Hoppa yfir valmynd
5. september 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 31. ágúst - 5. september

Fréttapistill vikunnar
31. ágúst - 5. september


Fyrsta þing Félags um lýðheilsu verður haldið 26. september í Reykjavík

Framkvæmd og mat á heilbrigðisáætlun til ársins 2010 verður umfjöllunarefni Lýðheilsuþings 2003 sem haldið verður á Grand Hótel Reykjavík 26. september kl. 9 - 16. Setning þingsins hefst með ávarpi forseta Íslands, hr. Ólafs Ragnars Grímssonar og prófessors Wilhelm Kirch, forseta Evrópusamtaka lýðheilsufélaga (EUPHA). Meðal frummælenda er Berglind Ásgeirsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Efnahagsstofnunar Evrópu og fjallar hún um heilbrigðisáætlun frá sjónarhorni stofnunarinnar. Fyrir hádegi verður fjallað um þá siðfræðilegu grundvallarþætti sem heilbrigðisáætlun til ársins 2010 byggist á, þ.e. að þjónustan skuli verða réttlát, aðgengileg, byggð á samábyrgð, að mestu kostuð af almannafé og að þeir skuli ganga fyrir sem mesta þörf hafa fyrir heilbrigðisþjónustu. Eftir hádegi verður rætt eitt aðalmarkmiða heilbrigðisáætlunarinnar sem snýr að börnum og lýtur að því að jafna um fjórðung þann mun sem er á heilsufari barna og er rakinn til þjóðfélagsstöðu foreldra þeirra. Meðal frummælenda eru Gur Ofer, heilsuhagfræðingur og forstöðumaður Israel National Institute for Health Policy and Health Service Reseach, Árni Magnússon, félagsmálaráðherra og Davíð Á Gunnarsson, ráðuneytisstjóri sem mun fjalla um lýðheilsu í tengslum við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og þátttöku Íslands í starfi stofnunarinnar.

Stjórnunarupplýsingar LSH: Sólarhringsinnlögnum fækkar enn og meðallegutími sjúklinga styttist
Stjórnunarupplýsingar Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrstu sjö mánuði ársins liggja fyrir og eru aðgengilegar á heimasíðu sjúkrahússins. Í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga kemur m.a. fram að rekstraruppgjör sjúkrahússins er 666 m.kr. eða 4,3% umfram fjárheimildir. Meðtalin eru útgjöld við S-merkt lyf sem eru 9,8% umfram fjárheimildir. Launagjöld nema rúmum 65% af heildargjöldum sjúkrahússins og eru 3,5% hærri en áætlað var. Upplýsingar um fjarvistir vegna veikinda sýna verulega fækkun þeirra á öldrunarsviði sjúkrahússins úr 5,9% í fyrra í 4,3% í ár. Veikindafjarvistum fækkar hjá mörgum starfsstéttum en fjölgar þó í nokkrum hópum,s.s. læknum, hjúkrunarrfræðingum, ljósmæðrum sjúkraliðum og sálfræðingum. Innlögnum á sólarhringsdeildir sjúkrahússins heldur áfram að fækka, legudögum fækkar og meðallegutími heldur áfram að styttast, fer úr 9,1 degi í 8,7 daga. Samhliða þessu hefur umönnunarþyngd sjúklinga aukist á flestum sviðum sjúkrahússins. Í greinargerð framkvæmdastjóra er einnig sagt frá innleiðingu framleiðslumælingakerfa á LSH sem unnið hefur verið að síðustu misseri og er reiknað með að ljúka á næsta ári. Þá verður sjúkrahúsið reiðubúið fyrir breytta fjármögnun líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Kerfið mun einnig gera mögulegan alþjóðlegan samanburð á kostnaði við rekstur einstakra sérgreina á sjúkrahúsinu.
NÁNAR...

Tilflutningur verkefna
Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra, mun á næstu dögu skipa starfshóp til að kanna kosti og áhuga á að flytja þjónustu heilsugæslunnar og öldrunarþjónustuna til sveitarfélaganna. Þetta koma fram hjá ráðherra á fundi á Austurlandi. Fram kom hjá heilbrigðismálaráðherra að hugmyndin tilteknu verkefna tengist vangaveltum um stækkun sveitarfélaga. Segir ráðherra að heilsugæslu-og öldrunarþjónustan sé dæmigerð nærþjónusta sem ætti að vera á hendi sveitarstjórna að veita. Hann segist þegar hafa fært hugmyndina í tal við forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hafi tekið vel í að kanna málið. Ráðherra hefur látið hafa eftir sér að tilflutningur af þessu tagi sé flókið mál þar sem þurfi að hugsa að flóknum fjárhagslegum atriðum og réttindum starfsmanna sem vinna í heilsugæslunni og í öldrunarþjónustunni.

Auglýst eftir húsnæði fyrir heilsugæslustöð
Rikiskaup hafa auglýsteftir húsnæði til leigu fyrir heilsugæslustöð Voga- og Heimahverfis. Óskað er eftir innréttuðu húsi til langtímaleigu sem er um það bil 800-900 fermetrar að stærð. Staðsetning stöðvarinnar á að vera milli Dalbrautar, Kleppsvegar-Sæbrautar, Suðurlandsbrautar að Grensássvegi og að Laugardal austan og norðanverðum. Frestur til að skila inn tilboðum er til 16. september en með þeim skulu fylgja upplýsingar um verð, stærð, ástand, aðgengi að húsnæðinu og fleira. Nánari upplýsingar og lýsingar á kröfum um húsnæðið má nálgast á skrifstofu Ríkiskaupa en þangað ber að skila tilboðum fyrir tilsettan tíma.

Skýrsla um starfsemi Landlæknisembættisins
Út er komin ársskýrsla Landlæknisembættisins fyrir árið 2002. Í aðfaraorðum skýrslunnar er gerð grein fyir hlutverki og skipulagi embættisins auk þess sem reifaðir eru þeir þættir sem munu hafa áhrif á starfsemi embættisins á næstu árum. Þá er í skýrslunni að finna yfirlit um fjárhag embættisins. Sjá vefsíðu Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
5. september 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum