Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og jafnréttismálaráðherra brýnir stjórnendur í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra hefur sent stjórnendum allra stofnana sem heyra undir embætti hans bréf þar sem hann brýnir þá til að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sínum líkt og lög bjóða.

Í bréfinu vísar ráðherra til frásagna kvenna sem birst hafa opinberlega að undanförnu þar sem þær greina frá kynbundinni og kynferðislegri áreitni og jafnvel ofbeldi sem þær hafa mátt sæta í störfum sínum.

Bréf ráðherra er eftirfarandi:

Tilmæli félags- og jafnréttismálaráðherra til stofnana er undir hann heyra varðandi #metoo

Nýlega hafa opinberlega birst sögur fjölmargra kvenna, sem starfa í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á Íslandi, um kynbundna og kynferðislega áreitni og jafnvel um kynbundið ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í störfum sínum. Þessar sögur eru í samræmi við sögur kvenna víða um heim sem birst hafa undir myllumerkinu #metoo og draga fram í dagsljósið ójafna stöðu karla og kvenna að því er virðist á öllum sviðum samfélagsins. Það er von mín að birting þessara sagna verði til þess að takist að breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin.

Ég vil brýna alla forstöðumenn, sem starfa í stofnunum sem heyra undir félags- og jafnréttismálaráðherra, til að fylgja fast eftir lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem hafa meðal annars að markmiði að vinna gegn einelti, kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni á vinnustöðum og kveða skýrt á um að allir eigi að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að stofnanir geri heildstætt áhættumat þar sem tekið er tillit til áhættuþátta sem varða sálfélagslega þætti en þar á meðal skal greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum, sbr. XI. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Einnig vil ég sjá aukna áherslu á forvarnarstarf innan stofnana í því skyni að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi en forstöðumenn stofnana bera ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem fram kemur meðal annars áætlun um forvarnir á vinnustaðnum.

Ég bendi jafnframt á að í 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni. Er þar sérstaklega vikið að skyldu yfirmanna stofnana um að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Í 18. gr. sömu laga er fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn, gert skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Með jafnréttisáætluninni skal fylgja aðgerðaáætlun þar sem skilgreint er hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr.

Þetta þýðir að allir vinnustaðir eiga að vera með aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig koma á í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni og hvernig bregðast skuli við komi upp slík tilvik eða grunur er um að slíkt brot eigi sér stað. Það er skylda atvinnurekanda að koma í veg fyrir að slíkt viðgangist á vinnustaðnum. 

Ég beini því til allra forstöðumanna að tryggja að í gildi sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað og jafnréttisáætlun ásamt aðgerðaráætlun þar sem fram kemur meðal annars hvernig á að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni hjá stofnunum ráðuneytisins.

 Ásmundur Einar Daðason
félags- og jafnréttismálaráðherra

 Anna Lilja Gunnarsdóttir
ráðuneytisstjóri

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum