Hoppa yfir valmynd
23. október 2008 Félagsmálaráðuneytið

Ávarp ráðherra á ársfundi ASÍ

Verkefni næstu missera eru skýr og snúast um að koma á stöðugleika, forða fjöldagjaldþrotum og stórauknu atvinnuleysi og tryggja að heimili fólks verði varin eins og kostur er. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, á ársfundi Alþýðusambands Íslands sem nú stendur yfir.

Jóhanna gagnrýndi harðlega hvernig stjórnendur bankanna hefðu með stjarnfræðilegum ofurkjörum og ótrúlegum kaupréttarsamningum slitið sig úr sambandi við þjóðina og spilað djarft með almannafé. Hún sagði það skoðun sína að við ákvarðanir nú um laun nýrra bankastjóra væri of langt gengið, ekki síst þegar kjararýrnun er framundan og gæta þurfi hófs. Hún gagnrýndi líka fyrri ákvarðanir um lífeyrisréttindi ráðamanna og sagði brýnt að afnema þau forréttindi þeirra að geta haldið háum lífeyrisgreiðslum á sama tíma og þeir halda fullum launum á kostnað skattgreiðenda.

Jóhanna lagði áherslu á að lífeyrisþegar þyrftu sem aldrei fyrr á því að halda að samhjálpargildi lífeyrissjóðanna væru virk. Því þyrfti áætlun um uppbyggingu á traustu almannatrygginga- og lífeyriskerfi og að koma í veg fyrir ósanngjarnar víxlverkanir sjóðanna og almannatrygginga. Ljóst væri að lífeyrissjóðirnir yrðu fyrir skakkaföllum en forsvarsmenn þeirra og stjórnvöld myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að lágmarka skaðann

Samráðsnefnd félags- og tryggingamálaráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins hefur mótað tillögur til að sporna gegn vaxandi atvinnuleysi. Í þeim felst meðal annars hvati fyrir atvinnurekendur til að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna fremur en að grípa til uppsagna. Miðað er við að réttur fólks til tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði aukinn og jafnframt að tekjur launafólks fyrir hlutastarf skerði ekki atvinnuleysisbætur eins og verið hefur. Fram kom í máli Jóhönnu að hún muni kynna tillögurnar í ríkisstjórn á morgun.

Ráðherra boðaði fleiri aðgerðir til að mæta fólki í yfirstandandi erfiðleikum. Meðal annars væri verið að kanna, í samráði við sveitarfélög, möguleika þess að leigja fólki íbúðir sem það kann að missa vegna atvinnuleysis og of hárrar greiðslubyrði, til að koma í veg fyrir að fjölskyldur þurfi að yfirgefa heimili sín. Þá sagði Jóhanna mikilvægt að sem fyrst yrði farið í það að flytja íbúðarlán bankanna til Íbúðalánasjóðs og hefja undirbúning að nýju framtíðarskipulagi húsnæðismála á Íslandi.

Í morgun skipaði félags- og tryggingamálaráðherra fimm manna sérfræðingahóp til að fjalla um leiðir til að mæta vanda fólks vegna verðtryggðra lána. Ráðherra sagði hlutverk nefndarinnar að skoða hvort og hvaða leiðir séu færar í því efni en lagði áherslu á að málið væri vandmeðfarið og ekki gefið að unnt væri að finna á því raunhæfa lausn.

Ráðherra sagði að lokum að nýfrjálshyggjan hefði beðið skipbrot, en ekki aðeins peningastefnan heldur hefði siðferðisvitund allt of margra blindast vegna græðgisvæðingar. Nú hlyti þjóðin að kalla á breytt gildismat og endurmat siðferðisgilda. „Fólk sem hefur séð sparnað sinn brenna upp nánast á einni nóttu lætur ekki segja sér að nú sé allt breytt, öðruvísi en að allt breytist í raun. Við þurfum nýjar leikreglur, nýja stjórnendur og nýtt verklag og hugmyndafræði í allri þjónustu fjármálakerfisins gagnvart fólkinu í landinu.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp Jóhönnu Sigurðardóttur á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2008Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira