Hoppa yfir valmynd
20. október 2014 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2014

 Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 A

gegn

Akureyrarbæ

 

Kærði auglýsti eftir sumarstarfsmönnum til starfa á leikskólum bæjarins. Kærandi, sem er karlmaður, taldi að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða fjórar konur til starfa á einum leikskólanna. Kærunefnd tók fram að kærði hafi ekki raðað umsækjendum í hæfnisröð með tilliti til menntunar er tengist starfi með börnum eða með tilliti til reynslu af þeim störfum en hafi þess í stað kosið að byggja ráðningu einkum á umsögnum meðmælenda ásamt frammistöðu í starfsviðtali. Taldi nefndin að verulega skorti á það að kærði hafi stutt ákvörðun sína viðhlítandi gögnum og að með ráðningu kvennanna hefði verið brotið gegn 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., laganna.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 20. október 2014 er tekið fyrir mál nr. 3/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 26. maí 2014, kærði kærandi þá ákvörðun kærða að ráða fjórar konur í sumarstörf við einn af leikskólum bæjarins. Kærandi telur að með ráðningunum hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 2. júní 2014. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 6. júlí 2014, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. júlí 2014.
 4. Kærunefndinni barst þann 23. júlí 2014 bréf kæranda með athugasemdum við greinargerð kærða og var það kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 7. ágúst 2014. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 15. ágúst 2014, var kæranda tilkynnt að kærði hefði fengið frest til 1. september 2014 til að skila inn athugasemdum vegna bréfs kæranda. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 1. september 2014, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 11. september 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni 25. september 2014 og voru þær sendar kærða til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 30. september 2014. Frekari athugasemdir kærða bárust kærunefndinni 17. október 2014 og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 20. október 2014.
 5. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR
 6. Með auglýsingu er birtist 19. febrúar 2014 auglýsti kærði sumarstörf við leikskóla bæjarins og rann umsóknarfrestur út þann 5. mars s.á. Í auglýsingu kom fram að óskað væri eftir sumarstarfsfólki til að vinna með börnum á leikskólaaldri, aðstoða á deildum og vinna önnur tilfallandi verkefni. Viðkomandi taki þátt í uppeldi og menntun barnanna ásamt því að fylgjast vel með velferð þeirra. Þá hlúi viðkomandi að þeim andlega og líkamlega í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins svo að þau njóti sín sem einstaklingar. Í auglýsingunni voru kröfur til umsækjenda jafnframt skilgreindar svo: Óskað var eftir sjálfstæðum, ábyrgum og jákvæðum einstaklingum sem ættu auðvelt með mannleg samskipti og væru tilbúnir að takast á við skemmtilegt starf með börnum. Reynsla af starfi með börnum var talin mjög æskileg og að vera í námi tengdu starfi með börnum var talinn kostur. Gerð var krafa um tuttugu ára aldurstakmark, um vammleysi, svo sem að vera með gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmdust starfinu.
 7. Alls bárust 74 umsóknir um sumarstörf á leikskólum kærða. Umsóknum var skipt í fjóra hluta og unnið úr einum þeirra vegna ráðningar á þeim tiltekna leikskóla er mál þetta varðar. Voru átta umsækjendur boðaðir í viðtal vegna starfa þar og var kærandi einn þeirra. Að því loknu var ákveðið að bjóða fjórum konum sumarstörf.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA
 8. Kærandi greinir frá því að hann sé með BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum og stundi nám í kennslufræði við Háskólann B. Hann telur sig hafa verið hæfari til starfsins en þær er ráðnar voru, en eingöngu einn af öðrum umsækjendum hafi lokið námi á háskólastigi.
 9. Kærandi kveðst hafa óskað eftir skýringum eftir að hafa fengið neitun við umsókn sinni. Hann hafi fengið skýringar en þegar hann hafi óskað eftir frekari skýringum hafi honum verið gefnar upp aðrar ástæður en í fyrra svari.
 10. Kærandi kveður að samnemandi hans hafi verið ráðin til starfa hjá kærða en hún sé með sömu menntun og hann og þau stefni bæði á kennslu í framhaldsskólum. Kærandi telur sig og samnemanda sinn vera jafnhæf til að sinna starfinu þar sem þau séu með sambærilega menntun. Einungis ein af hinum þremur konunum hafi lokið háskólanámi og því sé hann hæfari vegna menntunar sinnar.
 11. Kærandi segist hafa fengið þær upplýsingar að hann hafi ekki fengið starf þar sem hann væri að sérhæfa sig í framhaldsskólakennslu. Þeir sem hafi verið ráðnir séu með reynslu af starfi í leikskóla og/eða í leikskólakennaranámi. Kærandi hafi óskað eftir frekari útskýringum en fengið þær upplýsingar að aðrir umsækjendur hefðu fengið betri meðmæli en hann og það væri ástæða þess að hann hafi ekki verið ráðinn. Kærandi kveðst hafa fengið það staðfest hjá einum meðmælanda sinna að ekki hafi verið haft samband við hann og því sé ljóst að ekki hafi verið haft samband við alla meðmælendur.
 12. Kærandi upplýsir að margar spurningar hafi vaknað hjá sér varðandi vægi meðmælenda í ákvörðun um ráðninguna en kærandi telur að sá þáttur eigi ekki að ráða því hvort einstaklingur sé ráðinn til vinnu, sérstaklega í ljósi þess að ekki hafi verið gerð krafa um meðmælendur í auglýsingunni.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA
 13. Í athugasemdum kærða vegna kærunnar er vísað til auglýsingar vegna sumarstarfa á leikskólum sveitarfélagsins. Þar hafi ekki verið gerð krafa um menntun en að nám tengt börnum hefði verið kostur og reynsla aðeins talin æskileg. Hins vegar hafi það verið sett sem skilyrði að viðkomandi væri sjálfstæður, ábyrgur, jákvæður, ætti auðvelt með mannleg samskipti og væri tilbúinn að takast á við skemmtilegt starf með börnum. Hæfniskröfurnar hafi verið settar eftir reynslu við sumarráðningar undanfarinna ára og út frá því hvað leikskólastjórar teldu best samrýmast þeim kröfum sem gerðar séu til ófaglærðra sumarstarfsmanna.
 14. Í svari kærða kemur fram að leikskólar sveitarfélagsins hafi auglýst sameiginlega eftir sumarstarfsmönnum en leikskólafulltrúi á skóladeild hafi flokkað umsóknirnar. Alls hafi borist 74 umsóknir og við fyrstu skoðun hafi 38 umsækjendur uppfyllt hæfniskröfur en við val á þeim hafi verið horft til þess hvort umsækjendur væru í námi sem tengdist börnum og/eða hefðu reynslu af starfi með börnum. Leikskólastjórar hafi skipt með sér umsóknum og á leikskólanum C hafi átta umsækjendur verið boðaðir í viðtal, þar á meðal kærandi. Kærði bendir á að ekki sé gerð krafa um menntun starfsmanna í sumarafleysingum og því hafi þeir sem hafi lokið námi tengdu börnum staðið jafnfætis þeim sem hafi verið í slíku námi.
 15. Kærði greinir frá því að í viðtölum umsækjenda hafi verið horft til hæfnisþátta um sjálfstæði, ábyrgð, jákvæðni, mannleg samskipti og að þeir væru tilbúnir að vinna með börnum. Sá þáttur sé matskenndur en litið hafi verið til umsagna frá fyrri vinnuveitendum sem hafi verið aflað eftir á og kannað hvort þær umsagnir væru í samræmi við upplifun af umsækjanda í viðtali þar sem hafi verið stuðst við staðlaðar spurningar og svör skráð niður.
 16. Kærandi hafi verið boðaður í viðtal þar sem hann hafi lokið grunnprófi í uppeldis- og kennslufræði, hafi haft þriggja til fjögurra mánaða reynslu af starfi uppeldisfræðings við leikskóla, reynslu af starfi sem leiðbeinandi á leikskólum og hafi verið í námi í kennslufræði. Þeir sem hafi verið ráðnir til starfa hafi verið í námi í tómstunda- og félagsfræði, kennslufræði, leikskólakennarafræði og uppeldis- og menntunarfræðum en reynsla þeirra af starfi með börnum hafi verið mismikil. Áður en til viðtalanna hafi komið hafi kærandi og þeir umsækjendur, sem hafi verið ráðnir, staðið jafnfætis gagnvart því að reynsla væri æskileg og/eða að vera í námi tengdu starfi með börnum.
 17. Kærði tekur fram að umsagna hafi aðeins verið aflað símleiðis og því hafi ekki gefist tækifæri til að veita andmælarétt vegna neikvæðra umsagna. Umsagnir hafi því ekki beint verið lagðar til grundvallar ákvörðun um ráðningu heldur hafðar til hliðsjónar eftir upplifun í viðtali en í öllum tilvikum hafi umsagnir stutt þá upplifun. Kærandi hafi komið illa út úr þeim mannlegu þáttum sem hafi verið metnir í viðtali og fengið nokkuð neikvæðar umsagnir. Þeir sem hafi verið ráðnir hafi allir komið mjög vel út úr viðtali og fengið jákvæðar umsagnir. Að því virtu hafi þessir fimm umsækjendur ekki lengur verið jafnhæfir og því hafi ekki þurft að grípa til þess að ráða karl með vísan til kynjahlutfalla á leikskólanum.
 18. Kærði telur að jafnréttislög og jafnréttisstefna sveitarfélagsins hafi ekki verið brotin við ráðningu fjögurra sumarstarfsmanna við leikskólann. Sveitarfélaginu hafi verið heimilt að ákveða hvaða sjónarmið væru lögð til grundvallar ákvörðun um ráðningu enda sé ekki mælt fyrir um sérstök hæfisskilyrði sumarstarfsmanna á leikskólum í lögum eða reglum, nema hvað varðar hreint sakavottorð. Kærði bendir á að leikskólastjórar hafi komið sér saman um að persónubundnir matsþættir væru það sem skipti mestu máli við að greina endanlega á milli þeirra sem hafi sótt um störf, enda hafi nám tengt börnum aðeins verið æskilegt og reynsla aðeins kostur.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA
 19. Kærandi tekur fram að í greinargerð kærða sé ekki greint frá upphaflegri ástæðu þess að hann hafi ekki verið ráðinn, sem hafi verið tilgreind sú að hann væri að sérhæfa sig í framhaldsskólakennslu og að þeir er ráðnir hafi verið væru með reynslu úr starfi í leikskóla eða í leikskólakennaranámi. Eingöngu sé greint frá þeim skýringum sem hann hafi fengið eftir að hann hafi óskað eftir frekari rökstuðningi.
 20. Að mati kæranda séu þau gögn sem kærði hafi lagt fram ekki fullnægjandi, til að mynda komi ekki fram hvaða meðmælanda hafi verið rætt við vegna umsóknar hans líkt og hjá öðrum umsækjendum. Kærandi hafi athugað málið og ljóst sé að stjórnendur leikskólans hafi fengið umsögn um sig frá aðila sem ekki hafi verið tilgreindur sem meðmælandi. Kærandi ítrekar að hann telur sig hæfari en þá umsækjendur sem hafi hvorki lokið uppeldistengdu námi né hafi jafnmikla reynslu af starfi með börnum líkt og hann. Þá telur kærandi vinnubrögð stjórnenda leikskólans ámælisverð og að ummæli er rituð séu um hann séu meiðandi og ekki studd rökum né gögnum. 
 21. Í viðbótarathugasemdum kæranda bendir hann á að kærði hafi ekki gefið skýringar á því að enn vanti gögn sem stjórnendur leikskólans hafi haft undir höndum, meðal annars ferilskrá hans sem hafi fylgt með umsókn hans um starfið. Þá tekur kærandi fram að kærði hafi ekki gefið svar við þeim spurningum sem hann hafi sett fram með bréfi til kærunefndarinnar. 

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA
 22. Kærði tekur fram að auglýst hafi verið eftir ófaglærðum sumarstarfsmanni í afleysingar og því hafi ekki verið gerð krafa um menntun en að nám tengt börnum hafi verið kostur. Ef umsækjandi með menntun hefði verið ráðinn hefði hann þar af leiðandi ekki fengið menntun sína metna að þessu leyti. Því hafi þeir sem hafi lokið námi tengdu börnum staðið jafnfætis þeim sem hafi verið í slíku námi Kærandi hafi því ekki haft forskot á aðra umsækjendur þrátt fyrir menntun hans.
 23. Þegar auglýst sé eftir ófaglærðum starfsmanni sé ljóst að laun séu ekki greidd samkvæmt fagfélagi háskólamenntaðra starfsmanna en það hafi hins vegar ekkert að gera með hverjir séu valdir í starf ófaglærðra. Á tímum atvinnuleysis í einstaka fagstéttum sé ljóst að fjöldi fagmenntaðra kjósi að ráða sig til starfa þar sem auglýst sé eftir ófaglærðum til að öðlast reynslu. Að auglýsa eftir ófaglærðum í sumarafleysingar á leikskóla sé því val vinnuveitanda og ráðist meðal annars af fjárhagsstöðu, svo framarlega sem kvóti leikskólakennara sé uppfylltur í hverjum leikskóla fyrir sig. 
 24. Kærði greinir frá því að kærandi hafi staðið jafnfætis þeim sem hafi verið ráðnir til starfa fram að ráðningarviðtali. Það hafi því verið hinir mannlegu þættir sem voru metnir í viðtali sem hafi skorið úr um hverjir hafi fengið starfið. Þegar búið hafi verið að þrengja hóp umsækjenda hafi endanleg ákvörðun fyrst og fremst verið byggð á upplýsingum úr viðtölum við þá umsækjendur. Upplýsingarnar hafi verið skráðar jafnóðum í viðtölunum ásamt mati/upplifun af umsækjendum eftir viðtalið. Mat á umsækjendum hafi því verið lögmætt, málefnalegt og forsvaranlegt. Reynsla hafi aðeins verið metin sem kostur í auglýsingu og því hafi reynsla kæranda ekki skorið úr um hver væri hæfastur í starfið.
 25. Kærði tekur fram að kærandi hafi gefið upp nafn leikskólastjóra á tilteknum leikskóla í starfsumsókn sinni. Það hafi verið hringt í viðkomandi og hún hafi gefið upplýsingar um kæranda en það hafi farist fyrir að skrifa nafn hennar á upplýsingablað þegar símtalið hafi átt sér stað. Kærði kunni enga skýringu á því að umsagnaraðili kannist ekki við að hafa veitt umsögn.
 26. Kærði mótmælir því að leikskólastjóri hafi verið tvísaga í rökstuðningi en svar hans í tölvupósti 2. apríl 2014 sé ekki eiginlegur rökstuðningur og uppfylli á engan hátt þær kröfur sem gerðar séu til rökstuðnings samkvæmt 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, enda hafi svör verið send samdægurs samkvæmt minni. Hinn eiginlegi rökstuðningur hafi verið veittur með bréfi dagsettu 15. apríl 2014.
 27. Í viðbótarathugasemdum kærða er greint frá því að um mannleg mistök hafi verið að ræða varðandi þau gögn sem ekki hafi borist kærunefndinni. Þau mistök hafi verið leiðrétt og ekki verði séð að það hafi áhrif á framgang málsins.
 28. Kærði greinir frá því að það hafi verið mat ráðningaraðila að stefnuleysi kæranda og að það tæki hann tíma að koma sér inn í mál væru ókostir þar sem um sumarafleysingastarf hafi verið að ræða og mikið reyndi á að sumarafleysingastarfsmenn væru fljótir að átta sig á starfsemi leikskólans. Það hafi verið mat ráðningaraðila að aðrir umsækjendur hefðu þá kosti fram yfir kæranda. Varðandi spurningu ráðningaraðila um hvort kærandi hafi lokið námi í leikskólakennarafræðum tekur kærði fram að ráðningaraðilar hafi eingöngu verið að rita sér til minnis að skoða betur umsóknargögn en það hafi ekki haft áhrif á ráðninguna. Þá hafi spurning ráðningaraðila um hvort kærandi hafi lokið ritgerð í BA-námi í uppeldis- og menntunarfræðum einnig verið skráð til minnis eftir vangaveltur umsagnaraðilans sem kærandi hafi bent á. Þær vangaveltur hafi ekki haft áhrif á ráðninguna enda hafi legið fyrir staðfesting á því að kærandi hafi lokið náminu.

  NIÐURSTAÐA
 29. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 30. Kærði auglýsti eftir sumarstarfsfólki til starfa við leikskóla bæjarins þann 5. mars 2014. Störfin fólu í sér vinnu með börnum á leikskólaaldri, aðstoð á deildum og önnur tilfallandi verkefni, viðkomandi skyldi taka þátt í uppeldi og menntun barnanna, fylgjast með velferð þeirra og hlúa að þeim andlega og líkamlega í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins. Hlutlægar kröfur sem tilgreindar voru í auglýsingu voru þær að viðkomandi skyldi hafa náð 20 ára aldri, reynsla af starfi með börnum væri mjög æskileg og að það að vera í námi tengdu starfi með börnum væri kostur. Auk þessa var tiltekið að óskað væri eftir sjálfstæðum, ábyrgum og jákvæðum einstaklingum, mikilvægt væri að einstaklingar ættu auðvelt með mannleg samskipti og væru tilbúnir til að takast á við skemmtilegt starf með börnum, auk þess sem gerð væri krafa um vammleysi, gott orðspor og að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmdust starfinu.
 31. Fyrir liggur að allir umsækjendur er uppfylltu þær kröfur að vera í námi sem tengdist börnum og/eða hefðu reynslu af starfi með börnum voru kallaðir í viðtal, alls 38 umsækjendur af þeim 74 sem sóttu um starf. Umsóknum var skipt í fjóra hluta og unnið úr einum þeirra vegna ráðningar á þeim tiltekna leikskóla er mál þetta varðar. Voru átta umsækjendur boðaðir í viðtal vegna starfa þar og var kærandi einn þeirra.
 32. Í umsókn kæranda um starf við leikskóla hjá kærða er tiltekið að hann hafi reynslu af starfi með börnum yngri en sex ára í tvö og hálft ár, nánar tiltekið að hann hafi starfað sem uppeldisfræðingur á leikskóla í fjóra mánuði, sem aðstoðarmaður uppeldisfræðings (d. pedagog medhjælper) í eitt ár og sem leiðbeinandi á leikskóla í eitt ár og fjóra mánuði. Af umsóknum þeirra fjögurra er voru ráðnar í störf á þeim leikskóla er mál þetta varðar verður ráðið að tvær þeirra hafi ekki haft reynslu af starfi með börnum. Í umsókn þeirrar þriðju er tiltekið að hún hafi starfað í þrjá mánuði sem leiðbeinandi á leikskóla, auk þess að hafa starfað tvö sumur og einu sinni í jólafríi í slíku starfi. Í umsókn þeirrar fjórðu er getið um reynslu af starfi í leikskóla eitt sumar. Er því ljóst að reynsla kæranda af starfi með börnum var umtalsvert meiri en allra kvennanna auk þess sem fyrir liggur að tvær þeirra bjuggu ekki að slíkri reynslu.
 33. Þegar kærandi sótti um það starf sem um ræðir hafði hann lokið BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum og stundaði nám í kennslufræði við háskóla. Ein þeirra fjögurra er var ráðin í starf hjá kærða stundaði háskólanám (grunnnám) í tómstunda- og félagsmálafræði, önnur stundaði leikskólakennaranám, sú þriðja stundaði nám (grunnnám) í kennslufræði og sú fjórða stundaði háskólanám (grunnnám) í uppeldis- og menntunarfræði. Því liggur fyrir að kærandi hafði meiri menntun en allar þær fjórar er ráðnar voru til starfa.
 34. Eftir að kærandi hafði óskað rökstuðnings fyrir ráðningunni sendi kærði rökstuðning í tvennu lagi, fyrst með tölvupósti skólastjóra leikskólans þann 2. apríl 2014 og síðan með bréfi 15. apríl 2014. Samkvæmt tölvuskeytinu fólst rökstuðningur í því að kærandi væri að sérhæfa sig í framhaldsskólakennslu en þær er ráðnar hefðu verið væru með reynslu úr starfi í leikskóla og/eða í leikskólakennaranámi. Í bréfinu kom fram að þær er ráðnar hefðu verið hefðu samkvæmt umsókn reynslu sem nýttist í starfi ásamt því að hafa afar góð meðmæli frá fyrri vinnuveitendum, þær hefðu verið hæfastar af umsækjendum.
 35. Af skýringum kærða má ráða að hann hafi ekki raðað umsækjendum í hæfnisröð með tilliti til menntunar né reynslu er tengist starfi með börnum eins og þó hafði í auglýsingu verið lögð áhersla á að væri æskileg. Þess í stað kaus kærði að byggja ráðningu fyrst og fremst á umsögnum meðmælenda ásamt frammistöðu í einu viðtali. Þau gögn er liggja til grundvallar ákvörðun kærða eru listi með spurningum til umsækjenda er beint var til þeirra í viðtali og svörum sem þær er viðtölin tóku skráðu niður, ásamt skriflegri samantekt úr viðtölunum, en samantektin var unnin af þeim er viðtölin tóku. Jafnframt liggur fyrir svipaður spurningalisti með svörum meðmælenda, en leikskólastjóri mun hafa skráð svörin niður eftir meðmælendum í símaviðtölum. Með hliðsjón af því að kærandi hafði bæði lengri starfsreynslu og meiri menntun á því sviði sem um ræðir og að teknu tilliti til þess að eingöngu tveir af 40 starfsmönnum leikskólans á þessum tíma voru karlmenn, var nauðsynlegt að fyrir lægju frekari gögn er byggja mætti á mat á hinum mjög svo huglægu þáttum. Í málinu liggja engin gögn fyrir er stafa frá meðmælendum sjálfum og engar skýringar á því hvers vegna ekki var aflað umsagnar frá fleiri umsagnaraðilum kæranda en slíkt verður að teljast brýnt í ljósi þess að ákveðið var að ráða aðra umsækjendur, framar kæranda, sem þó voru með minni menntun og reynslu af störfum með börnum. Skortir því verulega á það að kærði hafi stutt ákvörðun sína viðhlítandi gögnum. Verður því ekki talið að honum hafi tekist að sýna að aðrar ástæður en kyn kæranda hafi legið til grundvallar ákvörðun um að hafna umsókn hans, sbr 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.
 36. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  
Ú r s k u r ð a r o r ð

Akureyrarbær braut gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu sumarstarfsmanns á leikskólann C vorið 2014.

 

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira