Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Virkja þarf atvinnulífið betur í þátttöku í þróunarstarfi

Ríkisstjórnin styður öfluga þróunarsamvinnu, aukin opinber framlög til verkefna í þróunarríkjunum og að markvisst verði leitað eftir aðkomu íslensks atvinnulífs að þróunarsamvinnuverkefnum. -Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem hann lagði fram til Alþingis fyrr í dag.

Í skýrslunni kemur fram að stór hluti af fjárveitingum til utanríkisþjónustunnar renni til þróunarsamvinnu og alþjóðastofnana, eða tæplega sjö milljarðar króna. Ráðherra benti á að framlög hins opinbera væru hins vegar ekki eina leiðin til að fjármagna þróunarsamvinnu. „Virkja þarf atvinnulífið betur til þátttöku í þróunarstarfi í samræmi við ákall alþjóðasamfélagsins og hvetja til fjárfestinga og viðskipta. Þetta eru skilaboðin í niðurstöðum alþjóðlegu ráðstefnunnar um fjármögnun þróunar í Addis Ababa árið 2015 og, hvað Ísland varðar, í samræmi við nýlegri jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD. Nú er unnið að því að gera íslenskum sérfræðingum og sérhæfðum fyrirtækjum, t.d. í jarðvarma og sjávarútvegi, betur kleift að nota þekkingu sínu í þágu fátækra þjóða, ekki síst fyrir atbeina Alþjóðabankans og Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar,“ sagði Guðlaugur Þór og bætti við að mikils væri vænst af nýrri deild „Svæðasamstarfs og atvinnulífs“ innan þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins í þeim efnum.

Í skýrslu ráðherra kemur fram að í tengslum við aukið samstarf við atvinnulífið í þróunarsamvinnu sé hafin skoðun og undirbúningur á svokölluðum „Heimsmarkmiðasjóði“ sem meðal annars er ætlað að virkja samstarf við einkageirann til þátttöku í verkefnum sem tengjast Heimsmarkmiðum SÞ til hagsbóta fyrir fátæk lönd.

Ráðherra nefndi einnig að nú væri komið að því beina sjónum til Afríku í tengslum við viðskipti. Hann sagði að ákveðið hafi verið, samkvæmt tillögum í skýrslunni „Utanríkisþjónusta til framtíðar“ að færa út verksvið sendiráða Íslands í Úganda og Malaví, fyrst með því að skipa sendiherra í Kampala í Úganda. „Þar með styrkist mjög staða sendiráðsins til að sinna fjölbreyttari verkefnum en áður, einkanlega á sviði stjórnmálasamskipta og viðskipta í Austur-Afríku. Er þetta liður í því að hjálpa íslenskum fyrirtækjum til athafnasemi í álfunni. Í sigdalnum mikla í Austur-Afríku eru miklir möguleikar til jarðhitanýtingar og þörf á tækniþekkingu á svæðinu. Fyrirhugað er að sendiráðið í Kampala byggi upp öflugt net kjörræðismanna í Austur-Afríku sem sinni íslenskum viðskiptahagsmunum og borgaraþjónustu. Sendiráðið verður einnig með fyrirsvar gagnvart Eþíópíu og Afríkusambandinu en það er með höfuðstöðvar í Addis Ababa. Með fyrirsvari þar er hægt ná til allra ríkja álfunnar og rækta betur sambandið við einstaka ríkjahópa, til að mynda með framboð Íslands til setu í stjórnum stofnana Sameinuðu þjóðanna í huga,“ sagði Guðlaugur Þór.

Eins og áður hefur komið fram hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka framlög til þróunarsamvinnu á næstu árum og stefnir að því að þau verði 0,35% af vergum þjóðartekjum (VÞT) eftir fimm ár.

Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
17. Samvinna um markmiðin
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum