Hoppa yfir valmynd
23. júlí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 250/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 250/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060026

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Þann 11. júlí 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. apríl 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 15. júlí 2019. Þann 16. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt greinargerð kæranda.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að atvik hafi breyst verulega frá því að kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um efnismeðferð hér á landi, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Vísar kærandi m.a. til þess að vegna Covid-19 faraldursins séu allar forsendur fyrir því að endursenda hann til Grikklands brostnar auk þess sem almennar aðstæður flóttamanna í Grikklandi séu með öllu óviðunandi og svo slæmar að jafna megi þeim til ómannúðlegrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Beri því að endurupptaka mál hans og taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. nóvember 2018 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út þann 7. nóvember 2019. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun, á tímabilinu 22. júní til 6. júlí 2020, varðandi fyrirspurnir um tafir á málsmeðferð og flutningi kæranda, kom m.a. fram að beiðni um framkvæmd á flutningi hafi verið send til stoðdeildar þann 7. ágúst 2019. Kærandi hafi hins vegar verið skráður horfinn í upplýsingakerfi stoðdeildar og Útlendingastofnunar þann 21. ágúst s.á. Þar sem kærandi hafi ekki tilkynnt Útlendingastofnun um breyttan dvalarstað eða nýtt símanúmer var það mat stofnunarinnar að kærandi hafi tafið mál sitt að því leytinu til. Í svari frá stoðdeild kom m.a. fram að þann 30. ágúst 2019 hafi verið bókað í kerfi lögreglu af lögreglumanni sem var með mál kæranda að kærandi hafi ekki sést í húsnæðisúrræði sínu í töluverðan tíma og að ef lögreglumenn hafi afskipti af honum þá skuli umræddur lögreglumaður látinn vita. Það hafi hins vegar ekkert símanúmer verið skráð á kæranda í kerfi lögreglunnar. Þá kom fram í svari Útlendingastofnunar þann 30. júní 2020 að kæranda hafi verið úthlutað farsímanúmeri en ekki væri vitað hvort reynt hafi verið að ná í kæranda símleiðis eða hvort kærandi hafi virkjað númerið.

Þann 1. júlí 2020 var kæranda veitt tækifæri til að koma andmælum að vegna upplýsinga sem kærunefnd hafði aflað frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra. Andmæli kæranda bárust kærunefnd þann 8. júlí 2020, þar sem kærandi greindi frá því að hann hefði aldrei fengið boð um að hann ætti að yfirgefa landið auk þess sem hann hafi aðeins yfirgefið búsetuúrræði Útlendingastofnunar þar sem honum hafi verið greint frá því að hann ætti ekki lengur rétt á að dvelja þar í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar þar sem honum var synjað um efnismeðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Hann hafi því verið í góðri trú um að hann væri áfram hér á landi að bíða eftir brottflutningi.

Kærunefnd telur að þegar ekki er unnt að framkvæma endanlega ákvörðun um að einstaklingur skuli yfirgefa landið vegna þess að stjórnvöld geta ekki náð til einstaklingsins séu þær tafir sem leiða af því almennt á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, svo framarlega sem yfirvöld hafa gripið til raunhæfra aðgerða til að hafa upp á einstaklingnum.

Í máli kæranda liggja ekki fyrir gögn eða upplýsingar sem sýna fram á að reynt hafi verið að ná í kæranda símleiðis eftir að hann var skráður horfinn þrátt fyrir að Útlendingastofnun hafi úthlutað kæranda farsímanúmeri. Þá liggja heldur ekki fyrir gögn sem sýna fram á að kæranda hafi verið leiðbeint með skýrum hætti um að honum bæri að tilkynna Útlendingastofnun um breyttan dvalarstað, hefði hann ekki í hyggju að nýta sér búsetuúrræði á vegum stofnunarinnar lengur. Þegar um svo íþyngjandi afleiðingar er að ræða fyrir kæranda telur kærunefnd að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, m.a. í því skyni að fyrirbyggja misskilning og tryggja sönnun, að upplýsa hann með formlegum, og sannanlegum hætti um skyldur sínar gagnvart Útlendingastofnun og gerir kærunefnd athugasemd við framkvæmd Útlendingastofnunar að þessu leyti. Framangreint ber með sér að mikil óvissa sé uppi um hvort unnt hafi verið að framkvæma endanlega ákvörðun um að kærandi skyldi yfirgefa landið innan 12 mánaða frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en umræddur frestur rann út þann 7. nóvember 2019 eða tæpum þremur mánuðum eftir að kærandi var skráður horfinn hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að ekki var reynt að hafa samband við kæranda símleiðis til þess að óska eftir upplýsingum um breyttan dvalarstað. Þá var farsímanúmer kæranda ekki skráð í kerfi stoðdeildar sem bendir til þess að misbrestur hafi orðið í upplýsingagjöf á milli stoðdeildar og Útlendingastofnunar sem hafi gert starfsmönnum stoðdeildar ómögulegt fyrir að hafa samband við kæranda símleiðis. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda er ekki grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af þeim sökum ber að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

Í ljósi framangreinds er því fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum