Hoppa yfir valmynd
13. september 2013 Innviðaráðuneytið

Kynnti fyrirhugaða lagabreytingu um afnám lágmarksútsvars á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði í gær aðalfund Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem haldinn var í Reykholti í Borgarfirði. Í ávarpi sínu á fundinum sagði ráðherra að hafinn væri undirbúningur að lagabreytingu þess efnis að lágmarksútsvar verði afnumið á kjörtímabilinu. Vísaði ráðherra til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í því sambandi og sagði hún þetta lið í því að færa valdið í auknum mæli til sveitarfélaga og jafnframt auka frelsi þeirra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í gær.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í gær.

Þá ræddi Hanna Birna um sameiningu sveitarfélaga og fullvissaði fundarmenn um að hún myndi ekki standa fyrir lögþvinguðum sameiningum, hún teldi réttara að málið væri í höndum sveitarstjórna og íbúa sveitarfélaga. Hvatti hún sveitarstjórnarmenn til að ræða kosti og galla sameiningar. 

Um löggæslumál sagði hún að það væri yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að efla löggæslu í landinu og unnið væri að því að greina störf lögreglunnar, fá skýra sýn á öryggismál, þjónustu og mannaflaþörf lögreglunnar. Ynni rekstrarteymi að því að greina rekstrargrundvöll lögreglustofnana til skemmri tíma í því skyni að viðbótarfjármagn skilaði sér í raunverulegri eflingu lögreglu þar sem þörfin væri brýnust. Þá boðaði ráðherra lagabreytingar vegna fækkunar á lögreglustjóra- og sýslumannsembættum. Markmiðið væri að styrkja og efla þjónustuna og nýta fjármagn betur.

Undir lok ræðunnar lagði Hanna Birna áherslu á mikilvægi þess að eiga gott samstarf við sveitarfélögin og hvatti hún sveitarstjórnarfólk til að koma á framfæri við sig hugmyndum og ábendingum um það sem betur mætti fara í málaflokknum. Lokaorð ráðherra voru þessi: ,,Við skulum vinna saman að því að gera samfélagið okkar betra, að gæta þess að stjórnmálin snúist fyrst og fremst um það að bæta hag og tryggja öryggi almennings og að missa aldrei sjónar á því fyrir hverja við erum að vinna."

Frá aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum