Hoppa yfir valmynd
13. október 2017 Utanríkisráðuneytið

Málefni norðurslóða og loftslagsmál rædd á fundum utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í dag fjölda funda í tengslum við Hringborð norðurslóða sem sett var í morgun í Hörpu, en um 2.000 þátttakendur frá yfir 50 ríkjum taka þátt í þinginu að þessu sinni.

Málefni norðurslóða og loftslagsmál voru ofarlega á baugi á fundum með Patriciu Espinosa, framkvæmdastjóra loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, dr. Thani Al Zeyoudi, ráðherra loftslagsbreytinga og umhverfismála í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem og með Ségolene Royal, sendiherra Frakklands í málefnum Norðurskautsins. Guðlaugur Þór fundaði einnig með Lin Shanqing, aðstoðarhafmálaráðherra Kína, um samskipti Íslands og Kína á norðurslóðum og í málefnum hafsins, og málefni norðurslóða og útganga Bretlands úr Evrópusambandinu voru meðal umræðuefna á fundi með Nicola Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands.

Bandarískir ráðamenn voru áberandi á Hringborði norðurslóða að þessu sinni og átti utanríkisráðherra fundi með Richard Spencer, flotamálaráðherra, um öryggis- og varnarmál, og Lisu Murkowski, öldungardeildarþingmanni frá Alaska, um samskipti Íslands og Bandaríkjanna á sviði verslunar og viðskipta. Þá fundaði ráðherra með Paul LePage, ríkisstjóra Maine um ört vaxandi samstarf, meðal annars á sviðum viðskipta og samgangna. Einnig átti Guðlaugur Þór fund með Carolyn Bennett, ráðherra frumbyggjamála í Kanada, og Stéphane Dion, sendiherra Kanada gagnvart Þýskalandi og Evrópusambandinu, um samskipti Íslands og Kanada. Að endingu átti utanríkisráðherra fund með Tero Vauraste, formanni Efnahagsráði norðurslóða, og skoðaði ísbrjótinn ísbrjótinn MSV Nordica sem liggur við festar í Reykjavík í tilefni Hringborðs norðurslóða.

„Hringborð norðurslóða dregur að fjölda fólks hvaðanæva að úr heiminum á ári hverju. Margvísleg tækifæri felast í slíku fyrir Ísland og ég hef átt fjölda gagnlegra funda með erlendum ráðamönnum sem hingað eru komnir. Ísland er að mörgu leyti mjög ákjósanlegur staður fyrir umræðu um tækifæri og áskoranir á norðurslóðum. Á hringborðinu á sér stað mjög fjölbreytt samtal um málefni norðurslóða og ráðstefnan er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Jákvætt kastljós beinist að Íslandi þessa daga og Ólafur Ragnar Grímsson á mikið hrós skilið fyrir framtak sitt og elju," segir utanríkisráðherra.

Guðlaugur Þór mun ávarpa Hringborð norðurslóða á morgun og taka þátt í málstofu sem mun fjalla um viðskiptatækifæri á norðurslóðum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum