Hoppa yfir valmynd
9. desember 2011 Innviðaráðuneytið

Áætluð úthlutun aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2011

Innanríkisráðherra hefur gefið út reglur um ráðstöfun 800 m.kr. aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2011. Reglurnar eru settar  í samáði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Aukaframlaginu er ætlað að koma til móts við þau sveitarfélög sem eiga í miklum fjárhagslegum erfiðleikum á árinu 2011. Við útreikning  framlagsins er m.a. byggt á upplýsingum úr ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010.

Einungis kemur til úthlutunar framlags ef heimild sveitarfélags til álagningar útsvars fyrir tekjuárið 2011 er fullnýtt af sveitarstjórn.

Á grundvelli 6. gr. reglnanna er framlagið greitt í tvennu lagi. Í dag koma 600 m.kr. til greiðslu. Eftirstöðvar framlagsins verða greiddar í lok desember þegar meðaltekjur á íbúa í sveitarfélögum liggja fyrir og endurskoðun framlagsins hefur farið fram. Forsenda fyrir greiðslu á eftirstöðvum framlagsins er að ráðuneytinu berist fyrir 23. desember nk. greinargerð frá sveitarfélögum um ráðstöfun framlagsins.

Úthlutun framlagsins er sem hér segir:

  • Framlag vegna sérstakra fjárhagserfiðleika Sveitarfélagsins Álftaness (2. gr.)
    Varið skal 200 m. kr. til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum Sveitarfélagsins Álftaness í samræmi við tillögur fjárhaldsstjórnar um heildarlausn á fjárhagsvanda þess.
  • Framlag vegna íþyngjandi skulda (3. gr.)
    Varið skal 400 m.kr. til þeirra sveitarfélaga þar sem útreiknað skuldahlutfall er hærra en 150%. Við útreikning framlags kemur til skerðingar vegna skuldahlutfalls á bilinu 150% - 250% og þar sem hlutfall veltufjár frá rekstri af heildartekjum er hærra en 3%.
  • Framlag vegna íbúafækkunar (4. gr.)
    Varið skal 200 m.kr. til sveitarfélaga þar sem íbúaþróun hefur verið lakari en hjá Reykjavíkurborg árin 2006 – 2010. Við útreikning framlags er byggt á upplýsingum úr Þjóðskrá um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2005 og 1. desember 2010. Skerðing framlagsins er hlutfallsleg miðað við nettóskuldir á bilinu 50% - 100%. Framlögin eru jafnframt skert hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hlutfallslega háar meðaltekjur á íbúa á árinu 2011 miðað við sambærileg sveitarfélög.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum