Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 13. - 19. september 2003

Fréttapistill vikunnar
13. - 19. september 2003


Vinnuhópi falið að fara yfir fjárhagsáætlanir Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði í gær (19. september) vinnuhóp til að fara yfir fjárhagsáætlanir Landspítala - háskólasjúkrahúss. Vinnuhópurinn er þannig skipaður: Svanhvít Jakobsdóttir, skrifstofustjóri, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, formaður. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður Fjárlaganefndar. Magnús Stefánsson, formaður Fjárlaganefndar og Ólafur Hjálmarsson, skrifstofustjóri, fjármálaráðuneyti. Er þess óskað að hópurinn hraði störfum sem kostur er og ljúki vinnu sinni eigi síðar en 1. nóvember 2003.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra ávarpar ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um alnæmi
Útbreiðsla HIV - veirunnar og alnæmis af völdum hennar er meðal alvarlegustu heilbrigðisógna í heiminum. Á undanförnum tveimur áratugum hafa yfir tuttugu milljónir manna látist af völdum alnæmis.Yfir tíu milljónir barna eru munaðarlaus af þessum völdum. Nú stendur yfir 58. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í höfuðstöðvum þeirra í New York. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun ávarpa sérstaka ráðstefnu um alnæmi sem haldin verður í tengslum við allsherjarþingið í næstu viku. Þar verður fjallað um skuldbindingar og markmið Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn þessari vá og hvernig þeim verði best náð.

Lífslíkur karla aukast samfara lækkun dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma og vegna slysa
Hagstofa Íslands hefur lokið við gerð nýs framreiknings á mannfjölda fyrir tímabilið 2003 - 2040. Þar kemur meðal annars fram að stöðugt dregur saman með körlum og konum þegar skoðaðar eru lífslíkur kynjanna. Dánartíðni er hærri meðal karla en kvenna í öllum aldurshópum. Aftur á móti hefur dregið saman með kynjunum á síðustu áratugum. Munar þar mestu um lækkun dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma og vegna slysa. Þess er vænst að meiri árangur eigi eftir að nást gegn þessum vágestum. Nefnt er að unnt sé að fækka dauðsföllum af völdum lungnakrabbameins en ekki séu hins vegar horfur á að dauðsföllum vegna þess fækki á næstunni. Upplýsingar um mannfjöldaspá Hagstofunnar er að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Hlutfall aldraðra af þjóðinni hækkar ört á næstu árum
Í mannfjöldaspá Hagstofunnar til ársins 2040 kemur fram að hlutfall aldraðra af þjóðinni á eftir að vaxa ört á næstu árum. Hlutfall aldraðra (old age dependency ratio), reiknað sem hlutfall 60 ára og eldri af íbúum 20 - 59 ára hefur hækkað í flestum löndum Evrópu á síðustu áratugum. Ísland hefur ekki fylgt þessari þróun og er hlutfallið hér lágt, 0,28, samanborið við 0,38 í löndun Evrópusambandsins. Íslendingar 60 ára og eldri eru tæplega 43.600 en Íslendingar á aldrinum 20 - 59 ára eru tæplega 157.300, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Samkvæmt framreikningi mun Ísland ná hlutfalli Evrópusambandsþjóðanna í kringum 2020. Árið 2040 verður hlutfall aldraðra hér á landi orðið 0,55.
NÁNAR...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
19. september 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira