Hoppa yfir valmynd
1. júní 2007 Heilbrigðisráðuneytið

TR greiðir forvarnaskoðun fyrir börn

Tryggingastofnun ríkisins greiðir frá og með deginum í dag árlega forvarnaskoðun tveggja árganga barna, þriggja og tólf ára.

Þessa breytingu má rekja til samnings heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og samninganefndar Tannlæknafélags Íslands sem tannlæknar samþykktu í atkvæðagreiðslu. Tryggingastofnun ríkisins greiðir að fullu fyrir eina forvarnarskoðun hjá tannlækni fyrir öll sjúkratryggð þriggja ára og tólf ára börn á Íslandi sem njóta þjónustu tannlæknis sem er aðili að samningnum. Um fjögur þúsund börn eru í hvorum árgangi og verður leitast við að ná til sem flestra barna á þessum aldri. Gert er ráð fyrir því að heildarkostnaður við samninginn sé um 70 milljónir króna. Í samningum felst að tannheilsa barna verður skráð með svipuðum hætti og gert er annars staðar á Norðurlöndum.

Það er sameiginlegur skilningur samningsaðila að með þessu sé stigið fyrsta skrefið í forvarnareftirliti barna og unglinga, sem leggja mun grunn að bættri tannheilsu einstaklingsins til framtíðar. Í framtíðinni er fyrirhugað að efla þetta eftirlitsnet með því að taka fleiri árganga inn til eftirlits á þennan hátt.

Í samningnum er kveðið á um þjónustuna sem innifalin er í forvarnarskoðun hvors hóps, en þriggja ára börn fá greidda skoðun, viðtal, atferlismeðferð, beina fræðslu og flúormeðferð. Þessir verkþættir eru líka greiddir fyrir tólf ára börnin og að auki tvær röntgenbitmyndir.

Forsenda greiðslu er að viðkomandi tannlæknir sé aðili að samningnum. Nöfn samningsbundinna tannlækna verða birt á heimasíðu Tryggingastofnunar eftir 11. júní næstkomandi og verður listinn yfir þá uppfærður daglega. Fram til 12. júní er fólki bent á að hafa samband við Tannlæknafélag Íslands til að fá upplýsingar um hvaða tannlæknar eru aðilar að samningnum. Símanúmer Tannlæknafélagsins er 575 0500.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum