Hoppa yfir valmynd
12. september 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 6. - 12. september 2003

Fréttapistill vikunnar
6. - 12. september 2003


Tvær starfsnefndir skipaðar um málefni Landspítala - Háskólasjúkrahúss

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hyggst koma á fót tveimur starfsnefndum um málefni Landspítala - háskólasjúkrahúss. Annarri nefndinni er ætlað að móta hlutverk Landspítala - háskólasjúkrahúss til framtíðar og munu fulltrúar sjúkrahússins eiga aðild að henni. Hinni starfsnefndinni verður falið að fara yfir fjárhagsstöðu sjúkrahússins og meta til hvaða bráðaaðgerða þurfi að grípa. Fulltrúar heilbrigðis- og fjármálaráðuneytis verða í starfsnefndinni og formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis. Þá hefur verið ákveðið að leggja til við Alþingi að veittar verði 930 milljónir króna á fjáraukalögum til að styrkja rekstur sjúkrahússins á þessu ári.

Varnar- og viðbragðsáætlun um bólusótt
Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa nýverið samþykkt varnar- og viðbragðsáætlun við bólusótt sem lið í viðbrögðum við hryðjuverkum og öðrum ófyrirsjáanlegum atburðum af völdum sýkla- og eiturefna. Í skýrslu sem landlæknisembættið skilaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í júní 2002 um mat á áhrifum sýkla og eiturefnavopna á lýðheilsu er bólusótt talin meðal þeirra sjúkdóma sem hægt væri að beina gegn mönnum í hernaði eða með hryðjuverkum. Bólusótt er ekki talin líklegasta vopnið en hins vegar það skæðasta vegna þess hve auðveldlega hún smitast milli manna og hve dánartíðni af völdum bólusóttar er há. Norrænu heilbrigðisráðherrarnir gáfu út yfirlýsingu í Svíþjóð 19. ágúst síðastliðinn um að þjóðirnar hafi samráð um varnir við bólusótt, auk samvinnu við fjölþjóðlegar stofnanir. Á næstu misserum er fyrirhugað að skipuleggja aðgerðir á vegum sóttvarnalæknis nánar og er vonast til að sú vinna geti orðið fyrirmynd að aðgerðum gegn öðrum atburðum af völdum sýkla og eiturefna. Í Læknablaðinu nr. 89/2993 fjallar Haraldur Briem sóttvarnarlæknir um varnar- og viðbragðsáætlunina. Þar er einnig birtur sem viðauki norrænn samningur um heilbrigðisviðbúnað frá 21. júní 2002 og yfirlýsing norrænu heilbrigðisráðherranna um norræna samvinnu um varnir gegn bólusótt frá 19. ágúst.
NÁNAR...

Geðheilsa fólks á efri árum í brennidepli
Geðrækt beinir sjónum sínum sérstaklega að geðheilsu eldri landsmanna þessar vikurnar. Í samvinnu Geðræktar, Landssambands eldri borgara, Landlæknisembættisins, Rauða kross Íslands, Tryggingastofnunar, Þjóðkirkjunnar, Öldrunarráðs Íslands og fleiri aðila hefur september verið gerður að þemamánuði um þetta efni. Undirbúningur þessa hefur verið í samræmi við leiðbeiningar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þar sem rík áhersla er lögð á þátttöku fjölmiðla í þessari vinnu. Markmiðin eru m.a: að opna umræðu um geðheilsu eldri landsmanna og benda á að þunglyndi er ekki eðlilegur fylgikvilli þess að eldast - að hvetja eldra fólk til að leita sér viðeigandi aðstoðar við vanlíðan - að hvetja eldra fólk til virkni í þjóðfélaginu og auka sýnleika þeirrar aðstoðar sem stendur eldri landsmönnum til boða. Efnt hefur verið til hádegisfunda í Grensáskirkju um ýmis málefni tengd geðheilbrigði aldraðra. Næsti fundur verður miðvikudaginn 17. september. Nánari upplýsingar og dagskrá hádegisfundanna er að finna á heimasíðu Geðverndar.

Aðeins Norðmenn hafa staðfest tóbakssáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO)
Lee Jong-wook, hinn nýi aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, hvetur þjóðir heims til að staðfesta sáttmálann um takmörkun á tóbaksreykingum sem lagður var fram til í júní 2003 og 50 lönd hafa nú undirritað. Hver þjóð þarf að fullgilda sáttmálann í sínu landi og hann öðlast ekki gildi fyrr en fjörutíu lönd hafa fullgilt hann. Enn hefur aðeins Noregur fullgilt sáttmálann, en gerð hans var eitt af helstu baráttumálum Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi framkvæmdastjóra WHO og áður forsætisráðherra Noregs. Lee Jong-wook hvatti þjóðir heims til að fara að dæmi Norðmanna þegar hann ávarpaði 53. fund Evrópudeildar WHO sem haldið var í vikunni.
NÁNAR UM FUND EVRÓPUDEILDAR WHO...

Dagskrá Lýðheilsuþings 26. september 2003
Fyrsta þing Félags um lýðheilsu verður haldið 26. september í Reykjavík. Framkvæmd og mat á heilbrigðisáætlun til ársins 2010 verður umfjöllunarefni þingsins 2003 sem haldið verður á Grand Hótel Reykjavík 26. september kl. 9 - 16. Fyrirlesarar eru bæði erlendir og hérlendir og fjalla um mál eins og störf á alþjóðlegum vettvangi til að efla lýðheilsu og sömuleiðis aðgerðir hérlendra heilbrigðisyfirvalda til að bæta heilsufar þjóðarinnar. Rætt verður um lýðheilsu út frá fjárhagslegum og hagfræðilegum sjónarmiðum og um hlutverk nýstofnaðrar Lýðheilsustöðvar í ljósi heilbrigðisáætlunar til ársins 2010. Heilsufar barna verður til sérstakrar umfjöllunar á þinginu í ljósi markmiða heilbrigðisáætlunarinnar um að jafna mun á heilsufari barna sem tengist þjóðfélagsstöðu foreldra.
Dagskrá...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
12. september 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira