Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stjórnsýslukæra - ákvörðun tollstjóra vegna tollafgreiðslu sendingar

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 8. ágúst 2017
Tilv.: FJR15060005/16.2.2


Efni: Úrskurður vegna stjórnsýslukæru á ákvörðun tollstjóra, í máli [A], dags. 1. júní 2015.

Ráðuneytið vísar til erindis yðar, sent með tölvupósti hinn 1. júní 2015, þar sem kærð var til ráðuneytisins ákvörðun tollstjóra, dags. 1. júní 2015. Með ákvörðun tollstjóra var tollafgreiðsla sendingar nr. [X] stöðvuð.

Málavextir og málsástæður.
Með tölvupósti dags, 29. maí 2015, fékk kærandi þær upplýsingar frá Tollmiðlun og tollstjóra að við nánari athugun á sendingu [X] hafi komið í ljós að vara sem sendingin innihélt væri ekki CE-merkt. Var tollafgreiðsla hennar stöðvuð í kjölfarið á þeim grundvelli að varan bæri ekki CE-merkingu. Kærandi mótmælti ákvörðuninni þá þegar á þeim forsendum að ekki væri um fjarskiptabúnað að ræða heldur armband með skrefateljara og óskaði eftir því að sendingunni yrði ekki fargað.
Skilningur ráðuneytisins er kærandi krefjist þess að ákvörðun tollstjóra um stöðvun tollafgreiðslu verði felld úr gildi og honum verði jafnframt verði gert skylt að tollafgreiða sendingu nr. [X]. Í kærunni kemur m.a. fram það álit kæranda að umrætt armband geti ekki talist fjarskiptatæki þar sem að einu samskiptin við það séu í gegnum smáforrit í farsímum og þurfi þar af leiðandi ekki að bera CE-merkingu. Loks er tekið fram að tækið noti tíðnir á lágtíðnabandi og svokallaðan blátannar-staðal (e. Bluetooth) til fjarskipta sem er þráðlaus tæknistaðall til að skiptast á gagnasendingum yfir stuttar vegalengdir.

Með bréfi, dags. 2. júní 2015, óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra um kæruna. Í umsögn tollstjóra, dags. 18. júní 2015, kemur m.a. fram að skv. 65. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, sé óheimilt að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur skv. 61. gr. sömu laga og ber CE-merkingu því til staðfestingar. Þá segir efnislega að tollstjóri hafi stöðvað tollafgreiðslu sendingarinnar á grundvelli 130. gr. tollalaga nr. 88/2005, þar sem kveðið er á um að hann skuli stöðva tollafgreiðslu sendingar ef innflutningur vöru sem sending inniheldur er háður skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem ekki er sýnt fram að hafi verið fullnægt. Sama gildir ef innflutningur er háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað.
Með bréfi, dags. 2. júní 2015, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar vegna málsins. Í umsögninni er m.a. vísað til ákvæða 1. mgr. 65. gr. laga nr. 81/2003, reglugerðar nr. 90/2007, um þráðlausan búnað og notendabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra og Evrópugerða þar sem CE-merking er skilgreind aðferð sem notuð er til þess að heimila markaðssetningu hinna ýmsu vöruflokka a hinn innri markað sambandsins. Bent er á að Evrópugerðirnar hafi verið teknar upp í EES-samninginn, innleiddar í íslenskan rétt og séu þ.a.l. hluti af íslenskri löggjöf. Fram kemur að í grunninn sé CE-merkingum fjarskiptatækja ætlað að stuðla að því að ekki séu markaðssett fjarskiptatæki sem trufli fjarskipti. Tekið er fram að afleiðingar þess að fjarskiptatæki sem eru ekki CE-merkt sleppi inn í landi séu misjafnlega alvarlegar. Sum tæki valdi minniháttar truflunum hjá öðrum notendum en önnur valdi alvarlegum truflunum á almennum fjarskiptakerfum og þá þurfti starfsmenn stofnunarinnar að miða þau út, stöðva notkun þeirra, kyrrsetja þau og leggja á þau hald. Álit stofnunarinnar er að tækið sé fjarskiptatæki og þar sem það beri ekki CE-merki hafi verið óheimilt að flytja það til landsins.

Forsendur og niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. tollalaga, nr. 88/2005, skal tollstjóri stöðva tollafgreiðslu sendingar ef innflutningur vöru sem sending inniheldur er háður skilyrðum samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið fullnægt. Sama gildir ef innflutningur er háður leyfum sem ekki er sýnt fram á að hafi verið aflað. Af sérstökum athugasemdum við 130. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2005 leiðir að í eftirlitshlutverki tollstjóra með inn- og útflutningi felist m.a. að honum beri að stöðva inn- og útflutning sem ekki fullnægir settum reglum.

Í 1. málsl. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, er kveðið á um að óheimilt sé að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur skv. 61. gr. og ber CE-merkingu því til staðfestingar. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi teljst markaðssetning í þessu sambandi. Samkvæmt 16. tölul. 3. gr. laga nr. 81/2003 fela fjarskipti í sér hvers konar sending og móttöku tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum, með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulkerfum. Samkvæmt a-lið 3. gr. reglugerðar nr. 90/2007, um þráðlausan búnað og notendabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra, er fjarskiptatæki allur búnaður, sem er annaðhvort notendabúnaður til fjarskipta eða þráðlaus búnaður, eða hvort tveggja. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er óheimilt er að setja á markað önnur fjarskiptatæki en þau sem bera CE-merkingu.

Af 1. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2005 leiðir að tollstjóra er skylt að stöðva tollafgreiðslu vara sem ekki uppfylla skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Af ákvæði 1. mgr. 65. gr. laga nr. 81/2005 sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 90/2007 leiðir að einstaklingum og lögaðilum er óheimilt að flytja inn fjarskiptatæki sem ekki bera CE-merkingu. Fjarskiptatæki eru vítt skilgreind í a-lið 3. gr. reglugerðar nr. 90/2007. Fyrir liggur að umrætt tæki sé armband með skrefateljara sem getur m.a. fylgst með og mælt hreyfingu og svefn og sent upplýsingar í farsíma. Þar að auki getur armbandið tekið á móti skipun um að titra ef farsíminn hringir. Telur ráðuneytið að varan sem var í sendingu nr. RY901857386SG verði að teljast fjarskiptatæki og að stöðvun tollstjóra á tollafgreiðslu sendingarinnar hafi verið að í samræmi við lög.

Ráðuneytið biðst velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á meðferð málsins.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 1. júní 2015, um að stöðva tollafgreiðslu sendingar nr. [X], er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra









Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum