Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna þakkar fyrirsjáanleg framlög

Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hrósar í frétt um sveigjanleg og fyrirsjáanleg framlög. Slík framlög – sem ekki eru eyrnamerkt tilteknum verkefnum – gefa WPF tækifæri til að mæta skyndilegri og óvæntri neyð sem kallar á skjóta mannúðaraðstoð en slíkum aðstæðum hefur fjölgað á síðustu árum, eins og segir í fréttinni.

„Þökk sé þessum framlagsríkjum sem gerðu okkur kleift á dögunum að ráðstafa 180 milljónum Bandaríkjadala til verkefna meðal sextíu þjóða,“ segir WFP og bendir á að framlögin hafi meðal annars verið nýtt til að bjarga enn fleiri mannslífum í stríðshrjáðum löndum eins og Sýrlandi, Jemen, Miðafríkuríkinu og Lýðræðislega lýðveldinu Kongó. Framlögin eru líka nýtt í þróunarverkefni og við dreifingu matvæla til flóttafólks og þeirra sem eru á vergangi.

„Sveigjanleg framlög veita okkur það frelsi að geta brugðist við í skyndi, þau draga úr kostnaði, gefa okkur tækifæri til langtíma skipulagningar og koma í veg fyrir röskun á starfi okkar við björgun mannlífa,“ segir David Beasley framkvæmdastjóri WPF. Hann hvetur aðrar framlagsþjóðir til þess að hætta að eyrnamerkja framlög og fara þá leið sem Íslendingar og nokkrar aðrar þjóðir hafa farið með sveigjanlegum og fyrirsjáanlegum framlögum til margra ára.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur á síðustu misserum þurft að bregðast við áður óþekktu umfangi neyðartilvika á sama tíma en matvælaskortur og neyð ríkir á sex mismunandi stöðum í heiminum. Í fréttinni segir að WFP sé mikilvæg stofnun í alþjóðlegri viðleitni við að bjarga fólki frá hungurvofunni hvort heldur það sé í Suður-Súdan þar sem þjóðin er á barmi hungursneyðar eða í Bangladess þar sem þess er freistað að bjarga lífi Róhingja á flótta.

„Sveigjanleg framlög gera WFP kleift að starfa á skjótvirkan og og skilvirkan hátt, en ríkisstjórnir sem veita slíka fjármögnun eru ennþá í miklum minnihluta og flestar tilgreina hvernig og hvar fjármagninu á að verja,“ segir í lok fréttarinnar.

Íslendingar gerðu stefnumarkandi samstarfssamning til fimm ára við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna haustið 2016 um sveigjanleg framlög byggða á svonefndri “Grand Bargain” tillögu sem lögð var fram á leiðtogafundi um mannúðarmál það ár þar sem veitendur skuldbundu sig til að hafa framlög sveigjanlegri og hjálparstofnanir skuldbundu sig til að auka gagnsæi og kostnaðarvitund. Þar var gert ráð fyrir að minnsta kosti 50 milljóna króna framlagi ár hvert frá íslenskum stjórnvöldum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum