Hoppa yfir valmynd
26. september 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 399/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 26. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 399/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18080029

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa í máli […]

 

 

Málsatvik

Þann 17. ágúst 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. apríl 2018, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Srí Lanka, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir aðila þann 20. ágúst 2018 og 23. ágúst 2018 barst kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 30. ágúst 2018 barst kærunefnd greinargerð aðila.

Aðili krefst þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hann fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Málsástæður aðila

Aðili byggir beiðni sín um frestun réttaráhrifa á því að hann sé kominn með lögmann og hyggist bera mál sitt undir dómstóla. Ljóst sé að full ástæða sé til að fresta réttaráhrifum þar sem hann hafi nýlega leitað aðstoðar lögmanns og nauðsynlegt sé að veitt verði nægilegt svigrúm til undirbúnings og reksturs málsins. Aðili hyggist afla frekari gagna vegna málsins, m.a. til staðfestingar á frásögn sinni þar sem að trúverðugleiki hans hafi verið dreginn í efa af stjórnvöldum. Þá sé nauðsynlegt að afla frekari gagna til að varpa betur ljósi á aðstæður aðila. Verulegur vafi sé uppi um raunverulegar aðstæður í heimaríki aðila sérstaklega þegar tekið sé tillit til bakgrunns hans og persónulegra aðstæðna hans. Þá eru gerðar alvarlegar athugasemdir við mat kærunefndar á trúverðugleika aðila og þær ályktanir sem kæruefnd virðist hafa dregið af gögnum málsins. Þá vísar aðili til réttar manna til að leita úrlausnar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli sem tryggður sé í 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. einnig 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Einn þáttur þessara grundvallarréttinda sé sá að aðilar málsins séu jafnt settir fyrir dómi og í jafnræðisreglu þessari felist m.a. réttur aðila til að vera viðstaddur þinghöld í máli sínu, réttur aðila til að tjá sig um atvik málsins og afla gagna. Engin þörf sé á að flytja aðila úr landi á þessu stigi málsins og væri það til þess fallið að gera málarekstur aðila þyngri en ella, jafnvel ómögulegan vegna skorts á lögvörðum hagsmunum.

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum aðila af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi aðila óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi hans að dómstólum eða hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd, hefur verið tekin afstaða til málsástæðna aðila varðandi umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og komist að niðurstöðu um að synja umsókn hans.

Niðurstaða máls aðila réðst annars vegar af trúverðugleikamati þar sem nefndin taldi, á grundvelli ósamræmis í frásögn aðila og með hliðsjón af upplýsingum um aðstæður í heimaríki hans, að frásögn aðila um varðhald og pyndingar væri ekki trúverðug. Frásögnin var því ekki lögð til grundvallar. Þá taldi nefndin hins vegar að við stjórnarskipti í heimaríki aðila eftir kosningar í janúar 2015 hefði orðið skýr stefnubreyting en þá komst til valda stjórn sem leggi áherslu á sameiningu þjóðarinnar og mannréttindi allra þegna hennar án tillits til kynþáttar eða trúarbragða. Sú ógn sem aðila kann af hafa stafað af þeim stjórnvöldum sem hafi verið við völd þegar bræður hans hafi verið handteknir sé því ekki lengur fyrir hendi. Með vísan til breytinga á stjórnarfari í heimaríki aðila taldi kærunefnd jafnframt að þrátt fyrir að frásögn hans um varðhald og pyndingar yfirvalda yrði lögð til grundvallar hefði aðili ekki lengur ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi laga um útlendinga. Að þessari niðurstöðu var komist eftir ýtarlega skoðun á aðstæðum öllum í heimaríki aðila og einstaklingsbundnum aðstæðum hans.

Hins vegar, þegar litið er til þess að andlegt heilsufar aðila og aðrar aðstæður hans í heimaríki gætu valdið því að erfitt verði fyrir aðila að eiga þau samskipti við lögmann sinn sem nauðsynleg eru til reksturs máls hans hér á landi, telur kærunefnd, á grundvelli heildarmats á aðstæðum aðila og með vísan til forsendna niðurstöðu úrskurðar kærunefndar, að ástæða sé til, eins og hér stendur sérstaklega á, að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í máli aðila, dags. 17. ágúst 2018, meðan aðili rekur mál sitt fyrir dómstólum, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, með þeim skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu og áréttuð eru í úrskurðarorði.

Aðila er leiðbeint um að uppfylli hann ekki nefnd skilyrði kann úrskurður kærunefndar í máli aðila, dags. 17. ágúst 2018, að verða framkvæmdarhæfur.


 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli aðila, dags. 17. ágúst 2018,

er frestað á meðan aðili rekur mál sitt fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun í máli sínu á stjórnsýslustigi. Frestun réttaráhrifa úrskurðarins er bundin því skilyrði að aðili beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar þessarar og óski eftir flýtimeðferð. Sé beiðni um flýtimeðferð synjað skal þá höfðað mál innan sjö daga frá þeirri synjun.

 

The legal effects of the decision of the appeals board in the case of the applicant, dated 17 August 2018, are suspended during the time that the applicant’s legal proceedings for the annulment of the final administrative decision in the applicant’s case are under way. The suspension of legal effects is subject to the condition that the applicant brings the case to court within five days of the date of the notification of this decision and requests accelerated procedures. If the request for accelerated procedures is denied the applicant shall initiate legal proceedings before a court

within seven days of that denial.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum