Hoppa yfir valmynd
20. október 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Endurheimt lands í þágu loftslagsmála

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, tók í dag þátt í 12. aðildarríkjaþingi Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD COP12), sem fram fer í Ankara í Tyrklandi. Landgræðsla og aðrar aðgerðir gegn hnignun lands og eyðimerkurmyndun voru eitt helsta viðfangsefnið en ljóst er að bein tengsl eru á milli landeyðingar, eyðimerkurmyndunar og loftslagsbreytinga sem aftur hefur bein áhrif á meðal annars flóttamannavanda samtímans.

Gunnar Bragi flutti aðalræðu við hringborðsumræður um aðgerðir til að vinna gegn landeyðingu. Ráðherra sagði frá yfir aldalangri baráttu Íslendinga gegn gróðureyðingu með landgræðslu og starfi Landgræðsluskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hann sagði nauðsynlegt að Íslendingar miðluðu af þekkingu sinni af þessu starfi, en aukin menntun er talin ein mikilvægasta leiðin til að ná bættum árangri í framtíðinni. Hann fagnaði því að endurheimt lands væri eitt heimsmarkmiðanna sem samþykkt voru í september, en Ísland, ásamt sérstökum vinahópi Eyðimerkursamningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, beittu sér sérstaklega í þessum tilgangi.

Ríkjaráðstefnan er fyrsti stóri fundurinn á vegum SÞ eftir að heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru samþykkt. Ný heimsmarkmið eru áskorun og gefa þjóðum heims tilefni til að sameinast um að auka jafnrétti, tryggja fæðuöryggi, lífræðilegan fjölbreytileika og um leið að sporna gegn neikvæðum loftslagsbreytingum. Meðal þeirra mála sem fjallað er um á þinginu er hvernig innleiða megi heimsmarkmið um að ekki tapist meira land en það sem er endurheimt fyrir árið 2030. Samlegð samninga Sameinuðu þjóðanna er einnig mikið rædd og hvernig vinna megi nánar að stöðvun landhnignunar og endurheimt landgæða í þágu loftslagsmála og er þá horft til loftslagssamnings SÞ sem haldinn verður í París í desember nk.

Þá stýrði Gunnar Bragi morgunverðarfundi ráðherra vinahópsins um eyðimerkurmyndun sem framkvæmdastýra samingsins, Monique Barbut, tók þátt í ásamt aðstoðarframkvæmdastjóra SÞ um málefni vanþróuðustu ríkja.

Um 3000 manns, þar af um 100 ráðherrar og þjóðarleiðtogar, sækja þingið sem stendur frá 12-24. október.

Ræða utanríkisráðherra:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum