Hoppa yfir valmynd
21. október 2014 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 1/2014

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Kópavogsbæ


Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að kærandi og karl sem starfaði einnig hjá kærða nytu mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Talið var að störf þeirra væru sambærileg og að mismunandi menntunarstig eða að miðað væri við sitthvorn kjarasamninginn réttlætti ekki mishá laun. Niðurstaða kærunefndar var að kærða hefði ekki tekist að sýna fram á að launamunurinn væri byggður á öðru en kynferði.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 21. október 2014 er tekið fyrir mál nr. 1/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 6. janúar 2014, kærði Starfsmannafélag Kópavogsbæjar f.h. A ætlaðan mismun á launakjörum milli hennar og annars launafulltrúa en þau starfa bæði á menntasviði Kópavogsbæjar. Kærandi telur að Kópavogsbær hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ákvörðun grunnlauna kæranda frá og með 1. janúar 2013. Kærandi krefst þess að kærunefnd jafnréttismála staðfesti brot Kópavogsbæjar og gerir einnig kröfu um málskostnað með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 30. janúar 2014. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 14. mars 2014, var kæranda veittur frestur til 1. apríl 2014 til að skila greinargerð. Með tölvupósti þann 15. apríl 2014 var kærða á ný veittur frestur til 30. apríl 2014 til að skila greinargerð. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 30. apríl 2014, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 14. maí 2014.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 25. maí 2014, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 27. maí 2014. Athugasemdir kærða bárust nefndinni 21. júlí 2014 og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 22. júlí 2014.
 5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR
 6. Kærandi starfar sem launafulltrúi á menntasviði Kópavogsbæjar. Kærandi telur að hún njóti lægri launakjara fyrir sömu störf og karl sem starfar einnig sem launafulltrúi á menntasviði Kópavogsbæjar. Kærandi leitaði til jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar og óskaði eftir að kannað yrði hvort launamisrétti væri við lýði innan menntasviðs Kópavogsbæjar. Í áliti jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar, dagsettu 19. júní 2013, kemur fram að það sé mat hans að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun grunnlauna kæranda. Kærandi fór ítrekað fram á að Kópavogsbær myndi bregðast við álitinu en án árangurs. 

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA
 7. Kærandi greinir frá afdráttarlausri niðurstöðu jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar, dagsettri 19. júní 2013, um að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við ákvörðun grunnlauna kæranda. Þar komi fram að lengd starfsreynslu og háskólamenntunar réttlæti ekki launamismun þar sem menntunarkröfur samkvæmt starfslýsingu séu þær sömu. Lengri starfsaldur og meiri menntun eigi að endurspeglast í mismunandi persónuálagi frekar en mismun á grunnlaunum. Þar sem störf beggja aðila séu fyllilega sambærileg m.t.t. ábyrgðar, inntaks og ásýndar, menntunar- og hæfniskröfur séu þær sömu og niðurstaða starfsmats sé áþekk sé það álit jafnréttisráðgjafa að það beri að greiða þeim sömu laun. Þrátt fyrir gefin fyrirheit um forgang og metnað í jafnréttismálum hafi kærði ekki brugðist við áliti jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar. Ekkert hafi heyrst frá yfirmönnum bæjarins um hvort og hvernig verði brugðist við álitinu, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir af hálfu kæranda. Vanræksla kærða brjóti augljóslega gegn 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem sé grunnregla stjórnsýsluréttar um hraða málsmeðferð.
 8. Kærandi telur að ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008, um sex mánaða kærufrest til nefndarinnar, komi ekki í veg fyrir að kærunefnd jafnréttismála úrskurði í málinu. Ástand, sem flokkist sem brot gegn lögum nr. 10/2008, sé enn við lýði hjá kærða þar sem samstarfsmaður kæranda sé enn með hærri laun en hún. Lögbundinn frestur sé því ekki byrjaður að líða. 

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA 
 9. Kærði telur að krafa kæranda sé of seint fram komin, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008. Nauðsynlegt sé að rekja forsögu ákvörðunar launa samstarfsmanns kæranda og aðkomu hennar að því máli. Kærandi hafi [...] leikið lykilhlutverk í grunnlaunaákvörðun samstarfsmanns hennar árið 2006. Hún hafi bæði haft upplýsingar um grunnlaunaákvörðunina frá 28. desember 2006 og beinlínis unnið að því að laun hans yrði ákvörðuð með þeim hætti sem hafi verið gert. Því hefði henni verið í lófa lagið að óska strax eftir því við jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar að gefa álit sitt á ætluðu broti en það hafi hún kosið að gera ekki. Kærandi hafi látið líða um sjö ár frá launaákvörðun samstarfsmanns síns þar til hún hafi óskað eftir áliti jafnréttisráðgjafa. Það sé afstaða kærða að sýnt hafi verið fram á grandsemi kæranda um ætlaðan launamun strax frá 28. desember 2006 og það sé því sú dagsetning sem leggja verði til grundvallar ákvörðun nefndarinnar um það hvort kæra sé of seint fram komin. Þá hljóti einnig að koma til skoðunar hin mikla þekking kæranda á launaákvörðunum þar sem hún hafi verið [...] í áratug og beinlínis unnið að launaákvörðun samstarfsmanns síns. Ljóst sé að kærandi sé enginn nýgræðingur þegar kemur að launamálum, heldur þvert á móti sérfræðingur á því sviði. Það hljóti því að hvíla á henni ríkar aðgæsluskyldur um að gera viðeigandi ráðstafanir strax og henni hafi verið ljós ætlaður grunnlaunamunur. Það sé afstaða kærða að kærandi verði að bera hallann af slíku tómlæti. Að mati kærða er kæra of seint fram komin, hvort sem horft sé til sex mánaða frestsins eða árs frestsins.
 10. Kærði tekur fram að verði ekki fallist á það sjónarmið að kæra sé of seint fram komin sé það afstaða kærða að munur grunnlauna kæranda og samstarfsmanns hennar sé eðlilegur og eigi sér málefnalegar skýringar. Störfin séu ekki jafnverðmæt í skilningi laga nr. 10/2008 líkt og haldið sé fram í áliti jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar og sé þeirri afstöðu hafnað af hálfu kærða. Kærði hafi allt frá árinu 2005, er samið hafi verið við Starfsmannafélag Kópavogsbæjar um innleiðingu starfsmats, unnið ötullega að því að eyða kynbundnum launamun. Sterkasta vopnið í þeirri baráttu sé að mati kærða starfsmatið sem sé kynhlutlaust starfsmatskerfi. Jafnlaunakannanir á tímabilinu sýni verulegan ávinning af notkun starfsmatsins til að eyða kynbundnum launamun. Kærði hafi til að mynda fengið Háskólann á Akureyri til að framkvæma jafnlaunakönnun fyrir allt sveitarfélagið, alls um 2.500 starfsmenn. Niðurstöður könnunarinnar frá því í mars 2014 sýni að kærði sé með minnsta óútskýrða launamun opinberra aðila hérlendis. Þá sýni niðurstöðurnar að ekki sé marktækur kynbundinn launamunur grunnlauna meðal starfsmanna kærða. 
 11. Kærði bendir á að í starfsmati felist gagnger skoðun á starfi, byggt á ítarlegum spurningalista, auk starfslýsingar og skipurits. Það sé mat kærða að ekkert annað tæki sé betur til þess fallið að meta verðmæti starfa eins og starfsmatskerfið. Það hafi verið framkvæmt starfsmat á kjörum beggja þessara einstaklinga, tvívegis í tilviki samstarfsmanns kæranda, árin 2006 og síðar endurmat, og þrívegis í tilviki kæranda, upphaflega 2006, síðan 2008 og svo 2012. Starf samstarfsmanns kæranda hafi ekki verið metið að nýju þar sem hann hafi þegar fengið röðun samkvæmt háskólabókun og hafi því verið kominn út úr starfsmatskerfinu. Störf beggja aðila hafi þróast með hliðstæðum hætti, með tilliti til breytinga í starfsháttum, stjórnkerfisbreytinga, tækjabúnaðar og annarra undirliggjandi þátta. Niðurstöður hvers starfsmats hafi í öllum tilvikum verið samhljóða og hafi leitt af sér marktækan mun milli starfanna sem jafna megi til 7% launamunar samstarfsmanni kæranda til tekna. Ekkert bendi til þess að starf samstarfsmanns kæranda yrði ekki metið með sama mun og áður hafi verið sýnt fram á með málefnalegum hætti í niðurstöðum hvers starfsmats.
 12. Til viðbótar launamunar vegna eðlis starfanna samkvæmt niðurstöðu hinnar hlutlausu starfsmatsnefndar komi málefnalegur launamunur byggður á mismunandi menntun málsaðila. Það sé samfélagslega viðurkennd staðreynd, sem meðal annars birtist í mismunandi verðmæti kjarasamninga, að málefnalegur og réttlætanlegur munur sé milli háskólamenntaðra starfsmanna og þeirra sem ekki hafi háskólamenntun. Kærandi hafi, í starfi sínu sem [...] náð fram þeirri grundvallarhugsun fyrir háskólamenntaða félagsmenn sína að þeim sé raðað með sama hætti og samkvæmt kjarasamningi samtaka háskólamanna við kærða. Því sé ótækt annað en að ætla að marktækur, málefnalegur og réttlætanlegur munur sé á störfum þessara einstaklinga, samstarfsmanni kæranda til tekna, til viðbótar við réttlætanlegan launamun vegna eðlismunar starfanna.
 13. Kærði vísar til samantektar hagfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga á meðallaunum í dagvinnu fyrir hvert stöðugildi félagsmanns í Starfsmannafélagi Kópavogsbæjar í samanburði við meðallaun félagsmanns í aðildarfélagi Bandalags háskólamanna í mars 2013. Þar megi sjá launamun upp á nálega 62% sem sýni það og sanni að laun háskólamanna séu ákvörðuð hærri en þeirra sem hafi ekki háskólamenntun. Launamunurinn sé eðlilegur og sanngjarn í ljósi eðlismunar starfanna og menntunarmunar. Því sé fullyrðingu kæranda, sem byggð sé á greinargerð jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar, um að störfin séu jafn verðmæt alfarið hafnað. Þvert á móti hafi verið sýnt fram á að réttlætanlegur og eðlilegur munur sé á störfum og ákvörðun launa þeirra.
 14. Þá tekur kærði fram að kærandi hafi verið um langt skeið yfirborguð, langt umfram það sem hafi tíðkast í sambærilegum störfum. Sem dæmi um óréttmæta yfirborgun kæranda megi nefna að upphaflega hafi hún fengið greiddan bifreiðastyrk vegna aksturs frá vinnu upp í B þar sem hún hafi verið búsett. Fljótlega hafi hún flutt í C en hafi fengið greiddan bifreiðastyrk í allmörg ár eftir það. Í kjölfar efnahagsþrenginga þjóðarinnar hafi laun starfsmanna kærða verið tekin til endurskoðunar og hafi viðbótargreiðslur til kæranda verið færðar til samræmis við aðra starfsmenn kærða frá febrúar 2013. Enginn bifreiðastyrkur sé greiddur til starfsmanna nema þeirra sem ekki hafi aðgang að bifreiðum bæjarins en þurfi vinnu sinnar vegna að nota eigin bifreið á vinnutíma. Að mati kærða megi rekja upphaf þessa máls til óánægju kæranda með aðgerðir kærða að færa laun hennar niður til samræmis við félagsmenn hennar í sambærilegum störfum. Að teknu tilliti til starfsmatskerfisins og þeirrar grundvallarskoðunar sem laun kæranda hafi fengið þar sé það afstaða kærða að laun hennar séu rétt ákvörðuð. Laun fjölda starfsmanna hafi verið ákvörðuð á grundvelli starfsmats og starfsmatskerfið hafi nánast útrýmt óútskýrðum kynbundnum launamun hjá kærða. Það væri því kærða þvert um geð ef í ljós kæmi að áðurnefndur launamunur væri ekki að fullu réttlætanlegur og kærði þyrfti að endurskoða laun samstarfsmanns kæranda til mögulegrar lækkunar.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA
 15. Kærandi tekur fram að í greinargerð kærða sé skautað framhjá aðalatriðum málsins. Kærði rökstyðji til dæmis ekki hvers vegna álit sérstaks jafnréttisráðgjafa bæjarins verði ekki lagt til grundvallar. Erfitt sé að átta sig á þýðingu þeirra gagna sem hafi verið meðfylgjandi greinargerðinni þar sem þau séu flest óundirrituð og ekki sé vísað til þeirra í greinargerðinni. Gagnaframlagningu sé því mótmælt og byggir kærandi á því að gögnin hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls.
 16. Kærandi telur staðhæfingar kærða um meint tómlæti haldlausar. Staða kæranda hjá Starfsmannafélagi Kópavogs geti ekki haft áhrif á störf hennar og laun hjá kærða eða lögbundinn frest samkvæmt lögum nr. 10/2008. Staðreyndin sé sú að samstarfsmaður kæranda sé með hærri laun en hún þrátt fyrir að gegna jafnverðmætu starfi í skilningi 19. gr. laga nr. 10/2008. Ástand, sem flokkist sem brot gegn lögum nr. 10/2008, sé því enn við lýði hjá kærða með þeim réttaráhrifum að lögbundinn frestur sé ekki byrjaður að líða.
 17. Kærandi mótmælir að starfsmat hafi leitt af sér marktækan mun milli starfa málsaðila. Starfsmatið beri með sér að enginn munur sé á milli umræddra starfa. Starf kæranda hafi ekki verið endurmetið á árinu 2012 eins og staðhæft sé í greinargerð kærða. Að minnsta kosti hafi hvorki verið haft samband við kæranda vegna starfsmatsins né reki kæranda minni til að niðurstaða þess hafi verið tilkynnt með formlegum hætti. Í endurmatinu frá 2008 hafi starf kæranda verið metið til 516 stiga en starf samstarfsmanns hennar til 529 stiga. Munurinn, 13 stig, hafi ráðist af því að kærandi hafi fengið 26 stig fyrir ábyrgð og stjórnun en samstarfsmaður hennar 52 stig fyrir sama lið. Kærandi hafi hins vegar fengið 52 stig fyrir samskipti en samstarfsmaður hennar aðeins 39 stig fyrir sama lið. Það liggi fyrir að samstarfsmaður kæranda hafi ekki verið með mannaforráð frá árinu 2011, eins og vísað sé til í áliti jafnréttisráðgjafa Kópavogs. Starfsmat samstarfsmanns kæranda gefi því ekki rétta mynd af starfi hans þar sem gefin séu of mörg stig fyrir ábyrgð á stjórnun. Það megi því færa rök fyrir því að starf kæranda yrði í dag metið til fleiri stiga en starf samstarfsmanns hennar þar sem þau myndu fá jafn mörg stig fyrir ábyrgð á stjórnun en kærandi myndi fá fleiri stig fyrir samskipti. Starfsmatið réttlæti því ekki hærri laun samstarfsmanns kæranda eins og byggt sé á af hálfu kærða.
 18. Kærandi tekur fram að mismunandi menntun kæranda og samstarfsmanns hennar réttlæti ekki umræddan launamismun. Í greinargerð kærða sé staðhæft að ekkert annað tæki sé betur til þess fallið að meta verðmæti starfa eins og starfsmatskerfið. Starfsmat kæranda og samstarfsmanns kennar liggi fyrir og þar fái þau jafn mörg stig fyrir þekkingu, hugræna færni og hugrænar kröfur. Þá sé staðhæft í greinargerð kærða að kærandi sé sérfræðingur á sviði launamála. Að þessu virtu sé augljóst að mismunandi menntun þeirra geti ekki réttlætt umræddan launamismun. Svokölluð háskólabókun í kjarasamningi réttlæti heldur ekki hærri laun þar sem kjarasamningar geti ekki, einir og sér, réttlætt launamun karla og kvenna, sbr. álit kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 5/2000.
 19. Þá tekur kærandi fram að rökstuðningur kærða um að kærandi hafi verið yfirborguð gefi til kynna að kærði telji sig geta endurkrafið kæranda um meinta yfirborgun. Slíkur málatilbúnaður sæti furðu. Í fyrsta lagi sé því mótmælt að kærandi hafi fengið óréttmæta yfirborgun. Í öðru lagi teljist svokallaðar akstursgreiðslur ekki laun heldur endurgreiðsla á útlögðum kostnaði. Í þriðja lagi gildi sú meginregla í vinnurétti að vinnuveitandi geti ekki endurheimt ofgreidd laun. Meginreglan sé staðfest í mörgum dómum Hæstaréttar, t.d. H 32/2007 og H 1973, bls. 552. Meint yfirborgun réttlæti því ekki hinn umdeilda launamun. Kærði hafi ekki brugðist við áliti jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir af hálfu kæranda og ekki virt veitta fresti kærunefndar jafnréttismála í málinu til að skila greinargerð. Málsmeðferð kærða brjóti því augljóslega gegn 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og grunnreglu stjórnsýsluréttarins um hraða málsmeðferð.

  NIÐURSTAÐA
 20. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 21. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 skulu erindi berast kærunefnd jafnréttismála skriflega innan sex mánaða frá því að ástandi sem talið er brot á lögunum lauk. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til umfjöllunar þótt liðinn sé framangreindur frestur, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Óumdeilt er með aðilum að launamunur sé milli launa kæranda og þess sem hún ber sig saman við. Deilt er á hinn bóginn um hvort sá launamunur sé réttlætanlegur. Ástand það sem kærandi byggir kæru sína á er þar með ekki lokið í skilningi 3. mgr. 6. greinar laganna. Verður kærunni því ekki vísað frá á þeim grunni sem kærði byggir á.
 22. Kærandi kærir ætlaðan mismun á launakjörum milli hennar og annars launafulltrúa en þau starfa bæði á menntasviði kærða. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ákvörðun grunnlauna kæranda frá og með 1. janúar 2013. Við úrlausn þess hvort störf teljist jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga verður að byggja á heildstæðu mati. Geti þannig verið um slík störf að ræða þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og að þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar.
 23. Eins og áður gat er óumdeilt að munur er á launum kæranda og karlmanns sem hún ber sig saman við. Kærði byggir á því að sá munur sé byggður á málefnalegum forsendum og að störfin sem um ræði séu ekki jafn verðmæt í skilningi laga nr. 10/2008. Færð hafa verið fram af hans hálfu þrenns konar rök í þessum efnum; að launamunur réttlætist af mismunandi starfsmati, mismunandi menntunarstigi og eigi sér sögulegar rætur.
 24. Kærði byggir á að launamunur sem nemur 7% stafi af mismunandi eðli starfanna samkvæmt niðurstöðu starfsmats sem kærði hagnýti meðal annars til þess að uppræta óútskýrðan kynbundinn launamun en hagnýting þess hafi leitt til þess að munur af þessu tagi sé einna lægstur opinberra aðila hjá kærða. Kærandi á hinn bóginn er ósammála því að mismunandi niðurstaða starfsmatsins réttlæti mun. Starfsmatið beri með sér að enginn munur sé á milli umræddra starfa. Sá munur sem hafi verið milli kæranda og þess sem hún ber sig saman við sé ekki réttlætanlegur þar sem stigagjöf hans vegna matsþáttar er laut að ábyrgð og stjórnun sem var ríflega tvöfalt hærri en kæranda eigi vart lengur við rök að styðjast enda fari samstarfsmaður hennar ekki með nein mannaforráð eins og staðfest hafi verið í áliti jafnréttisráðgjafa kærða. Þau fái að auki jafn mörg stig fyrir þekkingu, hugræna færni og hugrænar kröfur.
 25. Af gögnum málsins má ráða að störf kæranda og þess karlmanns, sem hún ber sig saman við, séu sambærileg. Lýsing á starfi kæranda frá 30. janúar 2012 er að mati kærunefndar keimlík lýsingu á starfi karlmannsins frá 16. desember 2011. Helstu verkefni samkvæmt þessum starfslýsingum eru sambærileg og felast í eftirliti með rekstri undirstofnana, launaútreikningum og ráðgjöf. Þá er staða starfanna innan stjórnskipulags kærða hin sama.
 26. Kærunefnd telur að starfsmat sem kærði vísar til breyti ekki þeirri niðurstöðu að ætla verði að um sambærileg störf sé að ræða. Í fyrsta lagi er niðurstaða úr mati á starfi kæranda og karlmanns sem hún ber sig saman við því sem næst hin sama; 516 stig í tilviki kæranda, 529 stig í tilviki karlmannsins. Í öðru lagi er mat á starfi karlmannsins gamalt, eða frá árinu 2008 og því undir hælinn lagt hvort sama niðurstaða fengist úr starfsmati í dag, sex árum síðar. Í þriðja lagi liggja fyrir upplýsingar í málinu um að eðli starfs karlmannsins hafi breyst frá því síðasta starfsmat fór fram, með þeim hætti að mannaforráð felist ekki lengur í starfinu. Þar af leiðandi í það minnsta má vænta að starfsmat sem framkvæmt væri nú myndi sýna lægri niðurstöðu. Af þeim matsþáttum sem gerð er grein fyrir af hálfu málsaðila verður því ekki ráðið að unnt sé að slá því föstu að eðlismunur sé milli þeirra tveggja starfa sem til skoðunar eru. Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærði í máli þessu hafi ekki nægjanlega sýnt fram á að umrædd störf teljist ósambærileg í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 27. Á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 hvílir sönnunarbyrði á atvinnurekanda um það að launamunur á milli kynja í sambærilegu starfi skýrist af öðrum þáttum en kynferði. Kærði hefur haldið því fram að háskólamenntun karlmannsins skýri fyrirliggjandi launamun. Byggir kærði á því að það sé samfélagslega viðurkennd staðreynd, sem meðal annars birtist í mismunandi verðmæti kjarasamninga, að málefnalegur og réttlætanlegur launamunur sé milli háskólamenntaðra starfsmanna og þeirra sem ekki hafi háskólamenntun. Kærandi hafi, í starfi sínu sem [...] náð fram þeirri grundvallarbreytingu fyrir háskólamenntaða félagsmenn sína, að þeim sé raðað með sama hætti og samkvæmt kjarasamningum Bandalags háskólamanna við kærða. Þessu hafi verið náð fram með svonefndri háskólabókun. Bókun þessi fólst í yfirlýsingu sem kærði gaf út í tilefni kjarasamningsgerðar á árinu 2005. Í henni fólst að launaþróun og launasamsetning háskólamenntaðra starfsmanna Starfsmannafélags Kópavogsbæjar ætti að vera með sambærilegum hætti og hjá þeim stéttarfélögum sem þeir myndu ella tilheyra. Til að ná þessu markmiði átti samkvæmt yfirlýsingunni að stofna starfshóp með aðkomu stéttarfélagsins sem átti að taka mið af niðurstöðu starfsmats, fyrirkomulagi fastrar yfirvinnu og niðurstöðu kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaganna við viðkomandi stéttarfélag.
 28. Sá sem kærandi ber sig saman við tók í kjölfarið laun samkvæmt kjarasamningi Huggarðs, sem er félag innan Bandalags háskólamanna. Á hinn bóginn á kjarasamningur Starfsmannafélags Kópavogsbæjar við um laun kæranda. Að mati kæranda réttlætir mismunandi menntun ekki launamismun. Kærandi er með Diplóma í viðskiptafræði frá Háskólanum á D en sá sem hún ber sig saman við er með BA-gráðu í sagnfræði auk þess að njóta kennsluréttinda og hafa lokið 40 einingum í viðskiptafræði. Menntun þess sem kærandi ber sig saman við er því óumdeilanlega meiri en kæranda og vegna háskólagráðu hans fellur hann undir afmörkun svonefndrar háskólabókunar og nýtur því kjara í samræmi við kjarasamning Huggarðs.
 29. Slík afmörkun, með hliðsjón af mismunandi kjarasamningsaðild, getur ein og sér ekki réttlætt launamun karla og kvenna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 255/1996 sem kveðinn var upp 13. mars 1997 og birtur er í dómasafni réttarins 1997, bls. 1008. Að mati kærunefndar ber kærða því að sýna fram á að hin aukna menntun karlmannsins nýtist í starfinu og réttlæti þar af leiðandi hærri laun en kæranda eru greidd. Kærði hefur ekki axlað þá sönnunarbyrði. Þá liggur heldur ekkert fyrir um að háskólamenntun karlmannsins, sem kærandi ber sig saman við, leiði til þess að hann teljist verðmætari starfskraftur en kærandi og þar með að hærri launagreiðslur til hans réttlætist af því. Launamunur milli kæranda og þess karlmanns sem hún ber sig saman við verður því ekki réttlættur með mismunandi menntunarstigi.
 30. Ekki verður séð af málatilbúnaði kærða að hann réttlæti mishá laun kæranda og þess karlmanns sem hún ber sig saman við af öðru en menntunarstigi þeirra og starfsmati. Kærði hefur hins vegar vísað til þess í málatilbúnaði sínum að launamunur þeirra á milli eigi sér sögulegar skýringar.
 31. Um árabil mun ekki hafa verið munur á heildarlaunum kæranda og þess sem hún ber sig saman við. Kærandi mun hafa notið aksturspeninga sem upphaflega mun hafa verið samið um vegna búsetu út á landi. Þær greiðslur munu hins vegar ekki hafa verið felldar niður þó kærandi flytti til höfuðborgarsvæðisins. Kærði felldi þessar greiðslur niður einhliða í lok árs 2012. Kærði byggir á því að þessar greiðslur til kæranda hafi verið færðar til samræmis við aðra starfsmenn kærða en það fól í sér lækkun heildarlauna kæranda.
 32. Við mat á því hvort launamuni sé til að dreifa ber að horfa til heildarkjara, sbr. 8. og 9. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 10/2008. Ekki nægir að horfa einvörðungu til grunnlauna, sem oft geta verið sambærileg ef horft er framhjá öðrum kjörum, svo sem akstursgreiðslum enda slíkar greiðslur ekki endurgreiðsla útlagðs kostnaðar nema hagnýta þurfi eigin bifreið við störf. Ekki liggur fyrir að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 gagnvart kæranda á meðan heildarlaun kæranda voru af framangreindum ástæðum hærri en heildarlaun þess karlmanns sem hún ber sig saman við.
 33. Þó fyrir liggi að launalækkun kæranda í byrjun árs 2013 stafi af öðru en kynferði er ekki þar með unnt að ganga út frá því að sá launamunur, sem í dag er á milli hennar og karlmanns sem hún ber sig saman við, sé lögmætur. Launamunurinn kemur nú fram í mismunandi grunnlaunum, en óumdeilt er að kærandi er nú einnig með lægri heildarlaun er karlmaðurinn. Launamun þessum verður ekki eytt með lækkun launa karlmannsins eins og kærði hefur hreyft þar sem laun hans eru í samræmi við kjarasamning en samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar samrýmast ekki 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og eru ógildir. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Með hliðsjón af þeirri forsendu að störf kæranda og þess karlmanns sem hún ber sig saman við eru sambærileg og að mismunandi menntunarstig þeirra réttlæti ekki mishá laun er það niðurstaða kærunefndar að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að launamunurinn skýrist af öðru en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008.
 34. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi frá 1. janúar 2013 brotið gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launa kæranda.
 35. Með hliðsjón af atvikum málsins og með vísan til 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 telur kærunefnd rétt að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi og þykir hann hæfilega metinn 300.000 krónur.


Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Kópavogsbær, braut gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launakjara kæranda sem tók gildi 1. janúar 2013.

Kærði greiði kæranda, A, 300.000 krónur í málskostnað.

 

Björn L. Bergsson

Grímur Sigurðsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira