Hoppa yfir valmynd
24. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti ríkisstjórninni í dag tillögur um aðgerðir vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði til að sporna við vaxandi atvinnuleysi. Tillögurnar eru unnar af samráðshópi félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.

Forysta atvinnulífsins hefur hvatt fyrirtæki í tímabundnum rekstrarvanda til að lækka fremur starfshlutfall starfsmanna en að grípa til uppsagna sé það mögulegt. Tillögur samráðshópsins fjalla um tímabundnar aðgerðir sem miða að því að styðja við þessi tilmæli. Miðað er við að lengja það tímabil sem heimilt er að greiða tekjutengdar bætur til fólks í hlutastarfi. Þá er gert ráð fyrir aðgerðum sem koma í veg fyrir að laun fyrir hlutastarf sem fólk gegnir áfram skerði atvinnuleysisbætur. Helstu tillögur samráðshópsins eru þessar:

  1. Sá tími sem heimilt er að greiða launamanni tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði lengdur hlutfallslega í samræmi við lækkað starfshlutfall. Þannig geti launamaður sem hefur áunnið sér fullan rétt til atvinnuleysisbóta en lækkar úr 100% starfshlutfalli í 75% fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í samtals tólf mánuði í stað þriggja mánaða áður.
  2. Skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna frá vinnuveitanda fyrir hlutastarf verði felldar niður. Í þessu felst að launagreiðslur sem launamaður heldur fyrir 50% starfshlutfall eða hærra muni ekki skerða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur eins og verið hefur.
  3. Greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa verði miðaðar við tekjur launamanns samkvæmt því starfshlutfalli sem hann gegndi áður en til samdráttar kom í fyrirtækinu 1. október eða síðar og að bú atvinnurekanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta innan tólf mánaða frá þeim tíma sem starfshlutfall viðkomandi launamanns var lækkað.

Auk framangreindra tillagna sem kynntar voru ríkisstjórn í dag kynnti Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, tillögur um aðgerðir til að draga úr þeim áhrifum sem lækkað starfshlutfall hefði við óbreyttar aðstæður á réttindi launafólks innan velferðarkerfisins þegar um er að ræða réttindi sem taka mið af atvinnuþátttöku. Þetta á einkum við um útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslum á grundvelli III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Þess má vænta að frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóð launa í samræmi við tillögur samráðsnefndarinnar verði lagt fram fljótlega.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum