Hoppa yfir valmynd
1. október 2018 Utanríkisráðuneytið

EES-mál í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Íslands og Frakklands

Guðlaugur Þór Þórðarson fékk góðar móttökur hjá Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands í morgun - myndUtanríkisráðuneyti Frakklands

Öryggismál á norðurslóðum, EES-mál, útganga Breta úr Evrópusambandinu og tvíhliða samskipti voru efst á baugi á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands í París í morgun.

Tveggja daga heimsókn Guðlaugs Þórs til Frakklands hófst í morgun með fundi þeirra Le Drians. Þar bar einna hæst umræður um Evrópumál og EES-samstarfið. Guðlaugur Þór lagði þunga áherslu á þýðingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og að framkvæmd hans þyrfti að styrkja enn frekar.

Ráðherrarnir ræddu svo sérstaklega útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. „Ýmis atriði sem Bretar semja um við Evrópusambandið varða jafnframt Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES vegna aðildar þeirra að innri markaðinum. Það var því afar gagnlegt að heyra sjónarmið franska utanríkisráðherrans um þessi mál enda Frakkland lykilríki í Evrópusamvinnunni,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum.


Guðlaugur Þór og Le Drian í dag. Mynd: Utanríkisráðuneytið. 

Umhverfismál og nýting endurnýjanlegra orkugjafa, ekki síst jarðhita, voru líka ofarlega á baugi á fundinum. Þá ræddu ráðherrarnir málefni norðurslóða út frá ýmsum hliðum en Frakkar hafa látið sig svæðið miklu varða, með áherslu á vísindarannsóknir og umhverfisvernd. Guðlaugur Þór kynnti Le Drian útlínurnar í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem hefst á næsta ári. Þá ræddu ráðherrarnir siglingaöryggi á svæðinu, meðal annars í ljósi vaxandi umferðar skemmtiferðarskipa á norðurslóðum. „Þótt tækifæri fylgi nýjum siglingaleiðum á norðurslóðum þá eru siglingar þar líka áhættusamari en víðast annars staðar vegna óblíðra náttúruaðstæðna. Landhelgisgæslan hefur æft leit og björgun með frönskum skemmtiferðaskipum og Airbus-björgunarþyrlur framleiddar í Frakklandi eru mikilvægur þáttur í leitar- og björgunargetu Íslands. Við Le Drian vorum sammála um þýðingu samstarfs á þessu sviði og nauðsyn þess að þróa það áfram.“


Frá heimsókninni í franska þingið. Mynd: Utanríkisráðuneytið. 

Að loknum fundi þeirra Le Drian heimsótti Guðlaugur Þór franska þingið til að hitta þar þingmenn og fulltrúa vináttusamtaka Íslands og Frakklands. Síðar um daginn fór utanríkisráðherra með íslenskri viðskiptanefnd í bækistöðvar Airbus í Le Bourget í útjaðri Parísar.

Á morgun hittir utanríkisráðherra Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, en Ísland hyggst bjóða sig fram til setu í framkvæmdastjórn hennar 2021-2025. Þá eru jafnframt fyrirhugaðir fundir með aðalframkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, og framkvæmdastjóra þróunarsamvinnunefndar OECD. Þá tekur utanríkisráðherra þátt í rakarastofuráðstefnu um jafnréttismál sem haldin verður í höfuðstöðvum OECD.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum