Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 24. - 30. ágúst 2003

Fréttapistill vikunnar
24. - 30. ágúst 2003


Frítekjumörk almannatrygginga hækka

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að frítekjumörk almannatrygginga hækki um 6,0% frá 1. september n.k. Þetta þýðir að tekjuviðmiðun bóta, sem Tryggingastofnun ríkisins er gert að leggja til grundvallar í útreikningum sínum, og endurskoðuð er ár hvert, hækkar sem þessu nemur. Í stað tekna ársins 2001 verður frá 1. september n.k. miðað við tekjur ársins 2002 samkvæmt skattframtölum. Þetta er gert með hliðsjón af 65. gr. laga um almannatryggingar. Viðmiðunarfjárhæðir í reglugerð nr. 47/1990 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða hækka einnig um 6,0 af hundraði þ. 1. september n.k.

Sameining heilbrigðisstofnana á Suðurlandi
Komið hefur verið á fót starfshópi innan heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins sem hefur það hlutverk að kanna kosti þess að sameina heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi. Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrverandi alþingismaður, hefur verið fenginn til að starfa með hópnum og kynna forráðamönnum á Suðurlandi málavöxtu og gera grein fyrir reynslunni sem er af því að sameina stofnanir annars staðar á landinu. Ástæðan fyrir því að heilbrigðismálaráðherra vill láta kanna kosti sameiningar nú er sú góða reynsla sem er af því að sameina stofnanir annars staðar og er þá meðal annars verið að hugsa um þjónustuna við almenning og aðstöðuna sem starfsmönnum er boðið uppá fyrir utan þá rekstrarlegu hagkvæmni sem kann að koma fram

Ráðstefna um áfengis-og vímuvarnir
19. norræna ráðstefnan um áfengis-og vímuvarnir hefst sunnudaginn kemur og stendur til 2. september. Ráðstefnan er opin almenningi dagana 1. og 2. september. Fyrirlesarar koma víða að og frá mörgum evrópskum stofnunun, sem fást við vímuvarnir, auk innlendra fyrirlesara. Sérstakar málstofur verða á ráðstefnunni og þar verða kynnt verkefni sem unnið er að á sviði vímuvarna á Norðurlöndum. Áfengis-og vímuvarnarráð skipuleggur ráðstefnuna að þessu sinni, en hún er haldin á Grand hóteli. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu Áfengis-og vímuvarnarráðs: www.vimuvarnir.is

Hagskýrslur um heilbrigðismál
Hagstofa Íslands hefur sent frá sér hagskýrslu um félags-og heilbrigðismál á Íslandi, 1991 - 2000. Þetta er í fyrsta sinn sem Hagstofan sendir frá sér verk af þessu tagi en stofnunin hefur safnað upplýsingum um málaflokkana síðustu tvo áratugi. Fram kemur hjá Hallgrími Snorrasyni, hagstofustjóra, í inngangi ritsins að talnaefni ritsins verði endurnýjað jafnóðum og nýjar upplýsingar liggja fyrir. Ritið er á vef Hagstofu Íslands, á www.hagstofa.is, og er þar að finna miklar og haldgóðar upplýsingar og heilbrigðis-og tryggingamál. Er áhugamönnum um efnið bent á að kynna sér það.




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
29. ágúst 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum