Hoppa yfir valmynd
27. október 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 521/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 521/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21090013

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. september 2021 kærði […] , fd. […], ríkisborgari Kenía (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, um að synja kæranda um fjölskyldusameiningu við […], f.d. […], ríkisborgari Rúanda (hér eftir M) á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi krefst þess að að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi. Af greinargerð má jafnframt ráða að kærandi geri kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi vegna annmarka á rannsókn málsins, sbr. 10. gr. og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga, og að málið verði sent aftur til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu, dags. 13. febrúar 2020, er byggð á því að maki hans, M, njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi. Hinn 12. september 2019 kom M hingað til lands í boði íslenskra stjórnvalda, sbr. 43. gr. laga um útlendinga, og var honum veitt réttarstaða flóttamanns samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar hinn 14. september 2021. Hinn 17. september 2021 barst kærunefnd greinargerð frá kæranda ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn hinn 14. október 2021.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að M hafi komið til landsins í boði íslenskra stjórnvalda og verið veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga um útlendinga. Í 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga komi fram að maki eða sambúðarmaki útlendings sem njóti alþjóðlegra verndar eigi einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Fram komi í umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu við M, dags. 13. febrúar 2020, að þeir hafi gengið í hjúskap árið 2015. Við mat á umsókn kæranda hafi Útlendingastofnun stuðst við skýrslu Sameinuðu þjóðanna þegar umsókn M um að koma til landsins í boði stjórnvalda hafi verið til skoðunar. Þar komi fram að M hafi greint frá því að hann væri einstæður og hafi aldrei verið giftur. Þá hafi M greint frá því að hann væri einstæður í viðtali hjá Útlendingastofnun. Í ljósi þess að M hafi ekki nefnt kæranda á nafn í skýrslutöku eða viðtölum við Útlendingastofnun og að kærandi hafi ekki framvísað gögnum sem hafi sýnt fram á samband hans við M hafi umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga verið synjað.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi kynnst M, samkynhneigðum flóttamanni frá Rúanda, í Keníu í september 2015, og hafi þeir búið saman þar til M hafi fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við mat stofnunarinnar um að misræmi sé til staðar um fjölskylduaðstæður kæranda í Kenía. Mat stofnunarinnar virðist hafa grundvallast á því að M hafi ekki getið um tilvist kæranda berum orðum í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi telur að eðlilegar skýringar séu á því. Umrætt viðtal hafi snúist um mögulega veitingu alþjóðlegrar verndar hér á landi. Þá hafi M óttast að greina með nákvæmum hætti frá sambandi sínu við kæranda, enda sé samkynhneigð ólögleg í Keníu og varði fangelsisrefsingu. M hafi ekki farið í felur með samband sitt við kæranda og hafi hann rætt um möguleika á fjölskyldusameiningu í viðtali árið 2019 við sérfræðing hjá félagsmálaráðuneytinu og teymisstjóra hjá Rauða Kross Íslands. Þá hafi hann heimsótt kæranda í Kenía síðastliðið sumar og hafi hann þurft til þess sérstakt boð frá kæranda. Auk þess hafi kærandi sótt um fjölskyldusameiningu við M við fyrsta tækifæri, þ.e. nokkrum mánuðum eftir komu M til landsins. Engin ástæða sé því til að ætla að upplýsingum um samband þeirra hafi vísvitandi verið leynt fyrir stjórnvöldum. Kærandi telur að krafa Útlendingastofnunar um að hann framvísi opinberum gögnum um samband hans við M sé ósanngjörn. Samkynhneigð sé, sem fyrr segir, ólögleg í Kenía og sé því ómögulegt fyrir hann að framvísa slíkum gögnum. Þá sé það misskilningur að hann hafi gengið í hjúskap með M árið 2015, líkt og komi fram á umsóknareyðublaði. Hið rétta sé að kærandi og M hafi verið sambýlismenn frá árinu 2015. Með vísan til framangreinds telur kærandi að Útlendingastofnun hafi komist niðurstöðu í máli hans án þess að framkvæma heildstætt mat á aðstæðum hans og M, eins og áskilið sé í 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir af þeim sökum á því að málsmeðferð Útlendingastofnunar brjóti í bága við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og að sá ágalli varði ógildingu ákvörðunarinnar. Verði því ekki hjá því komist að leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn fari fram sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, kemur fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir fjölskyldusameiningu á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.  Í því sambandi er vísað til þess að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi verið í hjúskap eða sambúð með M. Þá hafi M ekki nefnt kæranda á nafn í skýrslutöku hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eða viðtölum hjá Útlendingastofnun. Í viðtali sem fulltrúar Útlendingastofnunar hafi tekið við M vegna mögulegrar veitingu alþjóðlegrar verndar hér á landi hafi hann greint frá því að hann væri einstæður.

Hinn 3. október 2021 óskaði kærunefnd eftir því að fá send gögn vegna verndarveitingar M, þ. á m. fyrrnefnt viðtal sem og tölvupóstsamskipti sem vísað er til í ákvörðun stofnunarinnar. Samkvæmt svari Útlendingastofnunar, sem barst hinn 5. október 2021, hafi fulltrúar stofnunarinnar og Félagsmálaráðuneytisins farið til Kenía og tekið umrætt viðtal við M þar í landi. Viðtalið hafi hvorki verið tekið upp né ritað, en byggt hafi verið á upplýsingum úr viðtalinu þegar átti að tengja M við sveitarfélag og skrá hann inn í landið og hafi þeir starfsmenn stofnunarinnar og ráðuneytisins sem viðstaddir hafi verið staðfest svör M. Kærandi lagði fram skjal við meðferð málsins hjá kærunefnd sem ber það með sér að vera endurrit viðtals sem hafi verið tekið við […], með UNHCR skráningarnúmerið […], þ.e. nafn M og skráningarnúmer hans hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Engin dagsetning eða önnur tímasetning kemur fram í endurritinu. Viðstaddir viðtalið hafi verið […], […] og […]. Varðandi hjúskaparstöðu […] er skráð að hann sé „Single“ en tekið fram að hann hafi verið í sambandi við kenískan mann frá árinu 2016 og að þeir hafi búið saman í þrjú ár. Þá minnist […] á kærastann í svörum sínum við fleiri spurningum í viðtalinu, s.s. varðandi atvinnu og tekið fram að […] vinni ekki en kærastinn geri það og starfi sem „accountant“ og greiði fyrir leigu og mat. […] kveðst vilja hafa vin sinn með og hafi áhyggjur af honum. Þá spyr […] að því í lok viðtals hvort að mögulegt sé að kærasti sinn geti komið seinna. Framangreint endurrit barst kærunefnd ekki með gögnum málsins frá Útlendingastofnun og er því ekki ljóst hvort það hafi legið fyrir við málsmeðferð stofnunarinnar á umsókn kæranda.

Af lestri hinnar kærðu ákvörðunar er ljóst að upplýsingar úr umræddu viðtali höfðu áhrif á mat Útlendingastofnunar í máli kæranda og voru honum í óhag. Kærunefnd telur athugavert að Útlendingastofnun vísi til upplýsinga í viðtali sem hvorki eru til staðar hjá stofnunni í endurriti eða upptöku í ákvörðunum sínum og telur það ekki vera í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar um góða og vandaða stjórnsýsluhætti. Þá er enn fremur ljóst að framangreint endurrit bendir til þess að niðurstaða Útlendingastofnunar byggi á röngum upplýsingum um hagi M í Kenía áður en hann kom hingað til lands. Enn fremur telur kærunefnd ástæðu til þess að gera athugasemdir við rannsókn Útlendingastofnunar hvað varðar þau gögn sem kærandi lagði fram til þess að sýna fram á samband sitt og M. Hafi Útlendingastofnun talið að framlögð gögn, einkum skjáskot af samskiptum sem kærandi lagði fram, væru ekki nægilega skýr, m.a. um það hverjir ættu í samskiptum, hefði stofnunin átt að leiðbeina kæranda um að leggja fram betri og ítarlegri gögn. Þá hefði stofnunin einnig getað kallað eftir því að M legði fram síma sinn svo hægt væri að skoða betur framangreind samskipti er kærandi kveður hafa farið fram á milli hans og M.

Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda  byggi á fullnægjandi og réttum upplýsingum. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum