Hoppa yfir valmynd
15. mars 2013 Innviðaráðuneytið

Áfram veginn – innanríkisráðherra ávarpaði landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga

  „Við höfum fetað saman lýðræðisveginn,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í ávarpi sínu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldið er í dag á Grand Hótel í Reykjavík. Ráðherra vísaði þar til áherslna innanríkisráðuneytisins og Sambandsins og kvaðst telja að með góðu samstarfi hafi brýnum umbótaverkefnum í lýðræðismálum sveitarfélaga verið komið í framkvæmd á liðnum árum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpar landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpar landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Krafan um aukið lýðræði er stöðugt að verða sterkari og árangurinn sést til dæmis í nýjum lögum um sveitarstjórnarmál sem tóku gildi 1. janúar 2012,“ sagði ráðherra. „Þar er frumkvæði íbúa styrkt með því að tiltekinn hluti þeirra getur óskað eftir því við sveitarstjórn að mál verði tekið til afgreiðslu. Þetta er mikið framfaraskref í lýðræðismálum.“ Hann benti einnig á að búið hafi verið í haginn fyrir framtíðina með frumvörpum um persónukjör og rafrænar kosningar. Lögin um rafrænar kosningar muni að öllum líkindum hljóta samþykki og ekki sé útséð með frumvarp um persónukjör en bæði frumvörpin hafi fengið mjög góðar undirtektir hjá fulltrúum allra stjórnmálaflokka í umræðum á Alþingi.

Innanríkisráðherra ræddi einnig samgöngumál og þá áherslubreytingu sem orðið hafi á undanförnum árum með því að horfa á þau heildstætt. Nú væri búið að sameina ýmsar samgöngustofnanir og þar væri allt undir: sjór, land og loft.  Hann ræddi áfanga sem náðst hefðu; nú væru tvö skipafélög til að mynda að hefja strandsiglingar í kjölfar þess að ákveðið hafi verið af hálfu hins opinbera að fara í tilraunverkefni um slíkar siglingar. „Til útboðsins kom ekki þar sem skipafélögin tilkynntu að þau ætli að hefja strandsiglingar strax á næstu dögum. Við gleðjumst við yfir því að aðilar á markaði ræki þetta hlutverk á sama tíma og við fylgjumst vel með framvindunni. Á meðan er  útboði frestað.“

Ráðherra fjallaði líka um almenningssamgöngur og kvaðst telja að ákarðanir um stuðning eigi að liggja hjá landshlutasamtökunum. Hann fjallaði einnig um og aðstöðu innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli, sem hann kvaðst ávallt hafa lagt áherslu á að bæta. Ekkert yrði undirritað af hálfu innanríkisráðuneytisins fyrr en allir enda hefðu verið hnýttir.

Þá fjallaði innanríkisráðherra um löggæslumál og sagðist  hafa kynnt ríkisstjórn í morgun skýrslu nefndar um eflingu lögreglunnar sem í eiga sæti fulltrúar allra stjórnmála um það hvernig bæta megi stöðu lögreglunnar. Þar sé efling löggæslu á landsbyggðinni og í dreifðum byggðum landsins sett í forgang.

Yfirskrift landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga í ár er „Áfram veginn“ en þingið í ár er síðasta landsþing kjörtímabils þeirra sveitarstjórna sem nú sitja, 2010-2014. Dagskrá landsþingsins má finna hér á vef sambandsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum