Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 8. - 14. nóvember 2003

Yfirlýsing heilbrigðisráðherra vegna umfjöllunar Samtaka atvinnulífsins um "útgjöld heilbrigðisstofnana".
Samtök atvinnulífsins birtu í gær á heimasíðu sinni umfjöllun um "útgjöld heilbrigðisstofnana". Í umfjölluninni kom fram alvarlegur misskilningur sem samtökin segjast nú fallast á að leiðrétta. Niðurstöðurnar, sem nú hafa verið leiðréttar, urðu ábyrgðarmönnum upplýsingaefnis Samtaka atvinnulífsins tilefni til ályktana sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra lætur hjá líða að svara. Í yfirlýsingu frá Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra vegna málsins segir hann brýnt að menn haldi sig við staðreyndir þegar jafn viðkvæmur málaflokkur og heilbrigðismál eru rædd á opinberum vettvangi. Í yfirlýsingunni er bent á ýmsar staðreyndir samtökunum til upplýsingar og vakin athygli þeirra á því að þau hafi m.a. borið saman óskylda hluti.
YFIRLÝSING RÁÐHERRA...

Uppbygging háskólasjúkrahúss: Ráðherra vill heiðarlega og fordómalausa umræðu
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ræddi í ávarpi sínu á Heilbrigðisþingi 2003 um hlutverk nefndar sem hann skipaði nýlega til að gera tillögur um endurskilgreiningu á verksviði Landspítala - háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússina á Akureyri með tilliti til breyttra þjóðfélagsaðstæðna í landinu. Ráðherra sagðist ekki útiloka neitt í sambandi við þá uppbyggingu háskólasjúkrahúss sem takast þarf á við á næstu misserum. Eitt sjúkrahús undir sama þaki kæmi til greina eða að háskólasjúkrahús væri sameiginlegur vettvangur margra tiltölulega sjálfstæðra eininga undir sameiginlegri stjórn svo dæmi væri tekið. Ráðherra sagðist gera þá kröfu að nefndarmenn og aðrir sem kæmu að umræðunni ræddu heilbrigðisþjónustuna út frá þeim sem þjóna ætti. Vinnan mætti ekki aðeins snúast um fjárveitingar eða hagsmuni þeirra fagstétta sem vinna verkin, kenna eða kanna. Þá sagðist hann umfram allt gera kröfu til þess að öll spil væru höfð uppi á borðinu og nefndi sérstaklega að menn ættu ekki að hafa uppi hálfsannleik þegar verið væri að bera saman rekstrarform eða útgjaldatölur milli landa. ,,Heiðarleg og fordómalaus umræða skilar okkur vandaðri niðurstöðu". Ávarp ráðherra og ágrip margra erinda sem flutt voru á þinginu eru aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins undir einstökum liðum í dagskrá þingsins.
DAGSKRÁ...

Fimmtíu ára afmæli Blóðbankans
Blóðbankinn er fimmtíu ára í dag, 14. nóvember. Blóðbankinn hóf starfsemi sína í núverandi húsnæði á horni Barónsstígs og Eiríksgötu 14. nóvember árið 1953. Blóðsöfnun hafði þó verið meðal blóðsöfnunardeildar skáta allt frá árinu 1935. Sex starfsmenn unnu fyrstu árin við blóðsöfnunina, þar af einn hjúkrunarfræðingur. Fimmtíu árum síðar eru 45 starfsmenn í sama húsnæði í Blóðbankanum, þar af 11 hjúkrunarfræðingar, 20 líffræðingar og nokkrar aðrar starfsstéttir. Frá þessu er sagt á heimasíðu Blóðbankans og þar er einnig að finna margvíslegar upplýsingar um starfsemina.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
14. nóvember 2003



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum