á vegum Evrópusambandsins, til að viðhalda sérhæfðri þekkingu í eftirlitinu. Hann hafi minnst á námskeið varðandi lög og reglur um innra eftirlit og HACCP og fleira en of langt mál væri að greina frá því öllu. Kærandi vísi til 2. gr. reglugerðar nr. 571/2020 og 6. töluliðar 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.
 53. Með hliðsjón af upptalningu á helstu verkefnum og ábyrgð í starfsauglýsingunni hafi kærandi upplýst að hann hafi verið deildarstjóri afurðadeildar Framleiðslueftirlits sjávarafurða frá október 1981 til janúar 1985 og heilbrigðisfulltrúi frá 1986 þar sem hann sé nýhættur. Hann hafi upplýst að hjá framleiðslueftirlitinu hafi hann haft mannaforráð og stýrt verkefnum, eins og samræmingu á fiskmati og hannað gátlista til að auðvelda það. Einnig hafi hann bent á, með starfslýsingu sem hann hafi lagt fram hjá kærða, að hann hafi tekið þátt í vinnuhópum (teymisvinnu) Hollustuverndar ríkisins, sem sé nú kærði, og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Einnig hafi hann upplýst um yfirgripsmikla þekkingu á matvælalöggjöfinni og öllu sem viðkomi matvælaeftirliti. Þá hafi hann upplýst um yfirgripsmikla reynslu í eftirliti á öllum þeim eftirlitsflokkum sem hafi verið taldir upp í auglýsingunni. Það eina sem hann hafi sagst vera reynslulaus í væri að sækja um starf og að hann vonaðist til þess að væru einhverjir hnökrar á umsókn hans yrði það ekki talið honum til hnjóðs og hafi hann óskað eftir leiðbeiningum, væri talin þörf á ítarlegri og gagnbetri upplýsingum.
 54. Kærandi byggir á því að meistaraverkefni þeirrar konu sem starfið hlaut hafi ekki getað veitt henni aukið vægi í þeim matsþætti. Aftur á móti hafi kærandi kennsluréttindi en leiðbeiningarskylda sé stór þáttur í starfinu og því ætti þessi viðbótarmenntun og mikla reynsla hans sem kennari að nýtast í starfinu.
 55. Sú sem ráðin hafi verið hafi enga reynslu af opinberu eftirliti. Kærandi hafi rökstutt það með óyggjandi hætti með gögnum þar sem fram hafi komið ítarlegar upplýsingar um allt það opinbera eftirlit sem hún hafi verið viðstödd sem gæðastjóri. Þar hafi verið sýnt fram á að hún hafi aðeins þurft að þola opinbert eftirlit kærða og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í sex skipti, eða samtals í um 25 klukkustundir. Þannig verði að telja það ríflegt að álíta að hún hafi sex daga reynslu af opinberu eftirliti.
 56. Fullyrt sé að engin samskipti hafi verið við eftirlitsaðila á milli eftirlitsferða, bæði hjá heilbrigðiseftirlitinu og kærða. Rútínan hafi bara haldið áfram þar til næsta eftirlit hafi átt sér stað. Einnig geti hann fullyrt að bróðir hans, sem starfi sem eftirlitsmaður hjá kærða, hafi ekki haft samband við konuna sem ráðin hafi verið á milli eftirlitsferða hjá tiltekinni niðursuðuverksmiðju. Hann hafi ekki munað eftir nafni hennar þegar kærandi hafi spurt hann um viðkomandi einstakling. Hún hafi aðeins í eitt skipti verið viðstödd opinbert eftirlit í C. Með vísan í grunnmat á umsækjendum komi skýrt fram í matsþættinum reynsla af opinberu eftirliti að gefið hafi verið eitt stig fyrir takmarkaða þekkingu, þar á meðal samskipti við opinbert eftirlit. Sú sem ráðin hafi verið komist ekki nálægt því að hafa haft samskipti við opinbert eftirlit í eitt ár og hefði því ekki átt að fá stig fyrir þennan matsþátt, hefði verið farið eftir þeim viðmiðum sem kærði hafi stuðst við. Í rökstuðningi kærða sé gefið í skyn að vinna í matvælafyrirtæki og það að hafa sætt opinberu eftirliti sé jafngild reynsla og að vera opinber eftirlitsmaður. Samkvæmt þeim rökum ætti fjöldinn allur af eftirlitsþegum kæranda að vera kominn með mikla reynslu og yfirgripsmikla þekkingu í opinberu eftirliti. Þetta sé rökleysa og yfirklór.
 57. Í starfsauglýsingunni hafi verið tilgreind haldbær þekking og reynsla af vinnu við vinnslu matvæla. Sú sem ráðin hafi verið hafi hvorki hagnýta né haldbæra starfsreynslu við matvælaframleiðslu/sjávarútveg. Hún hafi að því er virðist starfað afar lítið hjá C sem gæðastjóri og aðeins í eitt skipti verið viðstödd opinbert eftirlit kærða.
 58. Þá fullyrði kærandi að sú sem ráðin hafi verið hafi aldrei fengið slor á hendurnar eða fiskilykt í fötin sín, enda hafi hún enga haldbæra reynslu af störfum við fiskvinnslu eða fiskveiðar. Samkvæmt kynningarbréfi hennar hafi hún að eigin sögn starfað árið 2015 sem gæðastjóri hjá fyrrnefndu fyrirtæki.
 59. Starf hennar sem gæðastjóri hjá D hafi staðið frá 2016-2019, að sögn. Hún hafi sagt að hún hefði starfað þar sem gæðastjóri, en það hafi ekki fært henni haldbæra reynslu af matvælavinnslu. Fyrir það fyrsta sé starf gæðastjóra skrifstofustarf sem veiti enga haldbæra reynslu við matvælaframleiðsu. Auk þess fari þar einungis fram pökkun á þurrvöru sem tæpast sé hægt að kalla matvælaframleiðslu. Hún hafi aðeins í tvö skipti verið viðstödd reglubundið eftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í þessu starfi, dagana 18. október 2016 og 24. október 2018.
 60. Það sé kæranda algjör ráðgáta hvernig kærði hafi getað rökstutt þessa reynslu sem hagnýta við matvælavinnslu, hvað þá fyrir þau eftirlitsstörf sem greint hafi verið frá í umsókninni. Ekki sé unnt að öðlast hagnýta reynslu nema með því að vinna með eigin höndum við þessi störf.
 61. Vegna matsþáttarins þekking af matvælaframleiðslu/sjávarútvegi og reynsla hafi komið fram að viðmiðin væru eitt stig fyrir innan við eins árs reynslu af störfum við sjávarútveg/matvælaframleiðslu. Það sé því mjög ríflegt að gefa konunni sem ráðin hafi verið eitt stig hefði kærði farið eftir þeim viðmiðum sem stuðst hafi verið við í grunnmatinu.
 62. Með þessu hafi kærði ítrekað gefið henni fjögur stig fyrir þann eina verðleika að vera kona eða samanlagt 30% af heildarvægi. Kærandi hafi unnið í fjögur til fimm ár við fiskvinnslu og sjávarútveg. Þegar hann hafi verið ráðinn sem deildarstjóri hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða hafi það verið grundvallarskilyrði að hann hefði hagnýta reynslu af vinnu við vinnslu við fiskvinnslu og fiskveiðar. Hann hafi getað sýnt fram á reynslu við sjávarútveg og fiskveiðar og einnig að hafa unnið hin ýmsu störf við fiskvinnslu. Hann hafi til dæmis fengið handskrifuð meðmæli frá yfirverkstjóra fiskvinnslu, E, en þar hafi einnig verið bent á að hann væri frambærilegur handflakari og flatningsmaður. Stærsti þorskurinn hafi ávallt verið handflattur og einnig hafi hann þekkt öll handtökin, bæði við saltfiskvinnslu og almenna fiskvinnslu.
 63. Matsþátturinn samstarfshæfni, teymisvinna og lipurð í mannlegum samskiptum hafi verið einn af þessum huglægu matsþáttum þar sem órökstuddar geðþóttaákvarðanir hafi verið allsráðandi. Ljóst sé að heimatilbúnir minnispunktar kærða, auk viðhorfs og framgöngu í starfsviðtalinu, hafi verið skýr ásetningur um að gera kæranda ótrúverðugan til þess að ná því markmiði hans að ráða konu í starfið.
 64. Nýleg starfslok kæranda hjá heilbrigðiseftirlitinu hafi hann rökstutt þannig að sjónarmið hans hefðu fengið lítil viðbrögð. Hann hafi haft ýmsar hugmyndir um bætt skipulag og skýrari verkferla sem hafi ekki átt upp á pallborðið hjá yfirmönnum. Því hafi verið orðið tímabært að hætta í starfinu og leita á önnur mið, enda starfstíminn orðinn langur og tímabært að skipta um starf.
 65. Kærandi sé orðlaus yfir minnispunktum kærða vegna spurningar í starfsviðtalinu um „rjómabollumálið“ þar sem þeir lýsi mikilli vanþekkingu á eftirliti og teymisvinnu. Kærandi hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar frá sýkladeild Landspítalans og notað þær með aðferðafæði faraldsfræðinnar til að greina uppruna sýkingar. Þetta hafi leitt til þess að sýni hafi verið tekið úr hrærivél og þar með staðfest uppruna sýkingar. Hér hafi verið um að ræða frábæra samvinnu og verkaskiptingu þar sem kærandi hafi borið ábyrgð á þeim hluta er sneri að heilbrigðiseftirliti. Vegna þessa hafi aðilar málsins og tryggingafélög talið öll málaferli gagnslaus, enda búið að greina uppruna sýkingarinnar þar sem nákvæmlega þessi undirtegund af salmonellu, sem hafi greinst í hrærivélinni, hafði greinst í sjúklingum. Þetta hafi verið eins og fingrafar við sakamálarannsókn. Einnig varðandi minnispunkta kærða þá hafi kærandi bent á teymisvinnu hans hjá heilbrigðiseftirlitinu og framleiðslueftirlitinu þar sem hann hafi séð um samræmingu á fiskmati fyrir allt landið. Þetta hafi ekki verið tilgreint í minnispunktunum þar sem það hefði ef til vill orðið honum til góðs.
 66. Starfsmenn kærða sem tóku starfsviðtalið hafi ekki sýnt neinn áhuga í viðtalinu og það virst óþarft þar sem búið hafi verið að ákveða að kona fengi starfið.
 67. Mat kærða um að kærandi hafi ekki hlustað á spurningar og leiðst auðveldlega út af sporinu í viðtalinu, hafi verið óöruggur og átt erfitt með að koma máli sínu til skila sé þvæla og persónulegar árásir sem hafi þann eina tilgang að koma persónulegu óorði á hann og réttlæta ólögmæta ráðningu.
 68. Í rituðu svari kæranda við spurningu 8 í minnispunktum kærða skilji hann ekki orð af því sem þar segi, enda tómur þvættingur og heilaspuni. Sé litið á það sem ritað hafi verið um svar kæranda við spurningu 11 segi: „Skipulag. Að vita nákvæmlega hver verkefnin eru og ekki sé andað ofan í hálsmálið á honum“. Þetta sé dæmi um það hvernig farið hafi verið út af sporinu við skráningu minnispunktanna. Um svar við spurningu 6 hafi verið ritað: „Á gott með að vinna einn, en líka í teymi. Teymi OK til að leysa markmið“. Kærandi velti því upp hvað þetta þýði. Um svar við spurningu 8 hafi verið ritað: „ Fínt að vinna með honum. Hann og F hlógu mikið. Kátur ef hann líkar vel við fólk. Vill vita sín verkefni“. Þetta sé spuni. Um spurningu 7 hafi verið ritað: „Eins og þarf. Lærir það sem hann þarf að vinna með. Word ekkert mál“ og um spurningu 13: „Á það til að vera meðvirkur ef einhver á bágt, t.d konur sem sem fara að gráta“. Þetta sé sundurslitið og skrumskæling, enda ljóst að ítrekað hafi verið farið út af sporinu við skráningu minnispunktanna. Skráning um spurningu 12 hafi síðan tekið steininn úr: „Vill þróun til að hlutirnir verði léttari og skilvirk verkfæri“. Kærandi hafi minnst á skilvirka verkferla en sannleikurinn sé sá að þær sem hafi tekið viðtölin hafi verið algjörlega úti á þekju í viðtalinu og séu þessir minnispunktar skýr sönnun þess. Í svari kærða hafi þeirri sem starfið hafi hlotið verið hampað og gert hátt undir höfði.
 69. Etirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dagsett 24. október 2018, afhjúpi að sú kona sem starfið hlaut hafi ekki verið starfi sínu vaxin.
 70. Í starfsviðtalinu hafi einnig komið fram upplýsingar um kennslureynslu kæranda og að hann hafi fengið meðmælabréf frá tiltekinni konu. Kærandi hafi einnig bent á þrjá starfsmenn sem hann hafði starfað með hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, og sem starfi nú hjá kærða, sem gætu gefið honum bestu meðmæli varðandi matsþáttinn samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum. Önnur þeirra sem hafi tekið viðtalið hafi unnið í tæp 30 ár hjá kærða og vitað allt um þessa meðmælendur og gott samstarf þeirra við kæranda. Kærandi hafi rætt við þá alla þrjá og kærði hafi ekki haft samband þá en það hefði verið auðvelt fyrir hann með því að tala við þá beint eða senda tölvupóst.
 71. Varðandi matsþáttinn sjálfstæði, nákvæmni og skipulögð vinnubrögð hafi kærandi sagt í viðtalinu að hann væri sem heilbrigðisfulltrúi þekktur fyrir nákvæm vinnubrögð. Því til sönnunar vísi hann í bréf sitt um hljóðvist. Hljóðvist sé ekki sérgrein hans en hann hafi oft verið beðinn um að taka að sér erfið og krefjandi verkefni þar sem hann sé fljótur að tileinka sér nýja tækni. Hann geti rökstutt hæfni sína í sjálfstæðum vinnubrögðum með til dæmis langri starfsreynslu sem eftirlitsmaður og kennari. Hann hafi alltaf óskað eftir því að vinna eftir skýrum verkferlum, enda sé hann skipulagður starfsmaður sem hafi ávallt uppfyllt allar kröfur og náð að framfylgja eftirlitsáætlun hvers árs. Í spurningu 5 hafi hann sagt að mikill styrkur væri fyrir heilbrigðisfulltrúa að vinna eftir skýru skipulagi og starfsáætlun. Hann hafi sagt að fagleg stjórnun, skipulögð vinnubrögð og skýr markmið væru að hans mati forsenda fyrir því að starfsmönnum liði vel í starfi og tryggi um leið fagleg vinnubrögð. Einnig væri það nauðsynlegt fyrir starfsmenn til að geta sýnt fram á að uppfylltar hafi verið kröfur í starfinu í samræmi við sett markmið.
 72. Ekki sé efast um að sú sem ráðin hafi verið hafi að einhverju leyti meiri færni en kærandi varðandi tölvukunnáttu.
 73. Kærandi geri ekki neina athugasemd við matsþáttinn þekking á gæðakerfum, löggjöf og HACCP þótt hann þekki alla löggjöf mun betur en sú sem ráðin hafi verið. Kærandi hafi hringt í mannauðsstjórann og spurt hvað hefði lækkað hann svona mikið í mati. Hún hafi sagt að hann hefði fengið lága einkunn fyrir HACCP. Kærandi hafi spurt hvernig hún hefði komist að þeirri niðurstöðu og hvernig hún ætlaði að rökstyðja hana. Hann hafi síðar verið hækkaður í þessum lið, en þá hafi þurft að lækka hann í einhverjum öðrum matsþætti, ef til vill í ræðu og riti.
 74. Vegna matsþáttarins færni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku hafi kærandi upplýst í starfsviðtalinu að hann hefði skrifað ritgerð um lýðheilsu og fengið góðan vitnisburð fyrir. Einnig ritgerð á ensku í námi hans í umhverfisheilsufræði. Þær sem hafi tekið viðtalið hafi ekki heyrt það eða kannski ekki þóst heyra það, enda hafi þær verið áhugalausar. Sem matvælafræðingur hafi kærandi lesið kennslubækur á ensku og hafi án alls vafa ágætan skilning á enskri tungu. Enginn efist um ágæta enskukunnáttu hans nema þær sem hafi tekið viðtölin. Kærandi hafi skrifað þúsundir bréfa og eftirlitsskýrslna og aldrei fengið ámæli fyrir ritstörf sín.
 75. Kærandi hafi aflað sér mikillar menntunar og sérþekkingar á sviði matvælaeftirlits, bæði með menntun og allri þeirri endurmenntun sem hann hafi aflað sér á langri starfsævi í opinberu matvælaeftirliti. Hann þekki alla matvælalöggjöfina út og inn og hafi mikla reynslu varðandi alla framkvæmd á eftirliti og þekki vel öll ákvæði stjórnsýslulaga.
 76. Í starfi kæranda hafi hann ítrekað þurft að stöðva rekstur matvælafyrirtækja eða takmarka hann þegar matvælaöryggi hafi verið ógnað þar sem starf heilbrigðisfulltrúa sé fyrst og fremst neytendavernd. Kærandi hafi ávallt gætt þess að ákvæði stjórnsýslulaga séu virt, enda aldrei fengið ámæli fyrir störf sín. Hjá framleiðslueftirlitinu hafi ítrekað reynt á hann þar sem hann hafi oft þurft að taka stórar ákvarðanir sem deildarstjóri um frádæmingar á frosnum fiski sem hafi ekki staðist strangar gæðakröfur.
 77. Þrátt fyrir að kærandi eigi gott með að vinna einn, sem sé langstærsti hlutinn af vinnu eftirlitsmanns, hafi hann einnig mikla og dýrmæta reynslu af teymisvinnu. Einnig sé kærandi þekktur fyrir góða samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum. Hefði kærði verið í einhverjum vafa um þessa fullyrðingu hefðu verið hæg heimatökin að hafa samband við samstarfsfólk sitt sem hafi unnið með kæranda hjá heilbrigðiseftilitinu. Með því hefði kærði einnig sinnt lögbundinni rannsóknarskyldu sinni.
 78. Kærandi mótmæli því ekki að það hafi átt að fara eftir nefndum matsþáttum, vægi þeirra og viðmiðum. Vandamálið sé að kærði hafi ekki farið eftir þessum viðmiðum og því ljóst að hann hafi verið búinn að ákveða að kona fengi annað starfið, enda hafi allt ráðningarferlið og starfsmatið borið þess glöggt vitni.
 79. Þau rök kærða að einungis hafi verið tekið tillit til þeirra gagna sem hafi legið fyrir við ráðninguna séu aumt yfirklór og haldi engu vatni, en séu lýsandi um afstöðu kærða og skýran brotavilja.
 80. Því sé ljóst að kærði hafi með skýrum og beinum ásetningi brotið ákvæði laga nr. 10/2008. Kærandi sem karlmaður hafi því aldrei átt möguleika á þessu starfi.

   

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 81. Kærði tekur fram að kærandi hafi lýst þeirri skoðun sinni að hann sé hæfari en sú sem ráðin hafi verið og að kærði hafi verið búinn að taka ákvörðun um að kona fengi starfið. Kærandi hafi verið einn af mörgum einstaklingum sem hafi sótt um tvö störf og verið talinn hæfur til að sinna þeim. Að loknu ráðningarferlinu hafi hann ásamt öðrum umsækjanda verið metinn þriðji til fjórði hæfasti umsækjandinn.
 82. Ítrekað sé að við ráðninguna hafi verið stuðst við matsblað og að matsþættirnir hafi verið byggðir á menntunarkröfu, starfsreynslu, þekkingu á matvælavinnslu og/eða sjávarútvegi og ákveðnum hæfniskröfum sem kærði hafi metið að væru nauðsynlegir til að sinna starfinu. Ákvörðunin um ráðninguna hafi verið matskennd og því hafi kærði haft ákveðið svigrúm til að ákvarða hvaða málefnalegu sjónarmið skyldu lögð til grundvallar og hvernig umsækjendur féllu að þeim.
 83. Kærði hafi í greinargerð sinni útskýrt hvernig staðið hafi verið að ráðningunni, hvaða sjónarmið hafi legið þar að baki og hvernig umsækjendur hafi verið metnir. Kærði telji að kærandi hafi ekki sýnt fram á að honum hafi við ráðningarferlið verið mismunað á grundvelli kynferðis. Af efni umsagnar kæranda megi ráða að hann sé bæði ósáttur við þau sjónarmið sem notuð hafi verið til að meta umsækjendur og að mat kærða hafi verið rangt. Kærði telji því rétt að rekja efni umsagnarinnar út frá matsþáttum.
 84. Þá hafi kærandi komið margvíslegum málsástæðum og gögnum á framfæri við kærða og kærunefndina eftir að ákvörðun um ráðninguna hafi verið tekin. Kærandi verði að bera hallann af því að hafa ekki komið fullnægjandi upplýsingum og gögnum á framfæri áður en ákvörðunin hafi verið tekin, þrátt fyrir leiðbeiningar kærða á fyrri stigum, sbr. tölvupóstur frá starfsmanni kærða til kæranda frá 5. maí 2020. Ákvörðun kærða verði því að skoða í ljósi þeirra gagna sem hafi legið fyrir á þeim tíma, en þau hafi öll verið afhent nefndinni.
 85. Kærandi og sú sem ráðin hafi verið hafi bæði verið talin uppfylla kröfur um menntun og verið veitt jafn mörg stig. Kærandi hafi ekki gert athugsemdir við matsþáttinn en telji að verkefni um geymsluþol léttsaltaðra flaka í frosti sem konan hafi unnið að í tengslum við meistaragráðu sína hafi lítið vægi og vísi til föðurhúsanna öllu tali um að gefa ætti henni aukið vægi fyrir þennan matsþátt. Kærði ítreki að hún hafi M.Sc. gráðu í matvælafræði sem nýtist í starfi og að hún hafi í raun uppfyllt skilyrði til að fá fullt hús stiga varðandi menntunarþáttinn sem ekki hafi orðið reyndin. Réttindi til kennslu í framhaldsskólum í faggrein kæranda verði ekki talin menntun sem nýtist í starfi.
 86. Varðandi matsþáttinn reynsla af opinberu eftirliti (kostur) sé rétt að gera athugasemd við að matsþátturinn sé ekki reynsla í opinberu starfi líkt og kærandi leggi út af í umsögn sinni. Hann segi að sú sem ráðin hafi verið hafi enga reynslu við opinbert eftirlit og reki störf hennar hjá matvælafyrirtækjum og samskipti sem hún hafi haft við opinbera eftirlitsaðila. Það liggi fyrir að hún hafi ekki starfað sem opinber eftirlitsmaður, um það sé ekki ágreiningur. Aftur á móti snúist ágreiningurinn um þau sjónarmið sem kærði hafi notað við matið, þ.e. að reynsla umsækjenda af samskiptum við opinbert eftirlit væri metin til stiga. Aðilar sem komi að framleiðslu matvæla þurfi að gangast undir ítarlegar skyldur, þar með talið þegar komi að samskiptum við opinbera eftirlitsaðila, sbr. ákvæði laga nr. 93/1995 og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Þannig sé þeim skylt að veita aðstoð við eftirlitið, þar með talið aðgang að búnaði, tækjum, athafnasvæði, tölvuvæddum upplýsingarstjórnunarkerfum, skjölum og svo framvegis. Þá snúi opinbert eftirlit að samskiptum við eftirlitsþega og telji kærði ótvíræðan kost að sú reynsla og þekking sem fáist við að þiggja eftirlit hafi fengið vægi við þennan matsþátt.
 87. Kærði hafi ákveðið að umsækjendur sem hefðu 1 til 2 ára reynslu af opinberu eftirliti, þar með talið sem eftirlitsþegar (samskipti við opinbert eftirlit), hafi fengið 2 stig fyrir þennan málsþátt. Sú sem ráðin hafi verið hafi sannarlega átt samskipti vegna opinbers eftirlits í störfum sínum við framleiðslu matvæla sem nemi að minnsta kosti 1-2 árum. Ekki sé verið að telja klukkutímana sem hún hafi verið viðstödd eftirlit, heldur hafi verið litið til þess að hún hafi haft til hliðsjónar kröfur sem gerðar séu í opinberu eftirliti við störf sín þar sem fyrirtækin sem hún hafi unnið hjá hafi sætt opinberu eftirliti. Kærandi hafi fengið 4 stig, sem sé 5 ára eða lengri reynsla af eftirliti.
 88. Varðandi matsþáttinn þekking af matvælaframleiðslu/sjávarútvegi og reynsla eigi fullyrðing kæranda sér enga stoð um að sú sem ráðin hafi verið hafi enga hagnýta eða haldbæra starfsreynslu við matvælaframleiðslu/sjávarútveg og eigi kærði erfitt með að átta sig á því hvernig kærandi hafi komist að þessari niðurstöðu. Ljóst sé að fullyrðingin sé ekki í neinu samræmi við fyrirliggjandi gögn. Hún hafi unnið frá árinu 2015 sem gæðastjóri og gæða- og vöruþróunarstjóri hjá matvælafyrirtækjum. Öll þessi fyrirtæki framleiði og dreifi matvælum. C og G séu matvælafyrirtæki sem framleiði sjávarafurðir og D sé í framleiðslu á matvælum. Samkvæmt matskvarðanum í liðnum þekking af matvælaframleiðslu/sjávarútvegi og reynsla þurfi viðkomandi að búa að 4-5 ára reynslu í faginu til að fá fullt hús stiga, eða 4 stig. Sú sem ráðin hafi verið uppfylli það skilyrði eins og kærandi þar sem hann hafi þekkingu og starfsreynslu við matvælaframleiðslu áður en hann hafi hafið störf hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Kærandi hafi ekki borið halla af mati kærða varðandi hæfni umsækjanda þegar litið hafi verið til þess að sú sem ráðin hafi verið hafi síðastliðin fimm ár unnið hjá matvælafyrirtækjum, en kærandi hafi unnið hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða frá árinu 1981 til 1985.
 89. Varðandi samstarfshæfni, lipurð í mannlegum samskiptum og teymisvinnu hafi matið verið byggt á gögnum sem hafi fylgt umsóknum, reynslu umsækjenda og svörum þeirra við spurningalista og framkomu þeirra og samskiptum í viðtali, þ.e. hvernig þeir hafi komið upplýsingum þessa efnis á framfæri. Sambærilegur spurningalisti sé notaður í öllum starfsviðtölum sem haldin séu á vegum kærða. Í viðtalinu hafi sú sem ráðin hafi verið komið með góð dæmi um teymisvinnu sem hún hafi tekið þátt í, bæði í starfi sínu og sem fyrirliði í íþróttaliði og góðar útskýringar á því hvaða merkingu hún legði í teymisvinnu, auk þess að hafa lýst vilja til teymisvinnu. Kærandi, á hinn bóginn, hafi illa getað útskýrt hvað teymisvinna merkti í hans huga og hafi helst verið á honum að skilja að um teymisvinnu væri að ræða væru fleiri en einn að vinna saman. Dæmi sem hann hafi nefnt hafi ekki lýst teymisvinnu eins og hugtakið sé skilgreint hjá kærða, heldur fremur samstarfi. Hann hafi lýst þeirri skoðun sinni að teymi væru í lagi til að leysa markmið, en það ætti betur við hann að vinna einn. Sú sem ráðin hafi verið hafi sýnt fram á í viðtalinu að hún ætti auðvelt með að hlusta á aðra, væri tilbúin að ræða málin og ætti auðvelt með að viðurkenna mistök. Kærandi, á hinn bóginn, hafi reynst eiga erfitt með hlusta og halda þræði í viðtalinu og endurtekið tekið fram að hann vilji tryggja sig gegn gagnrýni stjórnenda og vilji ekki „láta anda ofan í hálsmálið á sér.“ Vinnustaðamenning sú sem kærði vilji byggja upp og hafi verið að byggja upp byggi á teymisvinnu sem meðal annars feli í sér gagnkvæmt traust, virka hlustun og virðingu. Þessi atriði skýri þann mismun sem hafi verið á einkunnagjöf í matsþættinum samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum (teymisvinna).
 90. Ítrekað sé að fullyrðingu kæranda um að hann hafi vísað til meðmælenda í hópi starfsmanna stofnunarinnar sé hafnað.
 91. Varðandi matsþáttinn sjálfstæði, nákvæmni og skipulögð vinnubrögð hafi sú sem ráðin hafi verið verið talin standa lítillega framar kæranda og hafi þar verið horft til framsetningar umsóknargagna, hvernig þau hafi verið lögð fram og hvernig þau hafi borist kærða sem og viðtöl við umsækjendur. Það sé ekki svo að mat kærða hafi verið að kærandi uppfyllti ekki skilyrðið, enda hafi hann fengið 3 stig í þessum matsþætti. Aftur á móti hafi stofnunin talið að sú sem ráðin hafi verið hefði staðið sig betur, bæði í starfsviðtalinu og einnig hvernig hún hafi komið gögnum varðandi umsóknina á framfæri. Að mati kærða sé klárlega munur á framsetningu gagna sem og að hún hafi lagt fram öll gögn með fullnægjandi hætti þegar í upphafi. Slíku hafi ekki verið fyrir að fara hjá kæranda sem hafi skilað ófullnægjandi gögnum og í þrígang lagt fram viðbótarupplýsingar.
 92. Þau samskipti sem kærði hafi átt við kæranda eftir að ákvörðun hafi verið tekin bendi ekki til þess að matsþátturinn hafi verið rangt metinn, sbr. framlögð tölvupóstsamskipti milli aðila.
 93. Ekki verði séð á efni athugasemda kæranda að hann hafi andmælt því að sú sem ráðin hafi verið hafi að einhverju leyti meiri færni varðandi matsþáttinn tölvukunnátta. Málefnaleg sjónarmið hafi verið fyrir því að notast við hann sem og að mat á umsækjendum hafi verið í samræmi við matsþáttinn. Þá hafi kærandi tiltekið að hann geri ekki athugasemd við matsþáttinn þekking á gæðakerfum, löggjöf og HACCP.
 94. Vegna matsþáttarins færni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku sé tekið fram að starfsemi kærða sé víðtæk, eftirlitsþegar fjölbreyttir og erlend samskipti til staðar, bæði við eftirlitsstofnanir erlendra aðila og fulltrúa erlendra viðskiptaaðila. Mikilvægt sé að starfsmenn geti komið máli sínu vel á framfæri á íslensku og ensku í töluðu og rituðu máli. Stærsti hluti löggjafar varðandi matvælavinnslu komi til vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og hluti af fræðslu og leiðbeiningum sem kærði noti við störf sín megi rekja til aðildarinnar og þess að Ísland sé hluti af þeim sameiginlega markaði sem kveðið sé á um í EES-samningnum. Til að starfsmenn kærða nýtist að fullu hafi verið gert að skilyrði að umsækjendur hefðu yfir að ráða góðri færni í íslensku og ensku. Kærði telji rétt að leggja til grundvallar þennan matsþátt.
 95. Við mat á umsækjendum hafi þeir fengið stig út frá þeim gögnum sem hafi legið fyrir við ákvörðun um ráðningu, þar með talið þeim upplýsingum sem umsækjendur hafi lagt fram og þeim viðbótarupplýsingum sem hafi komið fram í starfsviðtalinu. Sú sem starfið hafi hlotið hafi verið talin hafa mjög gott vald á íslensku og gott vald á ensku, þar með talinni ritun á enskum texta, og verði ekki ráðið af gögnum málsins að það mat hafi verið rangt. Kærandi hafi verið talinn hafa góða kunnáttu í íslensku og góða almenna færni í ensku, matið hafi verið byggt á fyrirliggjandi gögnum og viðtalinu. Af þessum sökum fari því fjarri að kærði hafi talið að kærandi hefði ekki almenna færni í íslensku. Upplýsingar um enskukunnáttu kæranda hafi aftur á móti komið betur fram eftir að ákvörðun um ráðningu hafi verið tekin og hafi þar ekki verið við kærða að sakast. Þá hafi það verið heildarmat kærða að viðtölin hefðu leitt í ljós betri færni þeirrar sem ráðin hafi verið til að koma máli sínu til skila.
 96. Kærandi hafi farið vel yfir þá hæfni sem hann hafi yfir að ráða. Ljóst sé að hann hafi margvíslega kosti, reynslu og þekkingu sem geri hann vel hæfan til að sinna því starfi sem hann hafi sóst eftir. Þetta hafi endurspeglast í mati kærða á umsækjendum. Það breyti því aftur á móti ekki að aðrir umsækjendur hafi verið taldir hæfari, þar með talin sú sem ráðin hafi verið. Sú ákvörðun að bjóða henni starfið hafi verið tekin eftir að kærði hafði framkvæmt heildarmat á öllum þeim gögnum sem hafi legið fyrir í lok ferlisins. Áður en ákvörðun hafi verið tekin hafði stofnunin aflað nauðsynlegra gagna til að hægt væri að meta hæfni umsækjenda. Matsþættir, sem lagðir hafi verið til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda, hafi verið málefnalegir. Þá hafi mat á umsækjendum verið í samræmi við matsþættina eins og þeir höfðu verið skilgreindir af hálfu kærða. Af þeim sökum sé því hafnað að hann hafi brotið gegn kæranda á grundvelli kynferðis, sbr. 26. gr. laga nr. 10/2008, þegar þeirri sem ráðin hafi verið hafi verið boðið starfið.

   

  NIÐURSTAÐA

 97. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 98. Kærandi kvartar eins og áður segir yfir ráðningu konu í annað tveggja starfa sem hann sóttist eftir hjá kærða. Karlmaður var ráðinn í annað starfið og lýtur kvörtunin ekki að þeirri ráðningu.
 99. Ákvörðun kærða um ráðningu í umrætt starf var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2020.
 100. Í starfsauglýsingu kærða birtust, eins og áður segir, eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:. Krafa um menntun í matvælafræði, dýralækningum, líffræði eða aðra menntun sem nýtist í starfi; þekking á HACCP aðferðafræðinni; haldbær þekking og reynsla af vinnu við vinnslu matvæla; reynsla af opinberu eftirliti er kostur; góð íslensku- og enskukunnátta; góð almenn tölvukunnátta; sjálfstæði, nákvæmni og skipulögð vinnubrögð; vilji/hæfni til að starfa í teymi; góð framkoma og lipurð í samskiptum; bílpróf er skilyrði. Í auglýsingunni var tekið fram að umsóknum skyldi fylgja prófskírteini, ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð væri grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir því hvernig umsækjandi uppfyllti hæfniskröfur. Helstu verkefni og ábyrgð voru talin: Eftirlit með fiskvinnslum og fiskiskipum; eftirlit með löndunaraðstöðu og aflameðferð; eftirlit með mjólkurvinnslum; eftirlit með kjötvinnslum; önnur tengd eftirlits- og sérfræðistörf. Þá sagði í auglýsingunni að leitað væri að jákvæðum og metnaðarfullum einstaklingum.
 101. Að mati kærunefndarinnar voru framangreindar kröfur málefnalegar og rúmuðust innan svigrúms kærða til að skilgreina menntunar- og hæfniskröfur starfsins.
 102. Kærandi gerir ekki athugasemd við matsþættina sem kærði lagði til grundvallar eða vægi þeirra heldur það að kærði hafi ekki farið eftir þessum viðmiðum.
 103. Áskilnaður um menntun umsækjenda hlaut 20% vægi í ráðningaferlinu. Kærandi og konan sem starfið hlaut fengu bæði 3 stig af 4 mögulegum í þeim þætti. Fyrir nefndinni hefur kærði byggt á því að til greina hefði raunar komið að veita konunni 4 stig í þessum þætti, enda hefði hún auk B.Sc.-gráðu í næringarfræði lokið M.Sc.-námi í matvælafræðum. Að mati kærunefndarinnar verður að fallast á þessi rök kærða, enda féll konan að því viðmiði fyrir slíkri stigagjöf samkvæmt matsblaði að búa yfir „B.Sc.-gráðu og umfram-menntun sem nýtist í starfi“. Halda ber því til haga að hér var um að ræða veigamesta matsþáttinn í ráðningarferlinu.
 104. Áskilnaður um haldbæra þekkingu og reynslu af vinnu við vinnslu matvæla hlaut 15% vægi í ráðningarferlinu. Þar hlutu bæði kærandi og konan sem ráðin var í starfið 4 stig af 4 mögulegum. Samkvæmt matsblaðinu þurftu umsækjendur að búa yfir fjögurra til fimm ára starfsreynslu í faginu til að hljóta 4 stig. Kærandi byggir á því að konan sem starfið hlaut hafi hvorki unnið við matvælaframleiðslu né sjávarútveg. Fyrir liggur aftur á móti að konan hafði starfað frá árinu 2015 sem gæðastjóri og gæða- og vöruþróunarstjóri hjá þremur matvælafyrirtækjum. Samkvæmt því verður að fallast á það mat kærða að konan hafi þar með uppfyllt skilyrði til að hljóta 4 stig í þessum matsþætti.
 105. Reynsla af opinberu eftirliti var sögð „kostur“ í auglýsingu og hlaut 15% vægi í mati kærða. Þar hlaut kærandi 4 stig af 4 mögulegum en konan hlaut 2 stig. Til að hljóta 2 stig þurftu umsækjendur samkvæmt matsblaði að búa að reynslu í eitt til tvö ár, þar á meðal að hafa átt „samskipti við opinbert eftirlit“. Kærandi byggir á því að þar hafi reynsla konunnar verið ofmetin, enda hafi hún aðeins átt í afar takmörkuðum samskiptum í tengslum við opinbert eftirlit. Kærði byggir aftur á móti á því að þrátt fyrir að sú sem ráðin hafi verið hafi ekki starfað við opinbert eftirlit þá hafi hún búið yfir reynslu af samskiptum við opinbera eftirlitsaðila úr störfum sínum í matvælafyrirtækjum þar sem hún hafi þurft að hafa hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar séu í opinberu eftirliti við störf sín þar sem fyrirtækin sem hún hafi unnið hjá hafi sætt opinberu eftiliti. Kærandi hafi síðan mikla reynslu af opinberu eftirliti með matvælafyrirtækjum, en það hafi verið talið honum til tekna í matinu. Að virtum framangreindum rökum kærða telur kærunefndin ekki tilefni til athugasemda við niðurstöðu kærða í þessum matsþætti.
 106. Áskilnaður um þekkingu á HACCP aðferðafræðinni hlaut 15% vægi í ráðningarferlinu. Kærandi og konan sem ráðin var í starfið hlutu bæði 4 stig af 4 mögulegum í þeim þætti. Kærandi kveðst ekki gera neina athugasemd við mat kærða í þessum matsþætti.
 107. Áskilnaður um góða framkomu, lipurð í samskiptum, vilja og hæfni til að starfa í teymi hlaut 10% vægi í ráðningarferlinu. Þar hlaut kærandi 2 stig af 4 mögulegum en konan sem ráðin var 3 stig. Hér var um fremur huglægan matsþátt að ræða, sbr. einnig áskilnað um sjálfstæði, nákvæmni og skipulögð vinnubrögð sem hlaut 5% vægi í ráðningarferlinu. Þar hlaut kærandi 3 stig af 4 mögulegum en konan sem ráðin var 4 stig. Málsaðila greinir á um hvort kærandi hafi bent á umsagnaraðila í starfsviðtali. Hvað sem líður því álitaefni hvort kærandi hafi bent á umsagnaraðila í viðtalinu eður ei þá er það mat kærunefndar að eins og atvikum var háttað hafi verið fullt tilefni fyrir kærða, ekki síst í ljósi rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, að ræða við umsagnaraðila umsækjenda þegar slíkir huglægir þættir yrðu kannaðir, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir liggur aftur á móti að ekki var rætt við umsagnaraðila umsækjenda. Þetta er einkum aðfinnsluvert í ljósi þess að á stigamatsblaði kærða var beinlínis ráðgert að rætt yrði við umsagnaraðila. Kærði hefursem rök fyrir mati sínu á framangreindum tveimur matsþáttum byggt á því að kærandi hafi í starfsviðtali ekki sýnt fram á sömu færni og sú sem ráðin hafi verið til að tjá sig með skýrum og skilvirkum hætti og svara þeim spurningum sem fyrir þau hafi verið lögð. Það hafi því verið mat kærða að umsókn þeirrar sem ráðin hafi verið og svör hennar í starfsviðtali hefðu verið betur sett fram og bæru vitni um að hún stæði kæranda framar hvað þennan þátt hafi varðað. Þannig hafi heildarmat þeirra sem hafi tekið starfsviðtalið við kæranda verið það að hann hafi ekki hlustað vel á spurningar, hann hafi verið óöruggur og talað mikið, leiðst auðveldlega út af sporinu og átt erfitt með að koma máli sínu skilmerkilega til skila. Í þó nokkrum tilvikum hafi hann ekki svarað spurningum sem fyrir hann hafi verið lagðar heldur farið að tala um fólk sem hann hafi nafngreint og þannig leiðst út af sporinu. Hvað varðar kröfu um nákvæmni og skipulögð vinnubrögð bætir kærði því við að sú kona sem starfið hafi hlotið hafi verið talin standa kæranda lítillega framar og hafi þar verið horft til framsetningar umsóknargagna og hvernig þau hafi verið lögð fram og borist kærða, sem og viðtals við umsækjendur. Umsóknin hafi verið vel úr garði gerð hjá þeirri sem ráðin hafi verið og hún nálgast viðtalið með öðrum hætti en kærandi sem hafi leiðst út af sporinu við svörun spurninga. Þá hafi einnig verið litið til þess að kærandi hafi ekki lagt fram umbeðin gögn með umsókn sinni í upphafi og lagt fram viðbótarupplýsingar í þrjú skipti eftir að upphafleg ófullnægjandi umsókn hafði verið send. Að mati kærunefndarinnar ber að taka undir með kæranda að geðþótti megi ekki ráða för við ráðningu í opinber störf. Aftur á móti verða stjórnvöld að geta nýtt ráðningarviðtöl þannig að þau nái þeim tilætlaða árangri að vera liður í því að meta hvaða umsækjandi standi öðrum framar. Slíkt er einkum brýnt þegar hæfniskröfur sem gerðar eru til starfs fela í sér huglægt mat á borð við þau atriði sem að framan greinir. Þá telst málefnalegt að draga vissar ályktanir um skipulagsfærni umsækjenda af framsetningu umsókna þeirra. Að virtum framangreindum skýringum kærða, einkum framsetningu á starfsumsóknum kæranda og konunnar sem starfið hlaut, og að teknu tilliti til þess svigrúms sem opinberir veitingarvaldshafar njóta til að meta frammistöðu í viðtölum telur kærunefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við mat kærða á þessum tveimur matsþáttum.
 108. Áskilnaður um tölvukunnáttu hlaut 5% vægi í ráðningarferlinu. Þar hlaut kærandi 2 stig af 4 mögulegum en konan sem ráðin var 3 stig. Af hálfu kæranda kemur fram að hann efist ekki um að sú sem ráðin hafi verið hafi að einhverju leyti meiri færni en hann varðandi tölvukunnáttu. Að þessu virtu og með vísan til umfjöllunar kærða hér að framan um færni konunnar sem starfið hlaut gerir kærunefndin ekki athugasemd við niðurstöðu þessa matsþáttar.
 109. Áskilnaður um íslensku- og enskukunnáttu hlaut 10% vægi í ráðningarferlinu. Þar hlaut kærandi 2 stig af 4 mögulegum en konan 4 stig. Að mati kærunefndarinnar verður að fallast á það með kærða að ekki hafi komið til greina að líta til upplýsinga sem kærandi sendi kærða eftir að tilkynnt hafði verið um ráðningu í starfið. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til röksemda kærða, sem raktar eru hér að framan, einkum þess að nám konunnar í matvælafræði hafi farið fram á ensku, telur kærunefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu kærða í þessum þætti. Í þessu samhengi skal áréttað að umsækjendum um störf ber að kynna sér hæfniskröfur sem meðal annars eru tilgreindar í auglýsingu og bera sjálfir ábyrgð á því að setja fram þær upplýsingar sem þörf er á hverju sinni til að sá sem ræður í viðkomandi starf hafi réttar forsendur við mat á hæfni umsækjenda.
 110. Að öllu framangreindu virtu stendur óhaggað það mat kærða að konan sem ráðin var í umrætt starf sérfræðings við eftirlit með vinnslu matvæla hafi staðið kæranda framar. Samkvæmt því hafa ekki verið leiddar líkur að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns þegar ráðið var í starfið, sbr. 1. og 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Hið sama á þar með einnig við um það álitaefni hvort kæranda hafi verið mismunað á grundvelli aldurs, sbr. 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, en kærandi vék lauslega að því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að slíkir fordómar kynnu að vera hluti af skýringu þess að kærði ákvað að ráða konuna fremur en kæranda í umrætt starf.
 111. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna veittra fresta til kærða undir rekstri málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Matvælastofnun, braut hvorki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla né lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði er kæranda, A, var ekki boðið starf sérfræðings við eftirlit með vinnslu matvæla sem auglýst var laust til umsóknar 30. apríl 2020.

 

 

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira