Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir Menntaskólann á Egilsstöðum

Árni Ólason skólameistari ME, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Bergþóra Hlín Arnórsdóttir áfangastjóri ME. - mynd
Mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Menntaskólann á Egilsstöðum í morgun, en fullt staðnám hófst í skólanum í vikunni. Menntaskólinn er með hátt í 200 dagskólanemendur og þar er einnig hægt að stunda fjarnám í flestum áföngum.

Að sögn Árna Ólasonar skólameistara hefur námið gengið vel á COVID-tímum. Nemendur hafi staðið sig afar vel, ekkert brotthvarf hafi verið úr skólanum og einkunnir nemenda almennt betri en áður. Þó hafi skiljanlega skort á félagslegan þátt skólastarfsins og því séu nemendur afar glaðir að geta á ný mætt í skólabyggingar.

„Það er afar ánægjulegt að heyra hve vel hefur gengið hjá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Skólastjórnendur og kennarar hafa haldið vel utan um námið, og nemendur sannað sig við hvert tækifæri. Virkilega vel gert og ég þakka fyrir góðar móttökur!“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Skólinn var settur í fyrsta sinn 14. október 1979 í húsnæði sem byggt var fyrir heimavist og mötuneyti nemenda. Skólinn hefur frá fyrstu tíð starfað eftir áfangakerfi sem er sveigjanlegt og gefur nemendum kost á misjöfnum námshraða. Spanna- og verkefnatímakerfi skólans sem tekið var upp haustið 2011 gefur einnig kost á fjórum innritunum á ári í skólann sem eykur mjög sveigjanleika. Spannafyrirkomulagið hentar einnig mjög vel til fjarnáms en um 470 fjarnemar stunduðu nám við skólann á haustönn og svipaður fjöldi fjarnema verður á nýhafinni vorönn auk dagskólanema.

Á mynd: 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum