Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 1998 Forsætisráðuneytið

Lokaathugasemdir mannréttindanefndar SÞ vegna þriðju skýrslu Íslands um alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

Dómsmálaráðuneytinu hafa borist lokaathugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna vegna þriðju reglulegu skýrslu Íslands um alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 16. desember 1966 sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 22. ágúst 1979.

Lokaathugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna vegna þriðju reglulegu skýrslu Íslands um alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi


Dómsmálaráðuneytinu hafa borist lokaathugasemdir mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna vegna þriðju reglulegu skýrslu Íslands um alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 16. desember 1966 sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 22. ágúst 1979.

Mannréttindanefndin ræddi efni þriðju skýrslu Íslands á fundi með fulltrúum Íslands sem haldinn var í Genf í Sviss þann 21. október síðastliðinn.

Vegna athugasemdar mannréttindanefndarinnar sem fram kemur í tölulið nr. 11, um mismunun í lögum og framkvæmd gagnvart óskilgetnum börnum, er vakin athygli á því, að þann 1. október síðastliðinn tóku gildi lög nr. 62/1998 um breytingu á lögum nr. 100/1952 um íslenskan ríkisborgararétt. Með þeirri breytingu hefur verið felld úr lögum sú mismunun sem mannréttindanefndin vísar til varðandi rétt óskilgetinna barna til að fá íslenskan ríkisborgararétt í þeim tilvikum, þegar faðir þess er íslenskur ríkisborgari en ekki móðir. Í íslenskum lögum finnast nú engin lagaákvæði sem mismuna börnum eftir því hvort þau eru skilgetin eða óskilgetin.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 10. nóvember 1998.


[Þýðing úr ensku]

    Mannréttindanefnd
    Sextugasta og fjórða fundatímabil


    Umfjöllun um skýrslur lagðar fram af aðildarríkjumskv. 40. gr. sáttmálans

    Lokaathugasemdir mannréttindanefndar
    Ísland

    1. Nefndin fjallaði um hina þriðju reglulegu skýrslu Íslands (CCPR/C/94/Add.2) á 1704. og 1705. fundi sínum hinn 21. október 1998 (CCPR/C/SR.1704-1705) og samþykkti eftirfarandi lokaathugasemdir á 1717. fundi hinn 29. október 1998.
    a. inngangur

    2. Nefndinni er ánægja að veita tímanlega viðtöku hinni gagngeru skýrslu ríkisstjórnar Íslands. Nefndin er einnig þakklát íslensku sendinefndinni fyrir frekari upplýsingar um þróun framkvæmdaratriða á sviði mannréttindamála á Íslandi eftir að skýrslan var lögð fram. Þær skriflegu upplýsingar sem sendinefndin lét í té sem svar við álitaefnaskrá nefndarinnar voru einkar gagnlegar. Hinar uppbyggilegu og opnu viðræður sem nefndin átti við íslensku sendinefndina voru henni einnig ánægjuefni.
    B. Jákvæð atriði

    3. Nefndin lofar aðildarríkið fyrir það ágæta orðspor, sem það hefur aflað sér við framkvæmd ákvæða sáttmálans. Það var henni ánægja að veita því eftirtekt að annarri reglulegri skýrslu Íslands og lokaathugasemdum nefndarinnar um hana var dreift víða og varð tilefni almennrar umræðu, sem hafði áhrif á nýlegar breytingar á stjórnskipunarlögum og almennum lögum á sviði mannréttinda.

    4. Nefndin fagnar því að Ísland hefur afturkallað fyrirvara sína um a-lið 3. mgr. 8. gr. og 13. gr. sáttmálans.

    5. Nefndin lýsir velþóknun sinni á setningu stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 um breytingu á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, sem nú endurspeglar betur ákvæði hinna ýmsu mannréttindasamninga, þar á meðal Alþjóðasáttmála um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Nefndin lýsir einnig velþóknun sinni á því að breytingarnar á stjórnskipunarlögum styðla þá reglu, að borgaraleg, stjórnmálaleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi verða ekki sundur skilin.

    6. Nefndin hefur veitt athygli því afar mikla löggjafarstarfi sem unnið hefur verið á Íslandi á sviðum sem sáttmálinn tekur til frá því að hin önnur reglulega skýrsla var til athugunar. Hún lýsir velþóknun sinni á því að þau lög sem nýlega hafa verið sett stuðla að betri vernd grundvallarréttinda innan aðildarríkisins. Að þessu leyti vekur sérstakan áhuga setning laga nr. 62/1994, sem leiðir mannréttindasamning Evrópu í lög, laga um dómstóla (nr. 15/1998), og breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum (nr. 45/1965), nafnalögum (nr. 45/1996) og stjórnsýslulögum (nr. 73/1993).

    7. Nefndin fagnar stofnun embættis umboðsmanns barna (með l. nr. 83/1994) og mannréttindastofu á árinu 1994.
    C. Helstu áhyggjuefni og tilmæli

    8. Um leið og nefndin veitir því athygli að Evrópusamningur um vernd manréttinda og mannfrelsis hefur verið felldur inn í íslensk lög, leggur hún áherslu á að margar greinar sáttmálans, þar á meðal 3., 4., 12., 22., 24., 25., 26. og 27. gr., ganga lengra en Evrópusamningurinn segir til um. Nefndin hvetur því aðildarríkið til að tryggja að öllum réttindum samkvæmt sáttmálanum verði komið í framkvæmd í íslenskum lögum.

    9. Nefndin mælist til þess að allir fyrirvarar við sáttmálann sem eftir standa verði teknir til athugunar með tilliti til þess að þeir verði að lokum afturkallaðir.

    10. Nefndinni er áhyggjuefni að veita því eftirtekt að á ákveðnum sviðum skortir enn á jafnrétti milli karla og kvenna samkvæmt lögum og í framkvæmd, þrátt fyrir viðleitni ríkisstjórnarinnar. Hún mælist til þess að aðildarríkið herði á viðleitni sinni til að ná fram fullum jöfnuði karla og kvenna, þar á meðal á sviði atvinnumála. Hún vonast til þess að "starfskönnun" sú, sem fram fór á vegum félagsmálaráðuneytisins, muni stuðla að afnámi mismununar á vinnustöðum og koma reglunni um sömu laun fyrir jafnverðmæt störf að fullu til framkvæmda. Nefndin fer þess á leit að í næstu reglulegu skýrslu verði veittar frekari upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar verða gegn hvers kyns ofbeldi í garð kvenna.

    11. Nefndin minnist enn á áhyggjur sínar vegna þess að ennþá er um að ræða mismunun í lögum og í framkvæmd gagnvart óskilgetnum börnum, sem ekki samrýmist 24. og 26. gr. sáttmálans. Hún mælist til þess að athygli verði beint að tafarlausri leiðréttingu á þessu hvað snertir öll réttindi sem börnum ber.

    12. Nefndin fer þess á leit að aðildarríkið sjái um birtingu og víðtæka dreifingu á skýrslu sinni og lokaathugasemdum nefndarinnar á Íslandi.

    14. Nefndin ákveður að hin fjórða reglulega skýrsla Íslands skuli afhent í október 2003.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum