Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2002: Dómur frá 11. júlí 2002.

Ár 2002, fimmtudaginn 11. júlí, var í Félagsdómi í málinu nr. 6/2002.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Sjómannasambands Íslands

vegna aðildarfélags þess

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landsambands íslenskra útvegsmanna

vegna aðildarfélaga þess

(Jón H. Magnússon hdl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R:

Mál þetta sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 4. júlí sl. var þingfest 7. maí sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, f.h. Sjómannasambands Íslands, kt. 570269-2249, Borgartúni 18, Reykjavík, vegna aðildarfélaga þess.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Landsambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Hafnarhvoli við Tryggvagötu, Reykjavík, vegna aðildarfélaga þess.

 

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að skipverjar á bátum sem stunda rækjuveiðar og ísa aflann um borð skuli fá í sinn hlut af skiptaverði miðað við fjölda skipverja um borð hverju sinni, sem hér segir: Á skipum 12 - 30 rúml. sé hásetahlutur 32,0% af skiptaverði deilt með fjölda um borð séu 2 - 4 menn á skipinu. Á skipum 31 - 50 rúml. sé hásetahlutur 32,0% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 3 - 4 menn á skipinu. Á skipum 51 - 110 rúml. sé hásetahlutur 31,0% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 4 - 6 menn á skipinu. Á skipum 111 - 239 rúml. sé hásetahlutur 29,5% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 5 - 8 menn á skipinu. Á skipum 240 - 250 rúml. sé hásetahlutur 28,5% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 6 - 8 menn á skipinu. Á skipum 251 - 500 rúml. sé hásetahlutur 29,0% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 7 - 10 menn á skipinu. Á skipum 501 rúml. og stærri sé hásetahlutur 29,3% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 7 - 12 menn á skipinu.

Þá er þess krafist að viðurkennt verði að séu fleiri í áhöfn en ofangreind viðmiðunarmörk greina skuli heildarprósenta hásetahluts hækka um 1,8 fyrir hvern mann sem umfram er.

Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda 

  1. Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.
  2. Stefndi gerir kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Málsatvik eru þau að kjarasamningar stefnda við stefnanda og önnur samtök stéttarfélaga fiskimanna urðu lausir 15. febrúar 2000.  Kjaradeilu aðila var í maí 2000 vísað formlega til sáttameðferðar ríkissáttasemjara.  Haldinn var fjöldi funda með aðilum, þar sem reynt var að vinna að lausn mála, en án árangurs.  Í mars 2001 skullu á verkföll stéttarfélaga fiskimanna og í kjölfarið verkbann útvegsmanna.

Þann 9. maí 2001 náðust samningar milli stefnda og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör vélstjóra á fiskiskipum.

Þann 16. maí 2001 setti Alþingi lög nr. 34/2001 sem m.a. bönnuðu verkföll og verkbönn aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna sem staðið höfðu frá 1. apríl en kjaradeila aðila hafði þá staðið ríflega um eins árs skeið.

Í lögunum var jafnframt kveðið á um það í 2. gr. að ef aðilum tækist ekki að gera kjarasamning fyrir l. júní skyldi Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn til setu í  gerðardómi sem skyldi kveða á um nánar tilgreind kjaraatriði sjómanna fyrir 1. júlí 2001.

Þegar kjarasamningur hafði ekki verið gerður með aðilum þann 1. júní voru þeir Brynjólfur Sigurðsson prófessor, Garðar Garðarsson hrl. og Guðmundur Skaftason fyrrverandi hæstaréttardómari tilnefndir til starfa í gerðardómi þessum af Hæstarétti.

Verkefni gerðardómsins voru skilgreind í a. til g. liðum 2. gr. laga nr. 34/2001 en í b. lið greinarinnar var dóminum falið að kveða á um atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör.

Gerðardómurinn kvað upp úrskurð sinn 30. júní 2001.  Í úrskurðarorði var m.a. kveðið á um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna annars vegar og Sjómannasambands Íslands hins vegar. Jafnframt var tekið fram að hinn lögfesti kjarasamningur málsaðilanna, Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 27. mars 1998, framlengdist, með breytingum sem svo voru taldar upp, allt til 31. desember 2003.  Kjarasamningi aðilanna hafði áður verið breytt með lögum nr. 10/1998.

Meðal þeirra breytinga sem gerðardómurinn ákvað voru atriði, sem talin voru í b- lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2001, er vörðuðu þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn skyldi hafa á skiptakjör. Var kveðið á um þessar breytingar í 2. og 4. tl. úrskurðarorðsins. Í l. mgr. 2. tl. fólst breyting er varðaði skiptakjörin eins og þau höfðu verið í áðurgildandi kjarasamningi, en í 4. tl. gat einkum að líta töflu yfir ný viðmið um mönnun skipa sem stunduðu ferns konar veiðar: Botnvörpuveiðar, dragnótaveiðar, netaveiðar og rækjuveiðar.

Um forsendur þessara breytinga var fjallað í VII. kafla úrskurðarins. Var í úrskurðinum tekið af skarið um að almennt skuli beita þeirri aðferð sem kveðið er á um í 1. mgr. 2. tl. úrskurðarins. Þá leitaðist dómurinn eftir því að afla upplýsinga um raunmönnun skipa en tók fram með nánar greindum fyrirvörum, að dómurinn hefði ákveðið ný viðmið varðandi ofangreindar tegundir veiða og stærðir skipa til að raska ekki kjörum fiskimanna um of. Kvað dómurinn upp úr um að þessi viðmið skyldu gilda eins og önnur ákvæði úrskurðarorðsins til 31. desember 2003.

Í ljós kom að málsaðilar deildu um túlkun úrskurðarorðs gerðardómsins hvað nefndar veiðar snerti og var ágreiningur aðila lagður fyrir Félagsdóm til úrlausnar.

Dómur í Félagsdómsmáli nr. F 19/2001 var kveðinn upp þann 10. desember 2001. Niðurstaða dómsins varð sú að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Tekið var fram í forsendum dómsins að fallast beri "á það með stefnda að með gerðardóminum hafi einungis verið sett ný og neðri viðmið vegna útfærslu á leið b, en ekki teknar upp nýjar skiptatöflur í kjarasamning aðila ..."

Þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms stóð enn deila milli málsaðila um rækjuveiðar sem kveðið er á um í grein 9.01 í kjarasamningi. Er sá ágreiningur til úrlausnar í máli þessu.

       

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður dómkröfu sína fela í sér að tekið verði af skarið um að skilja beri 4. tl. úrskurðarorðs gerðardómsins á sama hátt varðandi rækjuveiðar eins og botnvörpuveiðar báta, netaveiðar og dragnótaveiðar og að miða eigi við raunmönnun innan þeirra marka sem 4. tl. úrskurðarorðsins og eldri ákvæði kjarasamnings marka, með hliðsjón af grein 1.02. Stefnandi hefur útfært viðmiðunartöflu kjarasamningsgreina 3.02, 4.01, 5.01 og 9.01 samkvæmt framlögðum gögnum í samræmi við þennan skilning.

Stefnandi styður málsókn sína eftirfarandi rökum:

Stefnandi telur ótvírætt að skilja beri 4. tl. úrskurðarorðs gerðardóms samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001 með þeim hætti sem dómkrafa hans felur í sér.  Ekkert í nefndu úrskurðarorði eða forsendum gerðardómsins í kafla VII. í úrskurðinum gefi tilefni til að álykta í þá veru að ákvæðum 4. tl. eigi að beita með mismunandi hætti eftir veiðigreinum.  Að mati stefnanda gefa forsendur dóms Félagsdóms í máli F-19/2001 ekki heldur svigrúm til slíkrar túlkunar.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að óumdeilt sé milli málsaðila á hvern hátt útfæra eigi 4. tl. varðandi botnvörpuveiðar báta, dragnótaveiðar og netaveiðar. Stefndi hafi ekki gert neinn ágreining við stefnanda um útfærslu kjarasamnings- ákvæða er lúti að þessum veiðigreinum, hvorki munnlega á fundum né skriflega, þrátt fyrir ærið tilefni.  Stefnandi hafi útfært þær breytingar með nákvæmlega sama hætti eins og varðandi rækjuveiðarnar að breyttu breytanda og sé á því byggt af hans hálfu að sama hátt eigi að hafa á varðandi rækjuveiðarnar.

Sá málatilbúnaður stefnda, sem virðist felast í að skipan mála varðandi rækjuveiðar eigi að vera óbreytt í samræmi við ákvæði laga nr. 10/1998, eigi sér enga stoð í úrskurði gerðardómsins eða í dómi Félagsdóms nr. F-19/2001. Stefnandi telur það ranga túlkun á úrskurði gerðardómsins og nefndum dómi að hin nýja tafla í 4. tl. um rækjuveiðar eigi bara við þegar til komi mannabreytingar vegna tæknibreytinga eða hagræðingar, sbr. 2. mgr. 2. tl. úrskurðarorðs gerðardómsins. Ekkert í úrskurði gerðardómsins gefi tilefni til þeirrar túlkunar.  Stefndi hafi enn fremur byggt á slíkri túlkun varðandi allar fjórar veiðigreinarnar fyrir Félagsdómi í nefndu dómsmáli eins og fram komi í gögnum málsins.  Á þá túlkun hafi Félagsdómur ekki fallist sem jafnframt feli í sér bindandi úrlausn þess sakarefnis milli málsaðila, sbr. 1. og 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi áréttar að í grein 1.02 sé afdráttarlaust tekið fram að aldrei skuli skipta í fleiri staði en menn séu á skipi í hverri veiðiferð.  Gerðardómurinn hafi lagt þetta til grundvallar í forsendum úrskurðar síns um útreikningsaðferð hásetahlutar. Því geti ekki átt að deila með öðrum fjölda manna í áhöfn heldur en raunverulega séu á skipinu, innan þeirra marka sem 4. tl. úrskurðarorðs gerðardómsins kveði á um og fyrra viðmið kjarasamnings.

Í þessu sambandi áréttar stefnandi jafnframt að breyting gerðardómsins er lúti að rækjuveiðum feli í sér breytingu á réttarástandi sem komið hafi verið á með lagasetningu 1998.  Sú löggjöf hafi falið í sér umtalsverða kjaraskerðingu fyrir sjómenn er stunduðu rækjuveiðar án þess að stefnandi hafi getað spornað við því.  Að mati stefnanda feli niðurstaða gerðardómsins nú í sér að kjör nefndra sjómanna hafi verið leiðrétt á ný en þó jafnframt komið til móts við hagsmuni félagsmanna stefnda með því að taka upp ný viðmið í mönnun skipa. Til slíkra breytinga hafði gerðardómurinn fulla heimild í samræmi við lögákveðið hlutverk sitt en dóminum hafi verið ætlað að leysa úr álitaefnum eins og hann taldi réttast í hverju tilviki og hafi í þeim efnum ekki verið bundinn af afstöðu eða kröfum málsaðila. Loks er áréttað að lög nr. 10/1998 hafi verið fallin úr gildi samkvæmt efni sínu áður en lög nr. 34/2001 voru sett þannig að gerðardómurinn hafi á engan hátt verið bundinn af þeirri löggjöf eða því réttarástandi sem hún hafi komið á.  Dóminum hafi hins vegar verið algerlega heimilt að líta til þeirra laga við mat á því hvaða reiknireglu ætti að nota þegar færri menn séu á skipi en við sé miðað í skiptakjaraákvæðum kjarasamnings.  Að sama skapi hafði dómurinn óbundnar hendur við að víkja frá ákvæðum laganna eins og hann hafi gert er hann ákvað ný viðmið í mönnun í 4. tl. úrskurðarorðsins.

Að gengnum dómi Félagsdóms í máli F-19/2001 sé gerðardómurinn í heild ótvíræður að mati stefnanda í þeim efnum sem hér séu til úrlausnar. Það sé beinlínis rakið í VII. kafla gerðardómsins að hann taki af skarið um mönnun skipa á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga þrátt fyrir að þær séu ekki fullnægjandi.  Sé þannig beinlínis gert ráð fyrir þeim möguleika að úrskurðurinn leysi ekki allan vanda. Þrátt fyrir ágreining um viðmið sem ríkt hafi  meðal gerðardómsmanna og þrátt fyrir skilgreinda annmarka á grundvelli úrskurðarins að þessu leyti hafi gerðardómurinn kveðið upp sinn úrskurð og gert það með ótvíræðum hætti.

Stefnandi byggir á meginreglum vinnuréttar og samningaréttar og lögum nr. 80/1938.  Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti; stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn fyrir því að fá álag er honum nemur dæmt úr hendi gagnaðila.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að Félagsdómur hafi þegar dæmt í ágreiningsmáli aðila með dómi sínum 10. desember 2001 í félagsdómsmálinu nr. 19/2001.  Þá hafi gerðardómur samkvæmt lögum nr. 34/2001 ekki fellt niður eldri ákvæði um skiptakjör í grein 9.01 í síðast gildandi kjarasamningi aðila, heldur bætt í viðkomandi kafla kjarasamningsins nýrri viðmiðunartöflu um að ef fækkað sé niður fyrir mörk þeirra töflu vegna nýs tæknibúnaðar eða hagræðingar skiptist hlutur eða hlutir þess eða þeirra sem fækkað er um milli útgerðar og áhafnar.

Gerðardómurinn hafi sett ný neðri viðmið  í grein 9.01 um það að útgerð og áhöfn rækjuskipa skyldu skipta með sér ávinningi af fækkun vegna vinnusparandi aðgerða.  Þar hafi verið tekið tillit til þess að tilkostnaður útgerðar við að setja um borð búnað sem gæti sparað vinnu ætti að hluta til að skila sér til útgerðarinnar en ekki renna allur til áhafnar.

Mótmælt er fullyrðingum stefnanda um að gerðardómurinn hafi fellt niður skiptakjaratöflur í grein 9.01 í kjarasamningi aðila sem lögfest hafi verið með lögum nr. 10/1998.  Þar hafi verið tekin upp sú regla varðandi rækjuveiðar að launakostnaður útgerðar hækkaði ekki þótt færri væru í áhöfn en miðað var við í skiptakjaratöflunni.

Samkvæmt stefnu byggi stefnandi á því að lög nr. 10/1998 séu fallin úr gildi, þrátt fyrir að hann staðfesti í bréfi til stefnda, dags. 6. febrúar 2002, að ákvæði þeirra hafi orðið hluti af kjarasamningi aðila.  Með þeirri viðurkenningu skiptir gildistími laganna engu máli.  Lögin hafi kveðið á um friðarskyldu aðila og gildistíma kjarasamningsins, sem varð laus 15. febrúar 2000 samkvæmt 5. gr. laganna.  Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi hvorki gert kröfur um breytingar á þessu ákvæði til þess horfs sem gilti fyrir 1998 né heldur frá hvaða tíma slíkar breytingar skyldu gilda.  Þessu til stuðnings er vísað til þess að hvorki í upprunalegum kröfum stefnanda né kröfum stefnanda fyrir gerðardómnum, sé að finna kröfur um þá breytingu sem stefnandi telur gerðardóminn hafa gert á grein 9.01.  Þá er jafnframt áréttað bréf formanns gerðardómsins, dags. 2. september 2001, að gerðardóminn beri að sjálfsögðu að lesa í heild sinni, með forsendum, eins og aðra dóma og úrskurði.

Mótmælt er þeim skilningi stefnanda að grein 1.02 breyti útreikningsaðferð á rækjuskipi samkvæmt grein 9.01.  Ekki sé skipt á milli fleiri en séu í áhöfn hverju sinni, þ.e. áhöfnin fái hlut þess sem á vantar.  Sé þetta keimlíkt ákvæði 29. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 um að skipta kaupi þess sem á vantar á milli þeirra sem fari ferðina.  Hins vegar sé útreikningsaðferðin sú, að hlut þess sem á vanti sé skipt á milli þeirra sem eftir séu, en útgerð sé ekki ætlað að borga með því samkvæmt ákvæði í grein 9.01 sem lögfest hafi verið með lögum nr. 10/1998.

Í framlögðum útreikningum aflahluta á rækjuskipi komi í hnotskurn fram um hvað sé deilt.  Verði skilningur stefnanda látinn ráða myndi launakostnaður hækka á skipi sem gert væri út með sama fjölda í áhöfn og undanfarin ár.  Það sé í andstöðu við það sem um hafi verið samið við vélstjóra og ekkert komi fram í forsendum gerðardóms sem gæti leitt til þeirrar niðurstöðu.

Stefndi byggir á því að samkvæmt úrskurði gerðardóms skuli skiptakjaratafla í grein 9.01 í síðast gildandi kjarasamningi halda sér og við bætist neðri viðmiðunarmörk vegna nýmælis í 2. tl. úrskurðarins um skiptingu milli útgerðar og áhafnar á hlut þeirra sem fækkar um vegna tæknibúnaðar eða hagræðingar.  Sé það í samræmi við kjarasamning vélstjóra á fiskiskipum, sem gerðardómur hafi haft til hliðsjónar, og tilvísun til kjarasamnings í neðanmálsgreininni í 4. tl. úrskurðar gerðardómsins vísi til þess að ákvæði síðast gildandi kjarasamnings aðila gildi óbreytt séu fleiri í áhöfn.

Stefndi telur í raun að Félagsdómur hafi verið búinn að dæma í ágreiningsmáli aðila í málinu nr. 19/2001 og ætti því að vísa málinu frá dómi.  Verði ekki fallist á það telur stefndi að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

 

Niðurstaða

Með 1. gr. laga nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna var lögfest að efnisákvæði miðlunartillagna þeirra, sem ríkissáttasemjari lagði fram til lausnar kjaradeilum á fiskiskipaflotanum þann 16. mars 1998, sem birt voru í fylgiskjölum I - IV með lögunum og voru hluti þeirra, skyldu frá gildistöku laganna gilda um kaup og kjör fiskimanna í aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og aðildarfélögum Alþýðusambands Vestfjarða, svo og Vélstjórafélagi Íslands, Vélstjórafélagi Ísafjarðar, Vélstjórafélagi Suðurnesja og Vélstjórafélagi Vestmannaeyja, með þeim breytingum sem fram komu í 2. gr. laganna.  Samkvæmt 5. gr. laganna öðluðust þau þegar gildi og giltu til 15. febrúar 2000.  Í 2. gr. laganna var mælt fyrir um tvenns konar breytingar á miðlunartillögu ríkissáttasemjara.  Í 1. mgr. greinarinnar var kveðið á um þá breytingu sem einkum virðist vera deilt um í máli þessu.  Þar segir að séu færri menn á skipi sem stundar rækjuveiðar og landar daglega eða ísar afla um borð en við er miðað í skiptakjaraákvæðum kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar á milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við skiptahlut þeirra.      

Með 1. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira, sem öðluðust gildi við birtingu þeirra í Stjórnartíðindum 16. maí 2001, voru yfirstandandi verkföll Sjómannafélags Eyjafjarðar og aðildarfélaga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum í Alþýðusambandi Vestfjarða og aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands, svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákváðu, óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms sem nánar er mælt fyrir um í 2. og 3. gr. laganna.  Þó skyldi aðilum heimilt að semja um slíkar breytingar, en eigi knýja þær fram með vinnustöðvun.  Samkvæmt 2. gr. laganna skyldi Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm, ef aðilar skv. 1. gr. hefðu ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001.  Skyldi gerðardómurinn ákveða um nánar tilgreind atriði sem talin eru upp í a- til g- liðum í 1. mgr. 2. gr. laganna.  Þannig skyldi dómurinn samkvæmt b-lið málsgreinarinnar ákveða um atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skyldi gerðardómurinn við ákvörðun sína "hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á og almenna þróun kjaramála, auk þess að taka mið af sérstöðu þeirra aðila sem nefndir eru í 1. gr."

Aðilum, sem lög nr. 34/2001 tóku til, tókst ekki að gera með sér nýjan kjarasamning fyrir 1. júní 2001.  Voru þá þrír menn tilnefndir í gerðardóm samkvæmt fyrirmælum laganna.  Kvað gerðardómurinn upp úrskurð sinn þann 30. júní 2001.  Í forsendum úrskurðar gerðardómsins varðandi það atriði sem hann átti að ákveða samkvæmt b-lið 1. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að þrjár leiðir hafi einkum komið til greina til að ná því markmiði að útgerðarkostnaður hækki ekki þegar fækkar í áhöfn,  sbr. VII. kafla úrskurðarins.  Nánari grein er svo gerð fyrir þessum þremur leiðum undir stafliðum a) til c).  Niðurstaða gerðardómsins var sú að nota skuli þá reglu sem tilgreind var undir staflið b), en það er sama reikniregla og orðuð var í áðurnefndri 1. mgr. 2. gr. laga nr. 10/1998.  Þá segir í forsendum gerðardómsins að sé "fækkun í áhöfn hins vegar tilkomin vegna hagræðingar og tæknibreytinga á skipi skal sú regla gilda sem vélstjórar sömdu um, að helmingur fer til áhafnar og helmingur fer til útgerðar, allt eins og nánar er útfært í úrskurðarorði."  Reglur þessar eru síðan orðaðar í 1. og 2. mgr. 2. tl. í úrskurðarorði gerðardómsins. Til mótvægis við þessar breytingar taldi gerðardómurinn nauðsynlegt að breyta viðmiðunarmörkum í mannafjölda (skiptatöflum) hvað varðar nokkrar tegundir veiða og stærðir skipa.  "Á það einkum við um báta sem stunda netaveiðar, trollbáta, dragnótarbáta og rækjubáta" eins og orðrétt segir í forsendum úrskurðarins.  Enn fremur segir í forsendunum að "til þess þó að raska ekki kjörum fiskimanna um of, með því að nota eldri viðmiðunarmörk kjarasamninga sem aðilar eru sammála að séu úrelt, hefur gerðardómurinn ákveðið ný viðmið og hefur þar tekið tillit til upplýsinga frá aðilum og ennfremur að nokkru litið til viðmiða í nýjum kjarasamningi vélstjóra."

Framangreindar reglur varðandi skiptakjör eru teknar upp í 2. tl. úrskurðarorðs gerðardómsins varðandi breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands.  Í 4. tl. úrskurðarorðsins, sem ber yfirskriftina Ný viðmið í mönnun, eru tilgreindar nýjar skiptatöflur vegna fjögurra veiðigreina, þ.e. botnvörpuveiða - báta, dragnótaveiða, netaveiða og rækjuveiða.  Ágreiningur reis með samningsaðilum um hinar nýju töflur og tengsl þeirra við þær skiptatöflur sem fyrir voru í kjarasamningi aðilanna.  Úr þeim ágreiningi var leyst með dómi Félagsdóms uppkveðnum 10. desember 2001 í máli nr. 19/2001.  Í niðurstöðu dómsins kemur m.a. fram að hin nýja tilhögun sem mælt var fyrir um í gerðardóminum samkvæmt fyrrgreindum staflið b) hafði í för með sér skerðingu kjara innan vébanda stefnanda væri ekkert að gert.  Hafi sú skerðing falist í því að aukahlutir, sem áður voru greiddir af bátshlut, greiðast nú af áhafnarhlut.  Til mótvægis við þessar breytingar hafi hins vegar reynst nauðsynlegt að breyta viðmiðunarmörkum í mannafjölda hvað varðaði fyrrnefndar fjórar veiðigreinar og stærðir skipa.  Var niðurstaða Félagsdóms sú að skilja bæri hin nýju viðmið í 4. tl. úrskurðarorðs gerðardómsins sem ný og neðri viðmið vegna útfærslu á téðri leið b, en ekki að nýjar skiptatöflur hafi verið teknar upp í kjarasamning aðila.

Ágreining aðila í máli því sem nú er til úrlausnar, eins og hann birtist í dómkröfum stefnanda, málsástæðum aðila og reifun málsins hér fyrir dómi, verður að skilja svo að hann lúti aðallega að því hvernig nota beri skiptatöflu varðandi rækjuveiðar sem tekin er upp í 4. tl. í úrskurðarorði gerðardómsins.  Telur stefnandi að skiptataflan varðandi rækjuveiðar hafi sömu þýðingu og hinar skiptatöflurnar þrjár sem teknar eru upp í  greindan tölulið úrskurðarorðsins, þ.e. kveði á um neðri viðmið þegar fækkað er í áhöfn áður en beitt skuli reglunni um að aukahlutir greiðist af áhafnarhlut en ekki af bátshlut.  Á hinn bóginn telur stefndi að hin umdeilda skiptatafla í 4. tl. úrskurðarorðsins varðandi rækjuveiðar feli einvörðungu í sér neðri viðmið, þegar beita skal nýju ákvæði í 2. mgr. 2. tl. úrskurðarorðsins um skiptingu milli útgerðar og áhafnar á hlut þeirra sem fækkar um vegna tæknibúnaðar eða hagræðingar.

Með 2. tl. í úrskurðarorði gerðardómsins er mælt fyrir um nýja reiknireglu um skiptingu hluta, þegar fækkað er í áhöfn niður fyrir það sem miðað er við í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) í kjarasamningum aðila.  Eins og áður er getið er hin nýja reikniregla hin sama og orðuð var í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 10/1998, en þá var hún einvörðungu bundin við skip sem stunduðu rækjuveiðar og lönduðu daglega eða ísuðu aflann um borð.  Eftir gildistöku úrskurðar gerðardómsins skyldi þessi regla hins vegar gilda um allar veiðigreinar með skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) í kjarasamningum.  Verður ekki hjá því komist að skýra forsendur gerðardómsins þannig að í hinum fjórum tilgreindu veiðigreinum, þ. á m. rækjuveiðum, hafi verið nauðsynlegt til mótvægis við þessa breytingu, ásamt því þegar fækkað var í áhöfn vegna tæknibreytingar eða hagræðingar, að breyta neðri viðmiðunarmörkum varðandi mannafjölda.  Enda þótt önnur skiptakjararegla hafi þannig gilt í umræddum rækjuveiðum en öðrum veiðigreinum, áður en gerðardómurinn kvað upp úrskurð sinn, verður þó hvorki ráðið af úrskurði gerðardómsins né forsendum hans að annað hafi átt að gilda um rækjuveiðar en hinar þrjár veiðigreinarnar þar sem ákveðin voru ný neðri mörk.  Engar haldbærar skýringar eða röksemdir hafa komið fram af hálfu stefnda sem leitt geta til annarrar niðurstöðu.  Þá er ljóst að gerðardómurinn var bær til að kveða á um þau atriði sem valdheimildir hans tóku til, sbr. 2. gr. laga nr. 34/2001.  Að þessu virtu verður dómkrafa stefnanda tekin til greina, en framsetning hennar hefur ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu stefnda yrði sýknukrafa hans ekki tekin til greina.  Samkvæmt þessum málsúrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að skipverjar á bátum sem stunda rækjuveiðar og ísa aflann um borð fái í sinn hlut af skiptaverði miðað við fjölda skipverja um borð hverju sinni sem hér segir:  Á skipum 12 - 30 rúml. sé hásetahlutur 32,0% af skiptaverði deilt með fjölda um borð séu 2 - 4 menn á skipinu.  Á skipum 31 - 50 rúml. sé hásetahlutur 32,0% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 3 - 4 menn á skipinu.  Á skipum 51 - 110 rúml. sé hásetahlutur 31,0% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 4 - 6 menn á skipinu.  Á skipum 111 - 239 rúml. sé hásetahlutur 29,5% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 5 - 8 menn á skipinu.  Á skipum 240 - 250 rúml. sé hásetahlutur 28,5% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 6 - 8 menn á skipinu.  Á skipum 251 - 500 rúml. sé hásetahlutur 29,0% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 7 - 10 menn á skipinu.  Á skipum 501 rúml. og stærri sé hásetahlutur 29,3% af skiptaverði deilt með fjölda skipverja um borð séu 7 - 12 menn á skipinu.  Viðurkennt er að heildarprósenta hásetahluts skuli hækka um 1,8 fyrir hvern mann sem umfram er, ef fleiri eru í áhöfn en ofangreind viðmiðunarmörk greina.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna vegna aðildarfélaga þess, greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands f.h. Sjómannasambands Íslands vegna aðildarfélaga þess, 150.000 krónur í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum