Hoppa yfir valmynd
10. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ný norræn skýrsla um gæði heilbrigðisþjónustunnar

Samkvæmt skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar um gæðamælingar í heilbrigðisþjónustu Norðurlandanna (Kvalitetsmåling i sundhedsvæsenet i Norden) sem út kom í síðasta mánuði er árangur og gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu á sumum sviðum með því besta sem gerist á Norðurlöndum.

Þannig er dánartíðni sjúklinga sem liggja á sjúkrahúsi og deyja innan 30 daga eftir kransæðastíflu lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Konur sem lifa fimm árum eftir greiningu brjóstakrabbameins eru flestar hér á landi og dánartíðni sjúklinga sem liggja á sjúkrahúsi og deyja innan 30 daga eftir kransæðablástur (PTCA) er lægst hér á landi. Einnig er nýburadauði á Norðurlöndum lægstur á Íslandi.  

Samanburður á gæðum

Skýrslan er unnin af starfshópi  ráðherranefndarinnar  en í honum sátu 3-4 fulltrúar heilbrigðisþjónustunnar í hverju landi.  Af  Íslands hálfu voru fulltrúar frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Landlæknisembættinu, Landspítala-háskólasjúkrahúsi og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk hópsins var m.a. að  finna leiðir til að gefa norrænum borgurum, stjórnmálamönnum, heilbrigðisstarfsmönnum og stjórnvöldum kost á að meta og bera saman heilbrigðisþjónustu milli landanna.

Starfshópurinn þróaði og safnaði gögnum um 36 gæðavísa. Þeir gæðavísar, sem settir voru í forgang af hálfu hópsins voru m.a. valdir vegna þess að fyrir hendi voru nægileg aðgengileg gögn á Norðurlöndunum um þá. Upplýsingar og gögn sem fyrir liggja bera með sér að erfitt er að safna sambærilegum og rauntíma upplýsingum í hverju landi fyrir sig. Það á einnig við um suma gæðavísanna að ekki er unnt að nálgast gögn um þá í einhverju landanna. Vinna starfshópsins sýnir að mikilvægt er að bæta skráningu og úrvinnslu upplýsinga innan heilbrigðisþjónustunnar til að unnt sé að kortleggja betur gæði þeirrar þjónustu sem veitt er.

Mikilvægt er að hafa í huga að þeir mælikvarðar sem birtir eru í skýrslu starfshópsins eru gæðavísar sem gefa fyrst og fremst vísbendingar og nýtast til að spyrja spurninga um hvort um sé að ræða raunverulegan mun á gæðum heilbrigðisþjónustu landanna. Megin tilgangurinn með slíkum samanburði er að skapa umræðu um gæði þjónustunnar í hverju landi og skoða hvort unnt sé að gera betur á einhverjum sviðum og hefja umbætur í því skyni

Með þessa fyrirvara í huga eru birtar töflur í skýrslunni með eins samanburðarhæfum upplýsingum og til eru á Norðurlöndunum, en vandað hefur verið til vals á gæðavísum út frá gæðum gagna og samanburðarhæfni. Í flestum tilvikum er um að ræða gögn frá árunum 2004 og 2005.

Í skýrslunni er einnig yfirlit yfir stöðu gæðamála í  hverju landi auk þess sem greint er frá því hvernig aðgengi almennings að upplýsingum um heilbrigðisþjónustuna og gæði hennar er háttað.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum