Hoppa yfir valmynd
15. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstarfssamningur við Háskóla Íslands um fötlunarfræði

Frá undirritun samningssins
Samstarfssamningur undirritaður

Þriðjudaginn 2. desember undirrituðu rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, og Árni Magnússon félagsmálaráðherra samstarfssamning sem felur í sér að stofnað verður starf lektors í fötlunarfræðum við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Markmið samningsins er að efla kennslu og fræðistörf á sviði fötlunarfræða og styrkja þannig rannsóknir, framþróun og stefnumörkun á fræðasviðinu og í málefnum fatlaðs fólks. Undirritun samningsins fór fram í fundarherbergi háskólaráðs H.Í. í Aðalbyggingu, 1. hæð, kl. 14:30.

Samstarfssamningurinn felur í sér að félagsmálaráðuneytið kostar starf lektorsins til fimm ára. Samningurinn markar tímamót því starf lektorsins er hið fyrsta sem sérstaklega er merkt þessu nýja fræðasviði. Starfið er stofnað í tilefni af Evrópuári fatlaðs fólks og með kostun þess vill félagsmálaráðherra efla rannsóknir og framþróun í málefnum fatlaðra og leggja fræðilegan grunndvöll að stefnumótun og ákvörðunartöku í málefnum fatlaðs fólks. Framlag félagsmálaráðherra á þessu sviði endurspeglar þá miklu áherslu sem lögð er á framþróun í málefnum fatlaðra innan félagsmálaráðuneytisins.

Hinn nýji lektor mun taka til starfa á miðju ári 2004 og mun starf hans felast í eflingu og þróun fötlunarfræði sem fræðigreinar við félagsvísindadeild Háskóla Íslands með áherslu á félagslegar aðstæður fatlaðra og félagsleg sjónarhorn í fræðastarfi og fötlunarrannsóknum. Hið nýja lektorsstarf gerir það að verkum að unnt verður að stofna til framhaldsnáms í fötlunarfræðum við Félagsvísindadeild og mun lektorinn vinna að uppbyggingu námsins. Námið hefst haustið 2004 og mun miðast við fólk sem hefur lokið grunnnámi í háskóla. Unnt verður að velja milli þriggja námsleiða: 15 eininga diplómanám, 45 eininga starfsmiðað meistaranám og 60 eininga rannsóknamiðað meistaranám. Þessar þrjár námsleiðir hafa sameiginlegan kjarna og verða kenndar samhliða.

Samstarfssamningurinn gerir það að verkum að unnt er að stórefla framhaldsnám í fötlunarfræðum hér á landi og bæta úr brýnni þörf fyrir íslenskar rannsóknir á aðstæðum fatlaðs fólks.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum